
Piltur og stúlka er fyrsta íslenska skáldsagan sem prentuð er. Hún var fyrst prentuð í 500 eintökum í Kaupmannahöfn í apríl 1850.
en var þreyjulítill, fór jafnan milli manna, og hafði ofan af fyrir sér með því að segja sögur, og grófst um leið eftir sögnum þar sem sögufróðir menn vóru. Allar þær sögur, bæði sem hann kunni sjálfur, og þær sem honum vóru sagðar, skrifaði hann upp hjá sér í mikið safn. En af því maðurinn var kallaður skáld og gáfaður, en jafnframt sérvitur, þá setti hann allar þessar sögur saman eins og honum bauð við að horfa, í eina sögu, og orti vísur inn í, og er því ekki hægt að vita hvað verið hafi samsetningur hans og hvað sé alþýðusögur. Þetta sögusafn sitt greindi hann að sögn í tvær aðaldeildir, vóru í annarri álfasögur; hana kallaði hann Ólafs sögu Þórhallasonar, en í hinni vóru ævintýri; hana nefndi hann Ólandssögu (Guðbrandur Vigfússon, xxiv).Þessar sögur Eiríks hafa verið gefnir út af Þorsteini Antonssyni og Maríu Önnu Þorsteinsdóttur (1987 og 2006). Sögurnar eru byggðar á þjóðsagnaefni og heimarnir sem þær lýsa eru ævintýralegir. Saga Ólafs Þórhallasonar: Álfasagan mikla er varðveitt í eiginhandarriti höfundar frá því um 1800. Aðalpersónan Ólafur rís úr öskustónni (svokallað kolbítsminni) og leggur land undir fót. Hann hittir marga að máli sem segja honum ævintýri og eru það yfirleitt álfkonur sem eru auðugar, vel til fara og tala hátíðlegt mál. Álfheimurinn er neðanjarðar og að nokkru leyti eins og hugmynd upplýsingarmanna um betra og fullkomnara mannlíf. Kynni Ólafs af álfunum þroska hann og sagan markast af ferðalögum og leit eins og oft er í þroskasögum; sú leit getur verið á trúarlegum forsendum eins og í sögu Jóns Oddssonar Hjaltalín um Hinrik heilráða. Frásögnin í Sögu Ólafs Þórhallasonar er þéttofin og hefur öll helstu einkenni skáldsögu. Ólandssaga Eiríks, sem er skrifuð um 1777, er einnig ævintýraleg en hún fjallar um átök konungsætta og kynjavera á víkingatímanum. Sögusviðið er „ólandið“ eða útópían Evrópa og stutt í siðaboðskap enda eru persónur ýmist góðar eða vondar. Sagan er eins konar sagnasveigur og byggð upp af laustengdum frásögnum sem einn segir öðrum eins og ævintýrasafninu Þúsund og einni nótt. Austurlensku ævintýrin voru þekkt á Íslandi og til í þýðingu og endursögn í ýmsum handritum, til dæmis í Lbs. 1855 4to frá árinu 1816, en síðar á 19. öld var prentuð sú þýðing þeirra sem fór víðast, Þúsund og ein nótt: Arabískar sögur (1857-1864) eftir Steingrím Thorsteinsson. Austurlensk minni koma meðal annars fyrir í Fimmbræðrasögu Jóns Oddssonar Hjaltalín og hann þýddi líka söguna Zadig eftir Voltaire (eftir danskri þýðingu) sem fjallar um leitina að lífshamingjunni í Mið-Austurlöndum. Menningararfur þessa austræna heimshluta hafði líka ratað til þjóðarinnar eftir öðrum leiðum því að hún hafði um aldir þekkt sögusamsteypur eins og Biblíuna og þá frásagnarhefð sem átti uppruna sinn fyrir botni Miðjarðarhafsins.

Frásagnir Eiríks Laxdal (1743-1816) standa nokkuð nálægt nútímaskáldsögum. Í Ólandssögu er sögusviðið „ólandið“ eða útópían Evrópa. Sagan er eins konar sagnasveigur og byggð upp af laustengdum frásögnum. Myndin er af eiginhandarriti Eiríks af Ólandssögu.
- Bækur.is - Piltur og stúlka :. (Sótt 18.10.2016).
- Lbs 152 fol. | Handrit.is. (Sótt 16.08.2023).