Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvers konar rit er Heimskringla?

Ármann Jakobsson

Heimskringla er konungasaga en meira er fjallað um þær í svörum eftir sama höfund við spurningunum Hvers vegna tóku Íslendingar upp á því að skrifa konungasögur og um hvað fjalla helstu sögurnar? og Hvers konar konungasaga er Fagurskinna? og er lesendum bent á að kynna sér þau svör einnig.

Í kjölfar Morkinskinnu og Fagurskinnu var sett saman þriðja konungasagnaritið og var það mest að vöxtum og varð síðar lykiltexti fyrir rannsakendur íslenskra miðaldabókmennta. Miðaldaheiti ritsins er ekki þekkt fremur en hinna tveggja en á síðari tímum fékk það heitið Heimskringla og er frá og með 16. öld eignað Snorra Sturlusyni sem einnig setti saman Eddu. Fyrir vikið hlaut Heimskringla meiri athygli en allar aðrar konungasögur miðalda samanlagt og ekki síst á 20. öld þegar ævisögulega aðferðin hélt innreið sína í rannsóknir miðaldasagna. Athygli fræðimanna og síðar almennings beindist í auknum mæli frá söguhetjum sagnanna að höfundunum á bak við sögurnar. Þar sem höfunda Íslendingasagna og eddukvæða er hvergi getið og skáldsnillingarnir þar á bak við óþekktir féll það í hlut Snorra Sturlusonar að verða helsti rithöfundur Íslands á miðöldum og Heimskringla ásamt Íslendingasögum varð í öndvegi bókmenntasögu Íslands á miðöldum. Síðar hefur verið rökstutt að tilvísanir til Snorra Sturlusonar í 14. aldar ritum á borð við Flateyjarbók falli vel að Heimskringlu en einnig hafa komið fram fræðimenn sem efast um að Snorri hafi sett saman Heimskringlu alla og ekki er hægt að telja það ótvírætt að öll sagan sé samin fyrir 1250, það er á dögum Snorra. Færri draga i efa að hann hafi sett saman Ólafs sögu helga sem er þungamiðja ritsins og auk heldur til sérstök. Á endanum gildir hið sama um Heimskringlu og Morkinskinnu að nokkur óvissa er um hvernig textinn þróaðist á 13. öld. Bæði þessi rit eru þó til í gömlum handritum, Fagurskinna er hins vegar aðeins til í einu fornu broti en annars einungis varðveitt í handritum frá 17. öld.

Heimskringla er varðveitt í Fríssbók (Codex Frisianus), handriti frá fyrri hluta 14. aldar.

Hin varðveitta Heimskringla skiptist í þrennt. Ólafs saga helga er um þriðjungur sögunnar og greinilegur kjarni hennar sem sést meðal annars á því að tilvísanir til Ólafs helga eru ófáar í þriðja hlutanum sem gerist eftir fall hans. Á undan Ólafs sögu fer lærð forsaga þar sem ættir Noregskonunga eru raktar til Óðins og annarra norrænna guða. Kemur þar fram sú kenning að hinir norrænu guðir hafi í raun verið asískir konungar sem hafi flutt til Norðurlanda og menn í kjölfarið tekið trú á þá. Svipuð kenning kemur fram í Snorra-Eddu en þar eru á ferð tvær gjörólíkar gerðir sömu hugmyndar og býsna sérstakt ef sami höfundur er þar á bak við. Hitt blasir við að bæði ritin eru angi af fornmenntastefnu 13. aldar og miklum vilja sagnaritara til að halda lengra aftur í tímann og rekja eldri sögu. Sami vilji sést síðar í fornaldarsögum Norðurlanda. Þegar sagt hefur verið frá Óðni er rakin saga forsögulegrar konungsættar sem nefnist Ynglingar og er þar greinilega stuðst við Ynglingatal Þjóðólfs frá Hvini sem sagður var uppi á 9. öld. Hvað sem því líður er kvæðið greinilega eldra en sagan og ekki alltaf augljóst að túlkun sögunnar á kvæðinu sé rétt. Áhersla sögunnar og kvæðisins er áhugaverð þar sem næsta lítið er fjallað um stjórn konunga eða ríkisár heldur er öll áherslan á dauðdaga þeirra en konungarnir láta lífið á æði sérstakan hátt. Einn drukknar í miði, öðrum er fórnað til árs og friðar og sá þriðji er tældur inn í stein af dvergi. Einn konungurinn fórnar sonum sínum til að hann sjálfur geti lifað sem lengst og er þar á ferð áhugavert afbrigði af grísku goðsögninni um Krónos sem veitir innsýn í viðhorf miðaldahöfunda til aldraðra manna.

Á eftir þessari forsögu er rakin saga Noregskonunga frá Haraldi hárfagra til Ólafs Tryggvasonar og er þar greinilega byggt á riti Theodoricusar, Ágripi af Noregskonungasögum, Fagurskinnu og að lokum Ólafs sögu Odds munks og sennilega Gunnlaugs. Hafa fræðimenn hneigst til að taka þessum hluta sögunnar sem áreiðanlegri sagnfræði í kjölfar hinnar goðsagnakenndu forsögu en þó að allmörg 12. og 13. aldar rit reki þessa sögu er ekki þar með sagt að hún sé áreiðanleg. Líklega ber að taka Haraldi hárfagra, Ólafi Tryggvasyni og öllum konungum þar á milli sem goðsagnakonungum sem litla sem enga stoð eiga sér í samtímaheimildum en eru þeim mun meira áberandi í unglegum heimildum. Segja má að Heimskringla fylgi Fagurskinnu í að flokka norska konunga í góða og illa og verður þannig til hringrás hnignunar og endurreisnar.

Ólafur helgi er þungamiðja verksins enda þjóðardýrlingur Norðmanna og stundum kallaður „eilífur konungur“ landsins á 12. öld. Honum var helguð Niðaróssdómkirkja og menningarlegt mikilvægi hans í Noregi var afar mikið. Saga Ólafs er rækileg og fjörleg og inn í hana eru fléttaðir smáþættir á svipaðan hátt og í Morkinskinnu en þó fjalla þeir ekki jafn margir um Íslendinga og urðu því aldrei hluti af þáttabókmenntagreininni á 20. öld. Ólafur er í sögunni sá konungur Noregs sem fyrstur ríkir einn og þarf að setja af fjölmarga aðra konunga sem sagðir eru afkomendur Haralds hárfagra. Þannig endurtekur hann sameiningu ríkisins. En jafnvel þótt hann sameini Noreg er völdum hans sífellt ógnað af svikurum og öðrum keppinautum. Að lokum er hann hrakinn frá völdum af innlendum uppreisnarmönnum sem njóta stuðnings Knúts ríka Danakonungs (995-1035). En Ólafur snýr heim til þess eins að falla að lokum á Stiklastöðum. Það er sá dauðdagi og jarteinir í kjölfarið sem tryggir sess hans sem heilags konungs.

Saga Noregs eftir daga Ólafs var líka saga stöðugrar keppni um völdin. Fæstir konungar voru lengi tryggir í sessi. Iðulega voru tveir eða fleiri konungar við völd og lauk stundum þannig að konungar létu lífið í æsku. Sérstaklega slæmt var ástandið á 12. öld og þannig lýstu sagnaritarar Noregs því frá Theodoricusi og alla 13. öldina. Sögunni lýkur á Magnúsi konungi Erlingssyni, rétt um það leyti sem Sverrir konungur rís upp. Þetta var hefð sem er sótt til Ágrips, Fagurskinnu og sennilega Morkinskinnu enda Sverris saga væntanlega eldri en þær allar og sagnaritarar greinilega á einu máli um að með Sverri hefðu orðið þáttaskil í Noregssögunni. Jafnframt virðast þeir hafa talið að engu væri að bæta við Sverris sögu Karls ábóta.

Heimskringla er sannarlega mesta konungasagnarit 13. aldar að umfangi en auk þess vekur þar athygli fornfræðaáhugi og dróttkvæðaáhugi. Sagan er rækileg, mikið um sviðsetningar og persónur lifandi. Drjúgur hluti sögunnar er þó sóttur til eldri heimilda sem enn eru varðveittar og þannig má sjá hvernig konungasagnaritarar unnu með eldri verk, fáguðu margt og betrumbættu en byggðu þó á grunni sem þegar var til.

Mynd:

Þetta svar er fengið úr bókinni Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2021. Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum.

Höfundur

Ármann Jakobsson

prófessor við íslensku- og menningardeild HÍ

Útgáfudagur

21.3.2023

Síðast uppfært

24.1.2024

Spyrjandi

Ólafur Magnússon

Tilvísun

Ármann Jakobsson. „Hvers konar rit er Heimskringla?“ Vísindavefurinn, 21. mars 2023, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=84734.

Ármann Jakobsson. (2023, 21. mars). Hvers konar rit er Heimskringla? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=84734

Ármann Jakobsson. „Hvers konar rit er Heimskringla?“ Vísindavefurinn. 21. mar. 2023. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=84734>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvers konar rit er Heimskringla?
Heimskringla er konungasaga en meira er fjallað um þær í svörum eftir sama höfund við spurningunum Hvers vegna tóku Íslendingar upp á því að skrifa konungasögur og um hvað fjalla helstu sögurnar? og Hvers konar konungasaga er Fagurskinna? og er lesendum bent á að kynna sér þau svör einnig.

Í kjölfar Morkinskinnu og Fagurskinnu var sett saman þriðja konungasagnaritið og var það mest að vöxtum og varð síðar lykiltexti fyrir rannsakendur íslenskra miðaldabókmennta. Miðaldaheiti ritsins er ekki þekkt fremur en hinna tveggja en á síðari tímum fékk það heitið Heimskringla og er frá og með 16. öld eignað Snorra Sturlusyni sem einnig setti saman Eddu. Fyrir vikið hlaut Heimskringla meiri athygli en allar aðrar konungasögur miðalda samanlagt og ekki síst á 20. öld þegar ævisögulega aðferðin hélt innreið sína í rannsóknir miðaldasagna. Athygli fræðimanna og síðar almennings beindist í auknum mæli frá söguhetjum sagnanna að höfundunum á bak við sögurnar. Þar sem höfunda Íslendingasagna og eddukvæða er hvergi getið og skáldsnillingarnir þar á bak við óþekktir féll það í hlut Snorra Sturlusonar að verða helsti rithöfundur Íslands á miðöldum og Heimskringla ásamt Íslendingasögum varð í öndvegi bókmenntasögu Íslands á miðöldum. Síðar hefur verið rökstutt að tilvísanir til Snorra Sturlusonar í 14. aldar ritum á borð við Flateyjarbók falli vel að Heimskringlu en einnig hafa komið fram fræðimenn sem efast um að Snorri hafi sett saman Heimskringlu alla og ekki er hægt að telja það ótvírætt að öll sagan sé samin fyrir 1250, það er á dögum Snorra. Færri draga i efa að hann hafi sett saman Ólafs sögu helga sem er þungamiðja ritsins og auk heldur til sérstök. Á endanum gildir hið sama um Heimskringlu og Morkinskinnu að nokkur óvissa er um hvernig textinn þróaðist á 13. öld. Bæði þessi rit eru þó til í gömlum handritum, Fagurskinna er hins vegar aðeins til í einu fornu broti en annars einungis varðveitt í handritum frá 17. öld.

Heimskringla er varðveitt í Fríssbók (Codex Frisianus), handriti frá fyrri hluta 14. aldar.

Hin varðveitta Heimskringla skiptist í þrennt. Ólafs saga helga er um þriðjungur sögunnar og greinilegur kjarni hennar sem sést meðal annars á því að tilvísanir til Ólafs helga eru ófáar í þriðja hlutanum sem gerist eftir fall hans. Á undan Ólafs sögu fer lærð forsaga þar sem ættir Noregskonunga eru raktar til Óðins og annarra norrænna guða. Kemur þar fram sú kenning að hinir norrænu guðir hafi í raun verið asískir konungar sem hafi flutt til Norðurlanda og menn í kjölfarið tekið trú á þá. Svipuð kenning kemur fram í Snorra-Eddu en þar eru á ferð tvær gjörólíkar gerðir sömu hugmyndar og býsna sérstakt ef sami höfundur er þar á bak við. Hitt blasir við að bæði ritin eru angi af fornmenntastefnu 13. aldar og miklum vilja sagnaritara til að halda lengra aftur í tímann og rekja eldri sögu. Sami vilji sést síðar í fornaldarsögum Norðurlanda. Þegar sagt hefur verið frá Óðni er rakin saga forsögulegrar konungsættar sem nefnist Ynglingar og er þar greinilega stuðst við Ynglingatal Þjóðólfs frá Hvini sem sagður var uppi á 9. öld. Hvað sem því líður er kvæðið greinilega eldra en sagan og ekki alltaf augljóst að túlkun sögunnar á kvæðinu sé rétt. Áhersla sögunnar og kvæðisins er áhugaverð þar sem næsta lítið er fjallað um stjórn konunga eða ríkisár heldur er öll áherslan á dauðdaga þeirra en konungarnir láta lífið á æði sérstakan hátt. Einn drukknar í miði, öðrum er fórnað til árs og friðar og sá þriðji er tældur inn í stein af dvergi. Einn konungurinn fórnar sonum sínum til að hann sjálfur geti lifað sem lengst og er þar á ferð áhugavert afbrigði af grísku goðsögninni um Krónos sem veitir innsýn í viðhorf miðaldahöfunda til aldraðra manna.

Á eftir þessari forsögu er rakin saga Noregskonunga frá Haraldi hárfagra til Ólafs Tryggvasonar og er þar greinilega byggt á riti Theodoricusar, Ágripi af Noregskonungasögum, Fagurskinnu og að lokum Ólafs sögu Odds munks og sennilega Gunnlaugs. Hafa fræðimenn hneigst til að taka þessum hluta sögunnar sem áreiðanlegri sagnfræði í kjölfar hinnar goðsagnakenndu forsögu en þó að allmörg 12. og 13. aldar rit reki þessa sögu er ekki þar með sagt að hún sé áreiðanleg. Líklega ber að taka Haraldi hárfagra, Ólafi Tryggvasyni og öllum konungum þar á milli sem goðsagnakonungum sem litla sem enga stoð eiga sér í samtímaheimildum en eru þeim mun meira áberandi í unglegum heimildum. Segja má að Heimskringla fylgi Fagurskinnu í að flokka norska konunga í góða og illa og verður þannig til hringrás hnignunar og endurreisnar.

Ólafur helgi er þungamiðja verksins enda þjóðardýrlingur Norðmanna og stundum kallaður „eilífur konungur“ landsins á 12. öld. Honum var helguð Niðaróssdómkirkja og menningarlegt mikilvægi hans í Noregi var afar mikið. Saga Ólafs er rækileg og fjörleg og inn í hana eru fléttaðir smáþættir á svipaðan hátt og í Morkinskinnu en þó fjalla þeir ekki jafn margir um Íslendinga og urðu því aldrei hluti af þáttabókmenntagreininni á 20. öld. Ólafur er í sögunni sá konungur Noregs sem fyrstur ríkir einn og þarf að setja af fjölmarga aðra konunga sem sagðir eru afkomendur Haralds hárfagra. Þannig endurtekur hann sameiningu ríkisins. En jafnvel þótt hann sameini Noreg er völdum hans sífellt ógnað af svikurum og öðrum keppinautum. Að lokum er hann hrakinn frá völdum af innlendum uppreisnarmönnum sem njóta stuðnings Knúts ríka Danakonungs (995-1035). En Ólafur snýr heim til þess eins að falla að lokum á Stiklastöðum. Það er sá dauðdagi og jarteinir í kjölfarið sem tryggir sess hans sem heilags konungs.

Saga Noregs eftir daga Ólafs var líka saga stöðugrar keppni um völdin. Fæstir konungar voru lengi tryggir í sessi. Iðulega voru tveir eða fleiri konungar við völd og lauk stundum þannig að konungar létu lífið í æsku. Sérstaklega slæmt var ástandið á 12. öld og þannig lýstu sagnaritarar Noregs því frá Theodoricusi og alla 13. öldina. Sögunni lýkur á Magnúsi konungi Erlingssyni, rétt um það leyti sem Sverrir konungur rís upp. Þetta var hefð sem er sótt til Ágrips, Fagurskinnu og sennilega Morkinskinnu enda Sverris saga væntanlega eldri en þær allar og sagnaritarar greinilega á einu máli um að með Sverri hefðu orðið þáttaskil í Noregssögunni. Jafnframt virðast þeir hafa talið að engu væri að bæta við Sverris sögu Karls ábóta.

Heimskringla er sannarlega mesta konungasagnarit 13. aldar að umfangi en auk þess vekur þar athygli fornfræðaáhugi og dróttkvæðaáhugi. Sagan er rækileg, mikið um sviðsetningar og persónur lifandi. Drjúgur hluti sögunnar er þó sóttur til eldri heimilda sem enn eru varðveittar og þannig má sjá hvernig konungasagnaritarar unnu með eldri verk, fáguðu margt og betrumbættu en byggðu þó á grunni sem þegar var til.

Mynd:

Þetta svar er fengið úr bókinni Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2021. Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum....