Hver er ástæðan fyrir því að hér á landi er svokallað jólabókaflóð árviss viðburður?Á árunum eftir seinna stríð streymdu peningar inn í landið. Íslendingar nutu góðs af Marshall-aðstoð Bandaríkjamanna, stórbrotinni áætlun sem var ætlað að endurreisa Evrópu eftir hörmungar stríðsins. Auk þess hafði vera hersins hér á landi í för með sér mikil umsvif og atvinnu fyrir þúsundir Íslendinga. Ein afleiðingin af þessum efnahagslegu breytingum varð sú að fólk hafði umtalsvert meiri peninga til umráða en áður en vegna efnahagsástands í heiminum var innflutningur erfiður og ekki mikið úrval af vörum í íslenskum verslunum. Það gat þess vegna verið snúið að finna gjafir, bæði fyrir börn og fullorðna. Þessi vandi leystist á nokkuð óvæntan hátt sem jafnframt sýnir hvernig bókmenntir og efnahagslíf geta tengst saman. Ein þeirra vörutegunda sem auðvelt var að flytja inn var pappír. Leiðin til að auka verðmæti hans var að prenta á hann bækur. Á árunum eftir stríð fóru íslenskir kaupsýslumenn og aðrir því að gefa út bækur og auglýsa þær sem gjafavöru fyrir jólin. Til varð fyrirbærið „jólabókaflóð“ sem varð hryggjarstykkið í útgáfu íslenskra bókmennta, skáldsagna, ævisagna, minningabóka, fræðirita, frumsaminna og þýddra, alla 20. öldina og fram á okkar daga. Á eftirstríðsárunum mótaðist íslenskur bókmenntavettvangur og bókamarkaður í þá mynd sem hann var að mestu leyti fram á 21. öldina. Bókaútgáfa var orðin sjálfstæð atvinnugrein, á áratugunum eftir stríð voru stærstu bókaforlögin þó iðulega nátengd stjórnmálahreyfingum eða ríkisvaldinu. Þótt bókaútgáfa tæki á sig mynd sem líktist meira atvinnuforlögum í nágrannalöndunum var enn þá ómögulegt að lifa af ritstörfum á íslensku einum saman. Ríkisstuðningur við bókmenntir hefur verið einn af hornsteinum íslensks bókmenntalífs alla 20. öldina og fram á þessa. Þessi stuðningur hefur aldrei verið óumdeildur og það var hann svo sannarlega ekki á fimmta og sjötta áratugnum. Mynd:
- Þjóðviljinn - 285. tölublað (15.12.1972) - Tímarit.is. (Sótt 7.09.2023).