Hver er uppruni nafnsins Líneik? Og þá orðsins líneik? Ég veit af meiningunni kona/ung kona og þekki m.a. ljóðið úr Víglundar sögu þar sem ’Langúðig strauk löðri Iíneik um skör mína’ kemur fram. Ég er mjög áhugasöm um hvaðan það er og hvenær það kemur fram, í hvaða samhengi það var notað og allt sem er í boði bara.Orðið líneik er kvenkenning sem elst dæmi virðist um í 21. kafla Víglundar sögu samkvæmt orðabókinni Lexicon poeticum sem Sveinbjörn Egilsson safnaði til. Orðið er samsett úr lín ‘hör; léreft’ og eik ‘eikartré’. Ritmálssafn Orðabókar Háskólans hefur dæmi um orðið einungis úr kveðskap, átta dæmi alls. Elstu dæmin eru frá 17. öld í riti Ólafs Davíðssonar:
Nú skal ljóða lykta sæði /líneik fróða hljóti gæði. (III: 183) lángvel kunni líneik sú / lögum við makt að halda. (III: 286)Elsta dæmið um eiginnafnið Líneik er að finna í manntali frá 1880. Þar er ein stúlka, Líneik Einarsdóttir, skráð þessu nafni í Svalbarðssókn í Norður-Þingeyjarsýslu. Í manntali 1901 er að finna aðra stúlku í Útskálasókn í Gullbringusýslu og í manntali 1910 eru þrjár konur skráðar með nafninu. Hin elsta þeirra sú sama og kemur fyrir í manntalinu 1910, Líneik Dagbjört Sigríður Jónsdóttir á Nýjabæ í Gullbringusýslu, fædd 1894. Hinar tvær voru fæddar 1897 og 1902.
- Jón Árnason. 1966. Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. Ný útgáfa. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. II:318–323. (Í fyrri útgáfu II: 326–32).
- Ólafur Davíðsson, 1894. Íslenzkir vikivakar og vikivakakvæði. Í Íslenzkar, gátur, skemtanir, vikivakar og þulur. Þriðji hluti. Kaupmannahöfn.
- Sveinbjörn Egilsson. 1916. Lexicon poeticum antiquæ linguæ septentrionalis. 2. útgáfa: Finnur Jónsson. 1931. Kaupmannahöfn.
- Ritmálssafn Orðabókar Háskólans. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. (Sótt 25.6.2023).
- Þjóðskjalasafn Íslands. Manntalsvefur.(Sótt 25.6.2023).
- Hagstofa Íslands. Nafnaleit (Sótt 25.6.2023).
- Pixabay. (Sótt 3.7.2023).