Að velja nýja Hólabiskupinn reyndist auðveldara verk. Auk Gissurar biskups og Hafliða Mássonar goðorðsmann, mun Sæmundur fróði hafa átt þátt í vali biskupsefnisins. Jón var tilnefndur biskup árið 1105 en gat þó ekki einfaldlega tekið við Hólum strax. Hann þurfti að ferðast aftur til Rómar að fá samþykki páfa og þaðan hélt hann til Lunds þar sem hann var vígður biskup af Össuri (Asser), erkibiskupi Norðurlanda og Grænlands. Formlega tók Jón því við biskupsembættinu árið 1106. Jón lét þegar til sín taka, sótti kirkjuvið til Noregs og hafist var handa við að byggja veglega dómkirkju sem helguð var Maríu mey þegar hún var vígð. Á sama tíma var að undirlagi Jóns reist sérstakt skólahús á Hólum, hið fyrsta á Íslandi, og fyrsti „lærði“ skólinn á landinu var stofnsettur, háskóli í evrópskum anda og sóttir voru tveir kennarar erlendis frá. Sjálfur þótti Jón merkur fræðimaður. Í skólanum gátu nemendur, fyrst og fremst prestsefni, lært latínu, mælskulist og rökfræði eins og tíðkast hafði fyrr á Íslandi, meðal annars í Skálholti. Að auki var boðið upp á kennslu í sönglist og stjörnufræði sem var nýjung hér á landi. Jóni er því eignaður heiðurinn að upphafi tónlistarkennslu á Íslandi. Uppbyggingarstarf Jóns er talið hafa lagt grunninn að því að Hólar í Hjaltadal urðu menningarsetur og höfuðstaður Norðurlands í margar aldir. Hann átti einnig sinn þátt í að fyrsta klaustrið á Íslandi var reist á Þingeyrum þótt það hafi ekki verið vígt fyrr en eftir lát Jóns, eða árið 1133. Jóns hefur sérstaklega verið minnst fyrir atorkusemi við að útbreiða kristinn sið og útrýma heiðnum venjum á Íslandi. Hann lagðist hart gegn ýmiss konar hegðun sem honum þótti ekki sæma kristinni þjóð, til dæmis dansi, mansöng og öðrum blautlegum kveðskap. Jón stóð fyrir því að nöfnum þeirra vikudaga var breytt sem kenndir höfðu verið við æsi: Týsdagur varð þriðjudagur, Óðinsdagur miðvikudagur, Þórsdagur fimmtudagur og Freysdagur varð að hinum meinlætalega föstudegi. Meðal almennings naut Jón hylli og þótti máttur trúar hans mikill. Ýmis kraftaverk voru honum eignuð, bæði í lifanda lífi og að honum látnum. Þannig er því haldið fram að bænamáttur hans hafi aflétt hallæri og rekið burt hafís sem sótti að Norðlendingum árið 1106. Jón lést árið 1121 eftir langvarandi sjúkdómslegu. Árið 1198 voru bein Jóns grafin upp og kistulögð á ný. 3. mars (eftir því sem heimildir geta) árið 1200 var hann svo tekinn í helgra manna tölu hér á Íslandi og dánardægur hans, 23. apríl, gert að hátíðisdegi. Var það í samræmi við katólska hefð sem lagði ríkari áherslu á inngöngu fólks í himnaríki en fæðingu þess til jarðneskrar vistar. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvaða skólar voru starfræktir á Íslandi á miðöldum? eftir Hjalta Hugason
- Hvað lærði fólk árið 1000? Var um einhverja „menntun“ að ræða? eftir Hjalta Hugason
- Hvað er að segja um siðaskipti á Íslandi og hlutverk Jóns Arasonar í því ferli? eftir Gunnar Karlsson
- Íslenska alfræðiorðabókin, Örn og Örlygur, Reykjavík 1990
- Stiklur í sögu Hóla af vefsetri Hólaskóla. Skoðað 2.7.2003.
- Norska vefsetrið Den Katolske Kirke. Skoðað 2.7.2003.
- Viðburðir í íslensku tónlistarlífi 1056 - 1840 á Músík.is. Skoðað 2.7.2003.
- Nordisk familjebok á sænska vefnum Project Runeberg. Skoðað 2.7.2003.
- Hólar i Hjaltadal: Domkyrkan på norra Island á heimasíðu Kristbjargar Ástu Ingvarsdóttur og Pers Ekströms. Skoðað 2.7.2003.
- Lund och Island eftir Torsten Burgman. Skoðað 2.7.2003.
- Hólakirkja á vefsíðu Varmahlíðarskóla. Skoðað 2.7.2003.
- Hólar í Hjaltadal: Söguslóð á vefsetri Iceland Worldwide. Skoðað 2.7.2003.
- Um hafís fyrir Suðurlandi - frá landnámi til þessa dags á vefnum Náttúruhamfarir og mannlíf. Skoðað 2.7.2003.
- Breiðabólstaðarkirkja á vefnum www.nat.is. Skoðað 2.7.2003.
- Vefsíða Fjölbrautarskólans við Ármúla. Skoðað 2.7.2003.
- Íslendingabók. Skoðað 2.7.2003.
- Mats: Myndasafn. © Mats Wibe Lund. Sótt 10.8.2010.
Hver var Jón Ögmundsson? Hvað er hann frægur fyrir? Hverra manna var hann?