Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvaða bækur eru Grágás og Jónsbók?

Þorsteinn Hjaltason

Allsherjarríki eða þjóðveldi var stofnað á Íslandi á 10. öld. Eftir það giltu ein lög fyrir alla í landinu, sem var næstum einsdæmi í Evrópu. Til eru tvö stór og heilleg skinnhandrit af þjóðveldislögunum, Staðarhólsbók og Konungsbók, auk töluverðs fjölda brota. Talið er að þessar bækur hafi verið ritaðar um miðja 13. öld. Þegar kom fram á 16. öld héldu margir að bækurnar hefðu að geyma Grágásarlögin, sem Magnús góði Noregskonungur setti Þrændum á 11. öld í Noregi. Vegna þessa misskilnings var farið að nefna lögin Grágás og það festist. Konungsbók og Staðarhólsbók eru stærstu lagarit sem forngermanskar þjóðir hafa látið eftir sig á móðurmáli sínu.

Opna úr Staðarhólsbók (AM 334 fol.) en hún er annað helsta handrit Grágásar og eina skinnhandrit Járnsíðu.

Um miðja 13. öld hófst konungssamband Íslands og Noregs. Hákon 4. gamli Hákonarson (1204-1263) náði að friða Noreg og hóf endurskoðun laga Noregs. Sonur hans Magnús 6. (1238-1280) tók við völdum árið 1263 og hélt löggjafarstarfinu áfram með svo miklum sóma að Íslendingar gáfu honum nafnbótina lagabætir. Magnús lagabætir lét gera tvær lögbækur fyrir Ísland. Hin fyrri var nefnd Járnsíða og var lögtekin á Alþingi 1271-1273 en hún gilti ekki lengi. Árið 1280 sendi Magnús nýtt lögbókarfrumvarp til landsins og var það samþykkt á Alþingi, með breytingum árið 1281. Í formála sínum með bókinni segist konungur hafa sent hana til landsins með herra Jóni lögmanni Einarssyni. Snemma á 14. öld var farið að kenna bókina við þennan sendimann konungs og kalla hana Jónsbók.

Jónsbók byggði á Grágás en að mestu á Landslögum Magnúsar, sem hann setti öllum Noregi árið 1274. Landslögin voru fyrstu lögin sem giltu um allan Noreg. Landslög Magnúsar voru þýdd á dönsku og endurútgefin í sérstakri lögbók 1604 og giltu í Noregi til 29. september 1688 er Norsku lög Kristjáns V., sem samþykkt voru 15. apríl 1687, tóku gildi. Norsku lög Kristjáns V. voru að hluta til lögtekin fyrir Ísland og giltu samhliða Jónsbók. Enn er eitt ákvæði Norsku laga talið upp í lagasafni Íslands en mun meira er þar úr Jónsbók.

Járnsíða og Jónsbók eru lögbækur sem þýðir að þegar þær voru settar, féllu öll ákvæði þjóðveldislaganna, það er Grágásar úr gildi. En sum ákvæði Grágásar voru tekin upp í Jónsbók og fengu þar framhaldslíf.

Mynd:

Höfundur

Þorsteinn Hjaltason

lögmaður á Akureyri og aðjúnkt við lagadeild Háskólans á Akureyri

Útgáfudagur

25.9.2023

Spyrjandi

Halldóra

Tilvísun

Þorsteinn Hjaltason. „Hvaða bækur eru Grágás og Jónsbók?“ Vísindavefurinn, 25. september 2023, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=85541.

Þorsteinn Hjaltason. (2023, 25. september). Hvaða bækur eru Grágás og Jónsbók? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=85541

Þorsteinn Hjaltason. „Hvaða bækur eru Grágás og Jónsbók?“ Vísindavefurinn. 25. sep. 2023. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=85541>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvaða bækur eru Grágás og Jónsbók?
Allsherjarríki eða þjóðveldi var stofnað á Íslandi á 10. öld. Eftir það giltu ein lög fyrir alla í landinu, sem var næstum einsdæmi í Evrópu. Til eru tvö stór og heilleg skinnhandrit af þjóðveldislögunum, Staðarhólsbók og Konungsbók, auk töluverðs fjölda brota. Talið er að þessar bækur hafi verið ritaðar um miðja 13. öld. Þegar kom fram á 16. öld héldu margir að bækurnar hefðu að geyma Grágásarlögin, sem Magnús góði Noregskonungur setti Þrændum á 11. öld í Noregi. Vegna þessa misskilnings var farið að nefna lögin Grágás og það festist. Konungsbók og Staðarhólsbók eru stærstu lagarit sem forngermanskar þjóðir hafa látið eftir sig á móðurmáli sínu.

Opna úr Staðarhólsbók (AM 334 fol.) en hún er annað helsta handrit Grágásar og eina skinnhandrit Járnsíðu.

Um miðja 13. öld hófst konungssamband Íslands og Noregs. Hákon 4. gamli Hákonarson (1204-1263) náði að friða Noreg og hóf endurskoðun laga Noregs. Sonur hans Magnús 6. (1238-1280) tók við völdum árið 1263 og hélt löggjafarstarfinu áfram með svo miklum sóma að Íslendingar gáfu honum nafnbótina lagabætir. Magnús lagabætir lét gera tvær lögbækur fyrir Ísland. Hin fyrri var nefnd Járnsíða og var lögtekin á Alþingi 1271-1273 en hún gilti ekki lengi. Árið 1280 sendi Magnús nýtt lögbókarfrumvarp til landsins og var það samþykkt á Alþingi, með breytingum árið 1281. Í formála sínum með bókinni segist konungur hafa sent hana til landsins með herra Jóni lögmanni Einarssyni. Snemma á 14. öld var farið að kenna bókina við þennan sendimann konungs og kalla hana Jónsbók.

Jónsbók byggði á Grágás en að mestu á Landslögum Magnúsar, sem hann setti öllum Noregi árið 1274. Landslögin voru fyrstu lögin sem giltu um allan Noreg. Landslög Magnúsar voru þýdd á dönsku og endurútgefin í sérstakri lögbók 1604 og giltu í Noregi til 29. september 1688 er Norsku lög Kristjáns V., sem samþykkt voru 15. apríl 1687, tóku gildi. Norsku lög Kristjáns V. voru að hluta til lögtekin fyrir Ísland og giltu samhliða Jónsbók. Enn er eitt ákvæði Norsku laga talið upp í lagasafni Íslands en mun meira er þar úr Jónsbók.

Járnsíða og Jónsbók eru lögbækur sem þýðir að þegar þær voru settar, féllu öll ákvæði þjóðveldislaganna, það er Grágásar úr gildi. En sum ákvæði Grágásar voru tekin upp í Jónsbók og fengu þar framhaldslíf.

Mynd:...