Segjum að við höfum þrjá eða fleiri punkta sem liggja í sama slétta fletinum. Látum $n$ tákna fjölda punktanna og tölusetjum þá frá 1 og upp í $n$. Teiknum nú strik frá fyrsta til annars punktsins, frá öðrum til þriðja punktsins, og svo koll af kolli. Endum á að teikna strik frá síðasta punktinum til fyrsta punktsins. Á þennan hátt verður til form sem samsett er úr $n$ strikum sem mynda $n$ horn. Þetta form kallast hyrningur eða marghyrningur. Strikin kallast hliðar hyrningsins og endapunktar þeirra kallast hornpunktar hans.Hugtökin þríhyrningur, ferhyrningur, fimmhyrningur, sexhyrningur, og svo framvegis, eru síðan skilgreind á augljósan hátt. Við þessa umfjöllun má nú bæta að reglulegur hyrningur er hyrningur þar sem allar hliðar eru jafnlangar og öll horn eru jafnstór. Á myndinni að neðan gefur að líta tvo slíka hyrninga; annars vegar reglulegan fimmhyrning og hins vegar reglulegan átthyrning.
Reglulegir þríhyrningar eru reyndar oftar kallaðir jafnhliða þríhyrningar og reglulegir ferhyrningar eru oftar kallaðir ferningar.
Formið til vinstri er jafnhliða þríhyrningur og formið til hægri er ferningur.
Í venjulegri rúmfræði er þekkt sú regla að hornasumma hyrnings með $n$ hliðar fæst með eftirfarandi formúlu: \[(n-2) \cdot 180°.\] Þar sem öll horn í reglulegum hyrningi eru jafnstór þýðir þetta að stærð hvers horns í slíkum hyrningi fæst á eftirfarandi hátt: \[\frac{(n-2) \cdot 180°}n,\] þar sem $n$ er fjöldi hliða. Til dæmis hefur þetta í för með sér að stærð hvers horns í reglulegum átthyrningi er \[\frac{(8-2) \cdot 180°}8 = 135°.\] eins og kom fram á efstu myndinni í svarinu. Allt frá dögum Forn-Grikkja veltu stærðfræðingar fyrir sér hvernig hægt væri að teikna reglulega hyrninga með því að nota aðeins hringfara og reglustiku. Í upphafi 19. aldar sýndi þýski stærðfræðingurinn Carl Friedrich Gauss að þetta er aðeins hægt fyrir ákveðna hyrninga, eins og lesa má um í svari Stefáns Inga Valdimarssonar og Eyju Margrétar Brynjarsdóttur við spurningunni Er hægt að teikna 19-hyrning með allar hliðar jafnlangar? Ef það er hægt, hvernig þá? Myndir:
- Allar myndir voru teiknaðar af höfundi svarsins.