Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var Jón Ögmundsson?

Unnar Árnason

Jón Ögmundsson er einn frægasti kirkjumaður Íslandssögunnar. Hann varð fyrsti biskup Hólabiskupsdæmis árið 1106 og beitti sér mjög fyrir eflingu kristinnar trúar í landinu. Jón þótti stjórnsamur en hann vann öflugt starf á ýmsum sviðum og vegna meinlætis síns og hugulsemi við þá sem minna máttu sín, þótti mörgum hann þegar heilagur í lifanda lífi og hann var tekinn í tölu helgra manna árið 1200. Líklegt er að helgisaga Jóns hafi verið skrifuð stuttu síðar af munknum Gunnlaugi Leifssyni. Hefur hann verið nefndur Jón Ögmundsson helgi frá þeim tíma.

Jón var fæddur á Breiðabólstað í Fljótshlíð, sonur prestshjónanna Ögmundar Þorkelssonar og Þorgerðar Egilsdóttur. Forfaðir Jóns í beinan karllegg var landnámsmaðurinn Ásgeir „kneif“ Ólafsson og í móðurætt hans er einna merkastan að finna Síðu-Hall Þorsteinsson sem skírður var af Þangbrandi kristniboða og átti ríkan þátt í að kristni var lögtekin á Alþingi árið 1000. Breiðabólstaður var meðal bestu brauða landsins og þaðan settust svo margir prestar í biskupsstóla síðar í Íslandssögunni að talað var um að prestar yfirgæfu ekki staðinn nema fyrir biskupsdæmi. Jón var því af fyrirmönnum kominn og kristin trú honum í blóð borin.

Til prests lærði Jón hjá Ísleifi Gissurarsyni í Skálholti, fyrsta biskupi Íslands. Hann stundaði frekara nám erlendis, meðal annars í Danmörku og Noregi, og fór pílagrímsferð til Rómaborgar, höfuðborgar kristinnar kirkju. Af ferðalagi Jóns fer sú saga að í Danmörku hafi móðir Sveins Úlfssonar konungs, Ásthildur Sveinsdóttir, spáð fyrir Jóni að hann yrði síðar biskup. Einnig er því haldið á lofti að Jón hafi komið við í París á heimleiðinni, hitt þar fyrir vin sinn Sæmund fróða Sigfússon (en elstu þjóðsögur um Sæmund má lesa í Jóns sögu helga) og þeir orðið samferða til Íslands. Þar tóku þeir hvor við sinni föðurarfleifð og prestadæmi.

Um aldamótin 1100 þótti Norðlendingum að ekki þýddi lengur hafa aðeins einn biskup yfir landinu og sóttu hart eftir því að stofnaður yrði sérstakur biskupsstóll fyrir Norðurland. Gissur Ísleifsson, sem þá hafði tekið við Skálholtsbiskupsdæmi af föður sínum, tók vel undir málaleitan Norðlendinga eftir að hafa ráðfært sig við fróða menn og hafist var handa við að finna hentugan stað fyrir biskupssetrið. Nokkrar stórjarðir komu til greina en höfðingjarnir sem fyrir sátu, vildu ekki gefa land sitt eftir. Þá kom til kasta prestsins Illuga Bjarnasonar sem sat á Hólum í Hjaltadal í Skagafirði. Illugi var barnabarn Oxa Hjaltasonar sem fyrstur lét reisa kirkju á Hólum en afi Oxa var landnámsmaður Hjaltadals, Hjalti Þórðarson. Illugi stóð viljugur upp af ættarjörð sinni, fluttist sjálfur að Breiðabólstað í Vesturhópi og hlaut heiður mikinn og góð eftirmæli fyrir vikið.


Hólar í Hjaltadal.

Að velja nýja Hólabiskupinn reyndist auðveldara verk. Auk Gissurar biskups og Hafliða Mássonar goðorðsmann, mun Sæmundur fróði hafa átt þátt í vali biskupsefnisins. Jón var tilnefndur biskup árið 1105 en gat þó ekki einfaldlega tekið við Hólum strax. Hann þurfti að ferðast aftur til Rómar að fá samþykki páfa og þaðan hélt hann til Lunds þar sem hann var vígður biskup af Össuri (Asser), erkibiskupi Norðurlanda og Grænlands. Formlega tók Jón því við biskupsembættinu árið 1106.

Jón lét þegar til sín taka, sótti kirkjuvið til Noregs og hafist var handa við að byggja veglega dómkirkju sem helguð var Maríu mey þegar hún var vígð. Á sama tíma var að undirlagi Jóns reist sérstakt skólahús á Hólum, hið fyrsta á Íslandi, og fyrsti „lærði“ skólinn á landinu var stofnsettur, háskóli í evrópskum anda og sóttir voru tveir kennarar erlendis frá. Sjálfur þótti Jón merkur fræðimaður. Í skólanum gátu nemendur, fyrst og fremst prestsefni, lært latínu, mælskulist og rökfræði eins og tíðkast hafði fyrr á Íslandi, meðal annars í Skálholti. Að auki var boðið upp á kennslu í sönglist og stjörnufræði sem var nýjung hér á landi. Jóni er því eignaður heiðurinn að upphafi tónlistarkennslu á Íslandi.

Uppbyggingarstarf Jóns er talið hafa lagt grunninn að því að Hólar í Hjaltadal urðu menningarsetur og höfuðstaður Norðurlands í margar aldir. Hann átti einnig sinn þátt í að fyrsta klaustrið á Íslandi var reist á Þingeyrum þótt það hafi ekki verið vígt fyrr en eftir lát Jóns, eða árið 1133. Jóns hefur sérstaklega verið minnst fyrir atorkusemi við að útbreiða kristinn sið og útrýma heiðnum venjum á Íslandi. Hann lagðist hart gegn ýmiss konar hegðun sem honum þótti ekki sæma kristinni þjóð, til dæmis dansi, mansöng og öðrum blautlegum kveðskap. Jón stóð fyrir því að nöfnum þeirra vikudaga var breytt sem kenndir höfðu verið við æsi: Týsdagur varð þriðjudagur, Óðinsdagur miðvikudagur, Þórsdagur fimmtudagur og Freysdagur varð að hinum meinlætalega föstudegi.

Meðal almennings naut Jón hylli og þótti máttur trúar hans mikill. Ýmis kraftaverk voru honum eignuð, bæði í lifanda lífi og að honum látnum. Þannig er því haldið fram að bænamáttur hans hafi aflétt hallæri og rekið burt hafís sem sótti að Norðlendingum árið 1106. Jón lést árið 1121 eftir langvarandi sjúkdómslegu. Árið 1198 voru bein Jóns grafin upp og kistulögð á ný. 3. mars (eftir því sem heimildir geta) árið 1200 var hann svo tekinn í helgra manna tölu hér á Íslandi og dánardægur hans, 23. apríl, gert að hátíðisdegi. Var það í samræmi við katólska hefð sem lagði ríkari áherslu á inngöngu fólks í himnaríki en fæðingu þess til jarðneskrar vistar.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:

Mynd:

Í heild hljóðar spurningin svona:
Hver var Jón Ögmundsson? Hvað er hann frægur fyrir? Hverra manna var hann?

Höfundur

Unnar Árnason

bókmenntafræðingur

Útgáfudagur

2.7.2003

Spyrjandi

Sigurlaug Kjartansdóttir, f. 1986

Tilvísun

Unnar Árnason. „Hver var Jón Ögmundsson?“ Vísindavefurinn, 2. júlí 2003, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3546.

Unnar Árnason. (2003, 2. júlí). Hver var Jón Ögmundsson? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3546

Unnar Árnason. „Hver var Jón Ögmundsson?“ Vísindavefurinn. 2. júl. 2003. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3546>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var Jón Ögmundsson?
Jón Ögmundsson er einn frægasti kirkjumaður Íslandssögunnar. Hann varð fyrsti biskup Hólabiskupsdæmis árið 1106 og beitti sér mjög fyrir eflingu kristinnar trúar í landinu. Jón þótti stjórnsamur en hann vann öflugt starf á ýmsum sviðum og vegna meinlætis síns og hugulsemi við þá sem minna máttu sín, þótti mörgum hann þegar heilagur í lifanda lífi og hann var tekinn í tölu helgra manna árið 1200. Líklegt er að helgisaga Jóns hafi verið skrifuð stuttu síðar af munknum Gunnlaugi Leifssyni. Hefur hann verið nefndur Jón Ögmundsson helgi frá þeim tíma.

Jón var fæddur á Breiðabólstað í Fljótshlíð, sonur prestshjónanna Ögmundar Þorkelssonar og Þorgerðar Egilsdóttur. Forfaðir Jóns í beinan karllegg var landnámsmaðurinn Ásgeir „kneif“ Ólafsson og í móðurætt hans er einna merkastan að finna Síðu-Hall Þorsteinsson sem skírður var af Þangbrandi kristniboða og átti ríkan þátt í að kristni var lögtekin á Alþingi árið 1000. Breiðabólstaður var meðal bestu brauða landsins og þaðan settust svo margir prestar í biskupsstóla síðar í Íslandssögunni að talað var um að prestar yfirgæfu ekki staðinn nema fyrir biskupsdæmi. Jón var því af fyrirmönnum kominn og kristin trú honum í blóð borin.

Til prests lærði Jón hjá Ísleifi Gissurarsyni í Skálholti, fyrsta biskupi Íslands. Hann stundaði frekara nám erlendis, meðal annars í Danmörku og Noregi, og fór pílagrímsferð til Rómaborgar, höfuðborgar kristinnar kirkju. Af ferðalagi Jóns fer sú saga að í Danmörku hafi móðir Sveins Úlfssonar konungs, Ásthildur Sveinsdóttir, spáð fyrir Jóni að hann yrði síðar biskup. Einnig er því haldið á lofti að Jón hafi komið við í París á heimleiðinni, hitt þar fyrir vin sinn Sæmund fróða Sigfússon (en elstu þjóðsögur um Sæmund má lesa í Jóns sögu helga) og þeir orðið samferða til Íslands. Þar tóku þeir hvor við sinni föðurarfleifð og prestadæmi.

Um aldamótin 1100 þótti Norðlendingum að ekki þýddi lengur hafa aðeins einn biskup yfir landinu og sóttu hart eftir því að stofnaður yrði sérstakur biskupsstóll fyrir Norðurland. Gissur Ísleifsson, sem þá hafði tekið við Skálholtsbiskupsdæmi af föður sínum, tók vel undir málaleitan Norðlendinga eftir að hafa ráðfært sig við fróða menn og hafist var handa við að finna hentugan stað fyrir biskupssetrið. Nokkrar stórjarðir komu til greina en höfðingjarnir sem fyrir sátu, vildu ekki gefa land sitt eftir. Þá kom til kasta prestsins Illuga Bjarnasonar sem sat á Hólum í Hjaltadal í Skagafirði. Illugi var barnabarn Oxa Hjaltasonar sem fyrstur lét reisa kirkju á Hólum en afi Oxa var landnámsmaður Hjaltadals, Hjalti Þórðarson. Illugi stóð viljugur upp af ættarjörð sinni, fluttist sjálfur að Breiðabólstað í Vesturhópi og hlaut heiður mikinn og góð eftirmæli fyrir vikið.


Hólar í Hjaltadal.

Að velja nýja Hólabiskupinn reyndist auðveldara verk. Auk Gissurar biskups og Hafliða Mássonar goðorðsmann, mun Sæmundur fróði hafa átt þátt í vali biskupsefnisins. Jón var tilnefndur biskup árið 1105 en gat þó ekki einfaldlega tekið við Hólum strax. Hann þurfti að ferðast aftur til Rómar að fá samþykki páfa og þaðan hélt hann til Lunds þar sem hann var vígður biskup af Össuri (Asser), erkibiskupi Norðurlanda og Grænlands. Formlega tók Jón því við biskupsembættinu árið 1106.

Jón lét þegar til sín taka, sótti kirkjuvið til Noregs og hafist var handa við að byggja veglega dómkirkju sem helguð var Maríu mey þegar hún var vígð. Á sama tíma var að undirlagi Jóns reist sérstakt skólahús á Hólum, hið fyrsta á Íslandi, og fyrsti „lærði“ skólinn á landinu var stofnsettur, háskóli í evrópskum anda og sóttir voru tveir kennarar erlendis frá. Sjálfur þótti Jón merkur fræðimaður. Í skólanum gátu nemendur, fyrst og fremst prestsefni, lært latínu, mælskulist og rökfræði eins og tíðkast hafði fyrr á Íslandi, meðal annars í Skálholti. Að auki var boðið upp á kennslu í sönglist og stjörnufræði sem var nýjung hér á landi. Jóni er því eignaður heiðurinn að upphafi tónlistarkennslu á Íslandi.

Uppbyggingarstarf Jóns er talið hafa lagt grunninn að því að Hólar í Hjaltadal urðu menningarsetur og höfuðstaður Norðurlands í margar aldir. Hann átti einnig sinn þátt í að fyrsta klaustrið á Íslandi var reist á Þingeyrum þótt það hafi ekki verið vígt fyrr en eftir lát Jóns, eða árið 1133. Jóns hefur sérstaklega verið minnst fyrir atorkusemi við að útbreiða kristinn sið og útrýma heiðnum venjum á Íslandi. Hann lagðist hart gegn ýmiss konar hegðun sem honum þótti ekki sæma kristinni þjóð, til dæmis dansi, mansöng og öðrum blautlegum kveðskap. Jón stóð fyrir því að nöfnum þeirra vikudaga var breytt sem kenndir höfðu verið við æsi: Týsdagur varð þriðjudagur, Óðinsdagur miðvikudagur, Þórsdagur fimmtudagur og Freysdagur varð að hinum meinlætalega föstudegi.

Meðal almennings naut Jón hylli og þótti máttur trúar hans mikill. Ýmis kraftaverk voru honum eignuð, bæði í lifanda lífi og að honum látnum. Þannig er því haldið fram að bænamáttur hans hafi aflétt hallæri og rekið burt hafís sem sótti að Norðlendingum árið 1106. Jón lést árið 1121 eftir langvarandi sjúkdómslegu. Árið 1198 voru bein Jóns grafin upp og kistulögð á ný. 3. mars (eftir því sem heimildir geta) árið 1200 var hann svo tekinn í helgra manna tölu hér á Íslandi og dánardægur hans, 23. apríl, gert að hátíðisdegi. Var það í samræmi við katólska hefð sem lagði ríkari áherslu á inngöngu fólks í himnaríki en fæðingu þess til jarðneskrar vistar.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:

Mynd:

Í heild hljóðar spurningin svona:
Hver var Jón Ögmundsson? Hvað er hann frægur fyrir? Hverra manna var hann?
...