Hann bauð at menn skyldu hafa, hverr í sínu herbergi [húsi], mark ins helga kross til gæzlu sjálfum sér. Ok þegar er maðrinn vaknaði, þá skyldi hann signa sik ok syngja fyrst Credo in Deum ok segja svá trú sína almáttkum Guði ok ganga svá síðan allan daginn vápnaður með marki heilags kross, því er hann merkði sik með þegar er hann vaknaði, en taka aldregi svá mat eða svefn eða drykk at maðr signdi sik eigi áðr. Hann bauð hverjum manni at kunna Pater noster ok Credo in Deum ok minnask sjau sinnum tíða sinna á hverjum degi, en syngja skylduliga hvert kveld áðr hann sofnaði Credo in Deum (ok) Pater noster. [2]Hér er að sönnu um ótrausta heimild um stefnumótun að ræða sem segir ekkert um framkvæmd. Líklegt er þó að heimilisguðræknin hafi samanstaðið af lestri utan að lærðra bæna og signingum. Sterk innri tengsl hafi líka verið milli hennar og kirkjuguðrækninnar eins og kemur fram í helgitextunum sem fólk átti að kunna og taka undir í messunni, trúarjátningunni (Credo in Deum) og Faðir vor (Pater noster). Á síðari öldum myndaði heimilisguðræknin líklega uppistöðuna í guðrækni þjóðarinnar meðan kirkjuguðræknin þjónaði sem rammi um hana. Heimilisguðræknin leystist að verulegu leyti upp beggja vegna við aldamótin 1900. Kirkjuguðræknin stóð þá höllum fæti og kom ekki í hennar stað. Veldur það því að trúarmenning okkar hefur verið fremur veik upp fá því. Tilvísanir:
- ^ Sjá Hjalti Hugason, „Kristnir trúarhættir“, Íslensk þjóðmenning V, ritstj. Frosti F. Jóhannsson, Reykjavík: Þjóðsaga, 1988, bls. 75–339, hér 77–79, 292–294.
- ^ „Jóns saga ins helga“, Biskupa sögur I, síðari hluti, Sigurgeir Steingrímsson, Ólafur Halldórsson og Peter Foot gáfu út, Íslenzk forrit XV, ritstj. Jónas Kristjánsson, Reykjavik: Hið íslenzka fornritafélag, 2003, bls. 173–316, hér 208–209.
- Grafarkirkja - Flickr. Höfundur myndar: Joe Parks. Birt undir Creative Commons Attribution-NonCommercial 2.0 Generic (CC BY-NC 2.0) leyfi. (Sótt 30.3.2023).