Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Er eitthvað sem rennir vísindalegum stoðum undir staðhæfingar um að maðurinn hafi hægt á sinni líffræðilegu þróun sem lífveru með sífelldum heilsufræðilegum inngripum og mótun umhverfisins að eigin hentugleika, frekar en að gefa lífverunni færi á að breytast til að aðlagast aðstæðum eða eins konar "þróunarfæðilega tilraunastarfsemi"?
Spurningin er hvort við mennirnir höfum sloppið frá náttúrulegu vali og þróumst ekki lengur vegna þess að við höfum betrumbætt umhverfi okkar, til dæmis með betri heilbrigðisþjónustu. Höfundur hefur áður svarað svipaðri spurningu á Vísindavefnum: Hafa nútímalæknavísindi gert okkur ónæm fyrir lögmálum Darwins? Stutta svarið við þeirri spurningu var, líklega ekki. Spurningin sem hér er reynt að svara er „mildari“ útgáfa af eldri spurningunni. Og stutta svarið er, já mögulega. Munurinn liggur í orðunum, „ónæm fyrir lögmálum Darwins“ og „hefur hægt á þróun“.
Lögmál Darwins þýðir hér náttúrulegt val, sem er krafturinn sem hefur mest áhrif á þróun lífvera.[1] Í fyrrnefndu svari kemur fram að náttúrulegt val er afleiðing þess að:
einstaklingar í stofni eru ólíkir
breytileikinn á milli þeirra er arfgengur (að hluta að minnsta kosti)
einstaklingar æxlast mishratt (þ.e.a.s. eignast mismörg afkvæmi eða lifa mislengi).
Af þessum ástæðum veljast vissar gerðir einstaklinga fram yfir aðrar, alveg náttúrulega. Og vegna þess að barátta er fyrir lífinu og ekki komast allir einstaklingar á legg eða eignast afkvæmi, mun náttúrulegt val leiða til aðlögunar lífvera.
Mögulega hafa framfarir í heilbrigðisvísindum með nýjum meðferðum, bólusetningum og lyfjum hægt á náttúrulegu vali.
Þróun er breyting á erfðasamsetningu stofna lífvera yfir kynslóðir. Mestu skiptir að náttúrulegt val kemur í tveimur meginblæbrigðum. Jákvætt val leiðir til betrumbóta á eiginleikum lífvera þannig að þær verða aðlagar sínu umhverfi. Við menn erum aðlagaðir okkar umhverfi, göngum á tveimur fótum og notum hitt par útlimanna til ýmissa kúnsta. Síðan hefur í okkar hóp líka þróast greind og félagsfærni umfram aðrar tegundir á jörðinni. Hin gerðin af náttúrulegu vali fjarlægir skaðlegar stökkbreytingar eða óhæfari gerðir úr stofninum. Þessi gerð er því kölluð hreinsandi val. Sú seinni skiptir meira máli fyrir þessa umræðu.
Eiginleikar lífvera eru aðlaganir sem byggst hafa upp yfir þróunarsöguna í þúsundir og milljónir ára. Breytileiki milli einstaklinga, hvað varðar ákveðna eiginleika, eins og efnaskiptagetu eða hæfileika til forðasöfnunar, er tengdur mismun í genum, umhverfi og samspili beggja þátta, en getur einnig komið af tilviljun. Hver tegund býr yfir ákveðinni erfðafræðilegri færni sem passar yfirleitt vel inn í umhverfi hennar. Undantekningar frá þessu eru ef tegundin hefur nýlega skipt um umhverfi eða ef umhverfið breytist mjög mikið á skömmum tíma. Hvað mannkynið varðar þá hefur umhverfi og aðstæður breyst frá því að forfeður okkar príluðu í trjám í Afríku fyrir um 5 milljónum ára. Nýjustu breytingar eru tengdar landbúnaðarbyltingunni, iðnbyltingunni og velmegunarsamfélögum síðustu aldar. Ýmsir hafa rætt um þann möguleika að við séum ekki endilega fullkomlega aðlöguð þessu nýja umhverfi sem við höfum búið okkur. Með öðrum orðum að það sé enn rými fyrir jákvætt val.
Miklar framfarir hafa orðið í heilbrigðismálum með nýjum meðferðum, bólusetningum og lyfjum. En jafn mikilvægar framfarir voru hreinlæti, útrýming hungurs og félagslegur jöfnuður. Það hefur aukið lífslíkur mannkyns mjög mikið á síðustu öld rúmri, að meðaltali yfir jarðkringluna. Hreinsandi val fjarlægir erfðagalla. Það er rétt að sumar stökkbreytingar sem áður drógu fólk til dauða eru ekki banvænar í dag. Með þekkingu okkar á eðli sjúkdóma getum við breytt umhverfi genanna. Þannig drögum við úr áhrifum hreinsandi vals, og ályktum (með varfærni) að mögulega hafi hægst á þróun hluta stofns manna. Minnum á að hreinsandi val virkar þó enn í stofnum manna því stór hluti frjóvgaðra eggja verður ekki að heilbrigðum börnum, og fæðingargallar og aðrir erfðatengdir sjúkdómar þekkjast enn. Margir sjúkdómar hafa neikvæð áhrif á frjósemi og því mun hreinsandi val lækka tíðni erfðabreytileika sem ýta undir þá. Nýjar skaðlegar stökkbreytingar verða í hverri kynslóð, og alltaf eru einhverjir erfðagallar hreinsaðir úr stofninum í hverri kynslóð, alveg náttúrulega.[2]
Eiginleikar mannkyns byggja á erfðasamsetningu okkar og umhverfi. Loftslagsbreytingar geta skapað óheppilegt umhverfi fyrir genin okkar.
Tvö atriði sem rétt er að hafa í huga að lokum. Í fyrsta lagi er framförunum sem lýst er að ofan misskipt milli heimsálfa, landa og jafnvel innan sama þjóðríkis. Fæst lönd hafa félagslegt heilbrigðiskerfi sem mismunar ekki þegnum sínum, samanber Ísland og hin Norðurlöndin. Þetta skiptir máli því mannkynið er einn stofn þar sem gen flæða greiðlega milli hópa og landsvæða. Það að 50% mannkyns búið við frábær kjör og heilbrigðisþjónustu (gott umhverfi) dugar ekki til að óvirkja náttúrulegt val í öllum stofninum. Sérstaklega ef hinn helmingur mannkyns býr við slæm kjör og lélegt heilbrigðiskerfi (slæmt umhverfi). Við höfum tilhneigingu til að oftúlka litarhaft og smávægilegan mun í útliti og erfðasamsetningu fólks eftir landsvæðum en þar sem mannkynið er ein erfðafræðileg heild er beinlínis rangt að flokka fólk í kynþætti eins og gjarnan var gert.
Hitt atriðið er alvarlegra. Eiginleikar mannkyns byggja á erfðasamsetningu okkar og umhverfi. Við höfum rætt jákvæðar breytingar á aðstæðum okkar (að minnsta kosti hluta mannkyns), en veruleikinn er sá að við höfum ofnýtt auðlindir jarðar og berum ábyrgð á grafalvarlegum breytingum á loftslagi, höfum, veðrakerfum og vistkerfum jarðar. Fyrirsjáanlegar loftslagsbreytingar munu leiða til súrnunar sjávar, mögulega tilfærslu á hafstraumum, hækkun sjávarborðs og draga úr fæðuframboði á heimsvísu. Ef okkur tekst ekki að draga úr útblæstri lofttegunda sem ýta undur gróðurhúsaáhrifin munu breytingar á þessum kerfum jarðar leiða til þess að mannkynið (við) lendir í mun óheppilegra umhverfi. Það mun hafa meiri áhrif en framfarir í læknavísindum.
Samantekt
Mögulega hefur dregið úr áhrifum hreinsandi náttúrulegs vals, í að minnsta kosti hluta hjá mannkyns.
Bættar aðstæður, næring, bólusetningar og lækningar þurfa að ná til allra á jörðinni til að þetta hafi veruleg áhrif.
Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru alvarlegasta áskorun sem mannkyn stendur frammi fyrir.
Tilvísanir:
^ Aðrir kraftar eru stökkbreytingar, tilviljun, far og stofnbygging. Allir þessir kraftar geta virkað saman á marga ófyrirsjáanlega vegu.
^ Við vörumst að tala um náttúrulegt val sem geranda, og persónugerum það ekki. Það á ekki rétt á sér því náttúrulegt val er algerlega blint og ópersónulegt, bara vélræn afleiðing breytileika, erfða og mishraðrar æxlunar.
Heimildir og myndir:
Arnar Pálsson. (2016, 15. desember). Hafa nútímalæknavísindi gert okkur ónæm fyrir lögmálum Darwins? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/?id=72473
Arnar Pálsson. „Hefur hægt á náttúrlegri þróun mannsins vegna betri lyfja og mótun umhverfis?“ Vísindavefurinn, 23. janúar 2025, sótt 24. janúar 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=85105.
Arnar Pálsson. (2025, 23. janúar). Hefur hægt á náttúrlegri þróun mannsins vegna betri lyfja og mótun umhverfis? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=85105
Arnar Pálsson. „Hefur hægt á náttúrlegri þróun mannsins vegna betri lyfja og mótun umhverfis?“ Vísindavefurinn. 23. jan. 2025. Vefsíða. 24. jan. 2025. <https://visindavefur.is/svar.php?id=85105>.