Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hér að ofan má sjá mynd af 19-hyrningi sem hefur allar hliðar jafnlangar. Hann er teiknaður með því að búa til 19 jafnlöng strik og hafa jafnstórt horn milli hverra tveggja aðliggjandi strika.
Engu máli skiptir hve margar hliðarnar (eða hornin) eru; það er alltaf hægt að teikna marghyrning sem hefur allar hliðar jafnlangar. Hornasumma marghyrnings þar sem fjöldi hliða er $n$, reiknuð í gráðum, er:
$$180\cdot n-360$$
Hornasumma 19-hyrnings er því $180^{\circ}\cdot19-360^{\circ}=3060^{\circ}$. Hornin milli aðliggjandi hliða eru ${\frac{3060}{19}}^{\circ}$ eða $161 {\frac{1}{19}}^{\circ}$.
Hins vegar eru 19-hyrningar ekki meðal þeirra forma sem hægt er að teikna með einföldustu hjálpartækjum. Komið hefur fram hér á Vísindavefnum að stærðfræðingar veltu því fyrir sér í meira en tvö þúsund ár hvernig hægt væri að teikna hin ýmsu form með hringfara og reglustiku eingöngu. Aðferðir til að búa til reglulega þríhyrninga og fimmhyrninga með þessum tækjum hafa lengi verið þekktar og árið 1796 sýndi hinn merki stærðfræðingur Carl Friedrich Gauss fram á að reglulegan 17-hyrning má teikna með hrigfara og reglustiku. Árið 1801 afgreiddi Gauss spurninguna um teiknanleika $n$-hyrninga endanlega með því að sýna að hægt sé að teikna reglulegan $n$-hyrning með hringfara og reglustiku ef og aðeins ef $n$ er á forminu
$$n=2^k\cdot p_1\cdot p_2\cdot...\cdot p_i$$
þar sem $k$ er heiltala og $p_1$, $p_2$, ... og $p_i$ eru ólíkar prímtölur sem skrifa má á forminu $2^{2^m}+1$, þar sem $m$ er einhver heltala stærri en eða jöfn 0. Þessar tölur eru svo kallaðar Fermat-prímtölur og til þessa dags eru einungis fimm þekktar: 3, 5, 17, 257 og 65537.
Af þessu sést meðal annars að ekki er hægt að teikna reglulegan 19-hyrning með hringfara og reglustiku. Þess má að lokum geta að þeir $n$-hyrningar með $n$ 20 eða minna sem teikna má með títtnefndum verkfærum eru 3-, 4-, 5-, 6-, 8-, 10-, 12-, 15-, 16-, 17- og 20-hyrningur. Þetta er ekki hægt ef $n$ er 7, 9, 11, 13, 14, 18 eða 19.
Mynd:
Stefán Ingi Valdimarsson og Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Er hægt að teikna 19-hyrning með allar hliðar jafnlangar? Ef það er hægt, hvernig þá?“ Vísindavefurinn, 17. október 2000, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1001.
Stefán Ingi Valdimarsson og Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2000, 17. október). Er hægt að teikna 19-hyrning með allar hliðar jafnlangar? Ef það er hægt, hvernig þá? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1001
Stefán Ingi Valdimarsson og Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Er hægt að teikna 19-hyrning með allar hliðar jafnlangar? Ef það er hægt, hvernig þá?“ Vísindavefurinn. 17. okt. 2000. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1001>.