Er það ólöglegt að neita fólki um vatn að drekka? Ég hef heyrt að það sé ólöglegt samkvæmt Grágás eða Jónsbók og að þau lög séu ennþá í gildi.Grágás er lagasafn frá þjóðveldistímanum og Jónsbók var önnur tveggja lögbóka sem Magnús lagabætir lét gera fyrir Ísland og var hún samþykkt á Alþingi með breytingum árið 1281. Um ritin tvö er fjallað nánar í svari eftir sama höfund við spurningunni Hvaða bækur eru Grágás og Jónsbók? Ekki voru til almenn ákvæði um leyfi til að drekka úr lindum og uppsprettum í Grágás eða Jónsbók en drykkjarréttur er tryggður í sérstökum tilvikum. Til voru að minnsta kosti þrjú ákvæði í Grágás sem tekin voru upp í Jónsbók um rétt manna til drykkjarvatns. Í 5. kafla Farmannalaga Jónsbókar segir að kaupmenn megi halda til hafna þar sem aðstaða er til að taka skipin upp á land, það er skipauppsát. Þar mega þeir koma sér fyrir og „neyta vatns og haga“ án þess að greiða gjald fyrir. Í 17. kafla Farmannalaga segir að leggja megi skipi við akkeri og fara í land til að „taka vatn“. Í 3. kafla Rekaþáttar segir að sá sem finnur hval í annars manns fjöru megi sækja hvalinn en „ ... neyta þar engis nema vatns og haga.“ Samskonar ákvæði eru í Grágás um skipauppsát og neyslu vatns og haga, samanber 61. kafla Festaþáttar Staðarhólsbókar (166. kafla Konungsbókar), en um hvalrekann er fjallað í 57. kafla Landabrigðisþáttar Grágásar. Sá sem sækir hvalinn má neyta vatns en ekkert er minnst á haga. Ákvæði 3. kafla Rekaþáttar Jónsbókar eru í núgildandi lagasafni Íslands þannig, að sá sem sækir hvalinn getur neytt vatns á leið sinni og getur þakkað Magnúsi lagabæti að hann nýtur einnig hagans. Vafalaust verður að lögjafna frá þessum ákvæðum frekar en að gagnálykta. Það þýðir að svipuð regla eigi að gilda í svipuðum tilvikum frekar en að álykta sem svo að úr því að þessi tilvik eru upptalin eigi andstæð regla að gilda um önnur. Því hefur það áreiðanlega verið talið sjálfsagt að ferðamenn ættu á för sinni rétt á því að teyga vatn úr lindum landsins og óheimilt hefur verið að banna þeim það.

Ekki voru til almenn ákvæði um drykkjurétt í Grágás eða Jónsbók. Áreiðanlega var talið sjálfsagt að ferðamenn ættu á för sinni rétt á því að teyga vatn úr lindum landsins og óheimilt hefur verið að banna þeim það. Á myndinni sést foss í Selá á Vaðlaheiði en yfir heiðina voru þjóðleiðir frá fornu fari.

Um almenninga gátu allir farið og neytt bæði vatns og haga og veitt bæði fugla og fiska, eins og segir í Skarðsbók Jónsbókar.
- Mynd af foss í Selá á Vaðlaheiði: ÞH.
- AM 350 fol. handrit.is. (Sótt 22.9.2023).