Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Orðið bók barst í íslenskt tungumál með kristilegum lærdómi, líklegast úr fornensku þótt til séu lík orð í öðrum skyldum tungumálum frá sama tíma. Það er að minnsta kosti viðeigandi að ætla að fyrirbærið bók hafi fundið sér leið til Íslands með Biblíunni og öllum „bókum“ hennar, en gríska orðið biblos þýðir einmitt bók.
Ritmenning gegndi í fyrstu því hlutverki að varðveita hið mælta mál en stundum var blátt bann lagt við þess háttar varðveislu. Í Spörtu mátti ekki festa lögin á handrit og í Grikklandi til forna skipaði hið talaða orð hærri sess en ritmál. Í samræðunni Fædrus gerir Platón eftirfarandi greinarmun á mæltu máli og rituðu: mælt mál segir sannleikann en ritmáli er hægt að líkja við málverk; ef við spyrjum það einhvers svarar það engu.
Svonefnt bókahjól var fundið upp seint á 16. öld. Það gerði mönnum kleift hafa margar bækur í takinu í einu. Myndin er frá 1719.
Fornir grískir vitnisburðir segja frá því að kvæði, vísindi og heimspeki hafi verið rituð upp og geymd í hofum með innsiglum höfundanna. Innsiglaðir textar benda til þess að varðveisla þeirra hafi setið í fyrirrúmi en minna verið hugað að lestri textanna. Myndir á grískum vösum frá fimmtu öld f. Kr. eru elstu heimildir um að bækur séu ekki eingöngu ætlaðar til varðveislu, heldur að úr þeim sé raunverulega lesið.
Bókin í þeirri mynd sem við þekkjum hana er uppfinning Rómverjanna. Bók með síðum sem hægt er að fletta, svonefnt codex, festist í sessi undir lok þriðju aldar. Áður höfðu menn lesið af rollum, en það voru lengjur úr papýrusblöðum vafin upp á kefli. Kristnir menn tóku bókinni fegins hendi og flest öll kristin rit voru í bókarformi.
Þegar farið var að lesa af bók í stað rollu breyttist lestur töluvert. Önnur höndin var nú laus við lestur og þá var hægt að skrá athugasemdir á spássíu bókanna. Sú iðja að skrifa í bækur við lestur á sér rætur í þessu nýja formi textans. Rollur höfðu verið bundnar ákveðnum staðli en með tilkomu hins nýja forms var hægt að gefa út bækur í ýmsum stærðum, allt frá handhægum vasabókum til stórra voldugra rita sem varð að lesa við púlt. Í bókasöfnum miðalda voru orðabækur og stór uppflettirit sem oft þurfti að grípa til fest með keðjum við lesborð.
Í klaustrum miðalda var meira um að menn skrifuðu bækur en að þær væru lesnar. Uppskriftir á bókum sem stundaðar voru þar af kappi voru öðrum þræði nokkurs konar bænaform. Með vexti borga og stofnum skóla frá lokum 11. aldar til þeirrar 14. fer lestur aftur að skipa veigamikinn sess í öllu menningarlífi. Í stað þess að einbeita sér að söfnun og varðveislu urðu bókasöfn þá að lestrastofnunum. Bókaskrár sem greina frá því hvar rit séu geymd í söfnum eru teknar upp og önnur nýjung frá þessum tíma er minnismiði sem tiltekur að ákveðin bók sé í láni.
Í fyrstu var bókin notuð til að geyma allskyns hversdagslegar skrár og upplýsingar, tengdar verslun og viðskiptum eins og bók-hald enn þann dag í dag, og það er ekki fyrr en löngu síðar sem bókin fer að tengjast skáldskap eða fræðum svo til verða bók-menntir í því samhengi sem við hugsum flest um bækur. Til dæmis er ekki minnst einu orði á bækur í bókinni Um skáldskaparlistina eftir Aristóteles, þótt orðið sé núna látið ná yfir öll skáld- og fræðaverk, upprunalega á öðrum formum, svo sem rollum fornaldar eða geisladiskum nútímans.
Handrit frá miðöldum.
Ætla má að tengingin milli skáldskapar og bóka hafi orðið til samtímis skáldsöguforminu, þegar skáldskapur fór í fyrsta sinn að vera til lesturs eingöngu. Eldri form og skáldskapargreinar höfðu alltaf miðast við lifandi flutning og gerðu kröfur til minnis og leikhæfileika skálda og annarra flytjenda, en um slíkar greinar skrifaði Aristóteles einmitt. Bók-menntir eru þannig nútímalegt fyrirbæri sögulega séð, í þeirri mynd sem við þekkjum þær, þótt þær eigi sína þróunarsögu að minnsta kosti frá silfuröld rómversks skáldskapar um og eftir Krists burð, til Don Kíkóta Cervantesar og áfram.
Ástæðurnar að baki bókaskrifum eru sjálfsagt næstum því jafn margar og bækurnar. En hvort sem yfirlýst markmið er til dæmis listrænt (skáldskapur), fjárhagslegt (metsölubækur ýmiskonar), eða praktískt (handbækur og allskyns fræði), þá liggur alltaf að baki einhver þörf á að miðla upplýsingum til ímyndaðs lesanda. Þá skiptir ekki máli hvort höfundurinn reiknar með því að lesandinn sé einn af milljónum eða aðeins höfundurinn sjálfur.
Mynd:
Jón Gunnar Þorsteinsson og Unnar Árnason. „Hvað er bók og til hvers skrifum við bækur?“ Vísindavefurinn, 28. júní 2002, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2540.
Jón Gunnar Þorsteinsson og Unnar Árnason. (2002, 28. júní). Hvað er bók og til hvers skrifum við bækur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2540
Jón Gunnar Þorsteinsson og Unnar Árnason. „Hvað er bók og til hvers skrifum við bækur?“ Vísindavefurinn. 28. jún. 2002. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2540>.