Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvaða þættir stýra launamun á Íslandi?

Þórólfur Matthíasson

Hugtakið launamunur kemur fyrir í samanburði milli einstaklinga, hópa, starfa, atvinnugreina og stéttarfélaga, svo nokkur dæmi séu nefnd. Kjaratölfræðinefnd[1] vinnur með fjögur grunnhugtök: Grunnlaun, regluleg laun, regluleg heildarlaun og heildarlaun. Auk þess er Kjaratölfræðinefnd nýlega farin að halda sérstaklega utan um launaauka, sem eru álagsgreiðslur, bónusar og aðrir launaliðir sem gerðir eru upp reglulega. Kjaratölfræðinefnd skilgreinir sem fullvinnandi einstaklinga þá sem vinna að minnsta kosti 90% af mánaðarlegri vinnuskyldu. Þeir sem minna vinna teljast hlutastarfsmenn. Í skýrslum sínum fjallar Kjaratölfræðinefnd fyrst og fremst um laun fullvinnandi. Aðrir talnasafnarar hafa þann hátt á að blása launasummu þeirra sem ekki eru fullvinnandi upp í fullt starfshlutfall. Þessar aðgerðir, að fella vinnulitla út úr talnasafni eða að blása laun vinnulítilla upp í fullt starfshlutfall eru nauðsynlegar ef einangra á launamun frá mun sem orsakast af ólíku vinnuframlagi einstaklinga.

Það getur verið flókið mál að bera saman laun tveggja aðila. Þó sá sem vill bera saman hafi fullar upplýsingar um dagvinnulaun, yfirvinnu, álagsgreiðslur og aðrar upplýsingar sem máli skipta, má fá misvísandi niðurstöður um launamun milli þessara tveggja aðila með því að horfa til ólíkra launaþátta. Anna getur verið með mun hærri dagvinnulaun en Bergþóra. Bergþóra getur hins vegar verið með mun hærri heildarlaun en Anna. Þá er freistandi að álykta að launamunur sé Bergþóru í hag. En svo þarf ekki að vera ef Bergþóra fékk mjög háa eingreiðslu á því tímabili sem samanburður er látinn ná til. Launahugtökunum regluleg laun og regluleg heildarlaun í gagnasafni Kjaratölfræðinefndar er ætla að draga úr samanburðarvanda sem hlýst af óreglulegum greiðslum af ýmsu tagi. Vaktaálag getur verið hluti af reglulegum launum. Eins og gefur að skilja geta slíkar leiðréttingar talnasafns aldrei náð fram „réttri“ niðurstöðu heldur aðeins nálgun við rétta niðurstöðu.

Mynd 1: Dreifing grunnlauna, reglulegra launa og reglulegra heildarlauna fullvinnandi eftir mörkuðum - maí 2022, heimild tafla 3.7 í haustskýrslu Kjaratölfræðinefndar 2022.

Kjaratölfræðinefnd sýnir grunnlaun, regluleg laun og regluleg heildarlaun fyrir ólíka undirmarkaði vinnumarkaðarins. Skiptingin í ólíka markaði helgast af skipulagi vinnumarkaðarins í samningssvæði. Á myndinni eru sýnd hefðbundin meðaltöl auk valinna tíundar- og fjórðungsmarka. Í fyrsta lagi eru sýnd fyrstu tíundarmörk, í öðru lagi fyrstu fjórðungsmörk, önnur fjórðungsmörk (sem jafnframt eru 5. tíundarmörk), þriðju fjórðungsmörk og 9. tíundarmörk. Túlkun þessara talna er með þeim hætti að fyrstu tíundarmörkin sýna laun þess aðila sem er með hærri laun en 10% safnsins sem hann tilheyrir (til dæmis aðili á almennum markaði). Þessi aðili er jafnframt með lægri laun en 90% þeirra sem safninu tilheyra. Neðri fjórðungsmörkin sýna laun þess aðila sem er með hærri laun en 25% safnsins sem hann tilheyrir, en lægri en 75% og þannig koll af kolli. Önnur fjórðungsmörkin eru oft nefnd miðgildi vegna þess að 50% þeirra sem safninu tilheyra eru með lægri laun en þar eru tilgreind, en 50% með hærri laun. Þetta eru sem sagt laun miðjuaðilans í safninu. Efri fjórðungsmörkin (75%) sýna laun þess aðila sem er með hærri laun en 75% þeirra sem safninu tilheyra. Mynd 1 sýnir að regluleg heildarlaun eru hærri en regluleg laun sem síðan eru hærri en grunnlaun mælt á alla þá mælikvarða sem tilgreindir eru fyrir alla undirmarkaði. Þetta er eins og við er að búast. Meðaltal er í öllum tilfellum hærra en miðgildi. Það er einkenni launadreifinga þar sem fáir aðilar eru með mjög há laun. Myndin sýnir ágætlega að meiri munur er á hæstu og lægstu launum á almennum markaði en hjá opinberu aðilunum. Það er að segja það er minni breidd í launum hjá hinu opinbera en á almennum markaði, sama hvaða launamælikvarði er notaður.

Tíundarhlutfall er hlutfall launa sem marka níundu tíundarmörk og þau fyrstu. Kjaratölfræðinefnd reiknar þessa stuðla eftir mörkuðum og launategundum.

Tafla 1:Tíundarhlutföll eftir mörkuðum í maí 2022. Heimild Kjaratölfræðinefnd.

Markaður
Grunnlaun
Regluleg laun
Regluleg heildarlaun
Almennur markaður
2,9
2,5
2,5
Ríki
2,0
1,8
2,0
Reykjavíkurborg
1,7
1,9
2,0
Sveitarfélög utan RVK
1,8
1,9
2,1
Kjaratölfræðinefnd notar hugtakið tíundarstuðull. Það hugtak virðist stundum notað í aðeins öðrum skilningi en hugtakið tíundarhlutfall.

Taflan staðfestir það sem sést á mynd 1 um breidd dreifinganna eftir mörkuðum. Dreifing grunnlauna á almenna markaðnum er ójafnari en dreifing breiðari launahugtakanna sem bendir til þess að dreifing aukatekna sé hlutfallslega jafnari en dreifing grunnlauna á þeim markaði. Þetta á síður við um opinberu markaðina þrjá sem bendir til þess að regluleg viðbót við grunnlaun auki launaójöfnuð, en minnki hann ekki.

Laun eftir atvinnugreinum

Mynd 2: Laun og launatengd gjöld á starf árið 2021, heimild Hagstofa Íslands, eigin útreikningar.

Mynd 2 sýnir meðaltal launa og launatengdra gjalda eftir atvinnugreinum á árinu 2021. Því miður eru tölur um tíundarmörk og fjórðungsmörk ekki aðgengilegar á vef Hagstofunnar. Engu að síður afhjúpa tölurnar mikinn mun milli atvinnugreina. Hæst laun eru greidd í atvinnugreinum sem falla undir atvinnugreinaflokkunina fiskveiðar og fiskeldi. Laun í þessum greinum eru tvöfalt hærri en laun í landinu almennt. Laun eru einnig hærri en meðaltalið í fjármála- og vátryggingastarfsemi. Laun í heilbrigðis- og félagsþjónustu eru rétt undir meðallaunum, en laun í fræðslustarfsemi eru talsvert lægri en meðallaun í landinu öllu. Lægstu launin eru greidd í atvinnugreinum sem falla undir rekstur gististaða og veitingarekstur.

Launadreifing eftir starfsstéttum

Mynd 3: Fjórðungsmarkabil launa launþega eftir starfsstétt árið 2021, heimild Hagstofan.

Laun stjórnenda, sérfræðinga og iðnaðarmanna eru hærri en laun verkafólks og sérhæfðs starfsfólks. Mynd 3 sýnir fjórðungsmarkabil helstu starfsstétta samkvæmt skiptingu Hagstofu Íslands. Miðgildi reglulegra heildarlauna stjórnenda eru ríflega tvöfalt hærri en miðgildi reglulegra heildarlauna ósérhæfðs starfsfólks. Spönnin milli fjórðungsmarkanna er 166 þúsund krónur (rúm 30% af miðgildinu) hjá ósérhæfðu starfsfólki, en 528 þúsund krónur (tæp 50% af miðgildinu) hjá stjórnendum. Miðgildi launa stjórnenda er 80% hærra en miðgildi launa verkafólks, miðgildi launa sérfræðinga er 30% hærra en miðgildi launa verkafólks. Hjá iðnaðarmönnum er munurinn 25%. Eins og við munum sjá síðar eru þessar mælingar ekki að fullu í takt við aðrar mælingar sem kann að helgast af því að skiptingar í hópa feli launamun.

Samanburður við Norðurlönd

Á vegum Þjóðhagsráðs var unnin samanburður á launum starfshópanna sem sýndir eru á mynd 4 á Íslandi annars vegar og Noregi, Danmörku og Svíþjóð hins vegar.

Niðurstöður fyrir almenna markaðinn eru sýndar á mynd 4. Miðað er við meðallaun. Í skýrslu Þjóðhagsráðs er einnig sýnd sambærileg mynd fyrir opinbera markaðinn. Vakin er athygli á að framsetningin er frábrugðin því sem sýnt er á mynd 3. En á þeirri mynd eru einvörðungu sýnd heildarlaun, en ekki sundurliðunin í undirþætti.

Mynd 4: Meðallaun á almennum markaði á Norðurlöndum, samsetning launa og samanburður, þúsundir ISK, 2018. Vakin er athygli á að lóðrétti ásinn byrjar við 250 þúsund krónur sem ýkir mun milli Íslands og Svíþjóðar svo dæmi sé tekið. Heimild Þjóðhagsráð.

Tölulegar upplýsingar fyrir Ísland á mynd 4 eru ekki fyllilega sambærilegar við upplýsingar á mynd 3 þar sem gögnin á mynd 3 eru miðuð við árið 2021. Gögn á mynd 4 eiga hins vegar við um árið 2018. Þá ná upplýsingar á mynd 3 til alls vinnumarkaðarins en á mynd 4 aðeins til almenna markaðarins. Athugið einnig að á mynd 4 er miðað við meðaltal en ekki miðgildi heildarlauna. Það ætti ekki að skipta miklu máli í samanburði milli landa.

Heildarlaun stjórnenda á Íslandi eru áberandi hærri en á við um aðra stjórnendur á Norðurlöndum. Sama á við um iðnaðarmenn og sérhæft iðnverkafólk. Umtalsvert stærri hluti íslensku launanna byggir á yfirvinnu eða aukagreiðslum en í hinum löndunum. Laun í Svíþjóð virðast áberandi lægst á Norðurlöndum. En að öðru leyti virðast regluleg laun á Íslandi í nokkuð góðu samræmi við laun í Noregi og Danmörku.

Þessi góða staða Íslands í norrænum samanburði kann að helgast af tímabundinni afstöðu gjaldmiðla landanna. Raungengi íslensku krónunnar var enda tiltölulega hátt árið 2018. Til að taka tillit til þess eru tölurnar að baki myndar 4 leiðréttar með tilliti til kaupmáttar gjaldmiðils hvers lands fyrir sig. Niðurstöðuna má sjá á mynd 5.

Mynd 5: Almennur markaður á Norðurlöndum: Samsetning launa og samanburður, leiðrétt fyrir kaupmætti (USD PPP OECD 2018). Aftur vakin athygli á að lóðrétti ásinn byrjar í 2.000 dollurum, en ekki í núlli. Heimild: Þjóðhagsráð.

Mynd 5 sýnir nokkuð aðra stöðu en mynd 4. Laun í Danmörku eru alltaf hærri en á Íslandi, nema þegar litið er til heildarlauna iðnaðarmanna. Þó regluleg laun stjórnenda og sérfræðinga á Íslandi standi ágætlega samanborið við Noreg og Svíþjóð er ekki sömu sögu að segja um lakast launuðu störfin þar sem laun í Noregi virðast iðulega hærri en á Íslandi þegar tillit er tekið til kaupmáttar.

Höfundar skýrslu Þjóðhagsráðs slá allmarga varnagla varðandi óvissuatriði sem tengjast gagnavinnslunni að baki myndum 4 og 5. Varnaðarorð varðandi oftúlkun talnanna fá aukið vægi þegar gögn um meðaltal launakostnaðar á unna stund (í evrum) er skoðuð, en það er gert á mynd 6.

Mynd 6: Meðaltal launakostnaðar á unna stund í evrum á Norðurlöndum, 2017 - 2021, Heimild Kjaratölfræðinefnd.

Með hliðstjón af mynd 4 mætti ætla að launakostnaður á unna stund væri hæstur á Íslandi, svo í Danmörku, þá í Noregi og lægstur í Svíþjóð. En mynd 6 sýnir að Noregur er ávallt dýrasta landið og Svíþjóð það ódýrasta (af þessum 4 löndum). Til að niðurstöður mynda 4 og 6 geti verið sambærilegar þarf vinnumagn að baki launa Íslendinga að vera umtalsvert meira en tilsvarandi vinnumagn Norðmanna og Dana. Enn fremur þarf vinnumagn Dana að baki tekjum sínum að vera meira en vinnumagn Norðmanna.

Almenn tekjudreifing

Starfsmenn OECD, þeir Jon Kristian Paeliussen Mikkel Hermansen, Christophe André og Orsetta Causa skrifuðu grein í Nordic Economic Policy Review árið 2018 með heitinu „Income Inequality in the Nordics from an OECD Perspective,“[2] Þeir birta tíundarstuðla heildartekna fullvinnandi fyrir Norðurlöndin og valin OECD-lönd.[3] Þessi samanburður gefur góðan grunn til að bera saman dreifingu atvinnutekna áður en velferðarkerfið jafnar tekjur. Mynd 7 sýnir tíundarstuðla og þróun þeirra yfir 25 ára tímabil (þar sem gögn eru aðgengileg).

Mynd 7: Tíundarhlutföll, Norðurlöndin og valin OECD-lönd, 1990 til 2016. Byggt á heildarlaunum fullvinnandi launþega. OECD-meðaltalið er fundið sem óvegið meðaltal valinna OECD-landa (21 land).

Mynd 7 sýnir að tíundarhlutfallið er hæst á Íslandi af Norðurlöndunum. Hlutfallið hefur lækkað nokkuð á Íslandi eftir hrun, en hækkað jafnt og þétt í hinum löndunum. Af þeim OECD-löndum sem sýnd eru á myndinni er ójöfnuður á vinnumarkaði mældur með tíundarhlutfalli mestur í Bandaríkjunum, hefur hækkað úr 4,5 í 5 á þessum 25 árum. Það er að segja sá sem er með hærri laun en 90% launþega er með 5 sinnum hærri laun en sá sem er með hærri laun en 10%. Þetta hlutfall sveiflast í kringum 3 á Íslandi, en hefur hækkað úr 2 í 2,3 í Svíþjóð og úr 2 í 2,5 í Noregi. Hlutfallið er um 2,5 í Danmörku. Norðurlandabúar hafa áhyggjur af þessari hækkun.

Niðurstöður og lærdómar af talnayfirferð

Yfirferðin hér að framan sýnir að talnagögn gefa um margt misvísandi upplýsingar um tekjumyndun og tekjudreifingu á Íslandi. Samanburður Þjóðhagsráðs á heildartekjum eftir starfsstéttum á Íslandi og Noregi, Danmörku og Svíþjóð sýnir öfluga tekjumyndun á Íslandi, sérstaklega samanborið við Svíþjóð. Glansinn minnkar aðeins þegar horft er til vinnumagnsins sem líklega er notað til að búa tekjurnar til og þegar tekið er tillit til þess að verðlag er mun hærra á Íslandi en endurspeglast í gengisskráningunni (PPP-leiðréttingin). Sé litið til vinnumarkaðarins í heild virðist sem munur hárra og lágra launa sé meiri á Íslandi en á öðrum Norðurlöndum, en minni en í Bandaríkjunum og Bretlandi. Sagt með öðrum orðum og í samanburði við Norðurlönd: Að baki norrænna lífskjara hér á landi býr meira vinnuframlag en frændþjóðirnar búa við. Launamunur á vinnumarkaðnum í heild er meiri en meðal frændþjóðanna.

Launamyndun

Í öðru svari á Vísindavefnum (Af hverju fá konur lægri laun en karlar?) er vikið að því að fæðing fyrsta barns hafi mikil áhrif á launamyndunarferli og vinnumarkaðssnertingu (sænskra) sambúðaraðila. Þá skiptir einnig máli að karl í sambúð er að jafnaði 2 árum eldri en konan í þeirri sambúð. Vinnumarkaðsþátttaka karla, sem eru í sambúð og eiga barn, er umfangsmeiri en vinnumarkaðsþátttaka kvenna í sömu stöðu. En fleira hefur áhrif á launamyndun en sambúðarstaða og barnafjöldi. Aldur og starfsaldur eru áhrifaþættir (meiri starfsaldur jafngildir meiri reynslu og þjálfun), menntun hefur einnig áhrif og líka búseta, vaktavinna, vinnuhlutfall og atvinnugrein.

Hagstofa Íslands hefur um árabil haft það hlutverk að reikna út launamun kynjanna. Í tengslum við þá útreikninga hafa komið fram niðurstöður sem kasta ljósi á launamyndun karla og kvenna á Íslandi þar sem byggt er á upplýsingum úr skattaframtölum, frá Þjóðskrá og Vinnumarkaðsrannsóknum yfir alllangt tímabil. Aðferðafræði Hagstofunnar hefur þróast mikið og engin tök á að gera grein fyrir henni í þessari grein. En vísa má til rannsóknarritgerðar sem Hagstofan birtir.[4]

Tafla 2: Áhrif einstakra launamyndunarþátta á tímalaun karla og kvenna á íslenskum vinnumarkaði (prósentutölur innan sviga).

Launamyndunarþáttur
Konur
Karlar
Aldur
0,003 (0,3%)
0,004 (0,4%)
Starfsaldur í fyrirtæki
0,004 (0,4%)
0,007 (0,7%)
Nemandi
-0,002 (-0,2%)
-0,006 (-0,6%)
Nemi (iðnnemi)
-0,199 (-18%)
-0,343 (-29%)
Í sambúð
0,008 (0,8%)
0,039 (4%)
Barn 0-2 ára
-0,002 (-0,2%)
-0,013 (-1,3%)
Barn 2-5 ára
-0,009 (-0,9%)
-0,003 (-0,3%)
Barn 6-16 ára
0,042 (4,3%)
0,039 (4%)
Í verkalýðsfélagi
0,017 (1,7%)
-0,048 (-4,7%)
Í fullu starfi
0,001 (0,1%)
0,013 (1,3%)
Ekki Íslendingur
-0,048 (-4,7%)
-0,053 (-5,2%)
Verkstjórn
0,166 (18,1%)
0,193 (21,3%)
Iðnmenntun
0,007 (0,7%)
0,027 (2,7%)
Á mánaðarlaunum
0,036 (3,7%)
0,079 (8,7%)
Vaktavinna
0,089 (9,3%)
0,073 (7,6%)
Höfuðborgarsvæðið
0,053 (5,4%)
0,051 (5,2%)
Hlutfall kvenna á vinnustað milli 33 og 66%
0,359 (42,3%)
0,333 (39,5%)
Hlutfall kvenna á vinnustað yfir 66%
0,238 (26,9%)
0,215 (24%)
Hlutfall ungra minna en 66%
0,387 (47,3%)
0,343 (40,9%)
Jafnlaunavottun
0,003 (0,3%)
0,028 (2,8%)
Fyrirtæki meðalstórt
0,021 (2,1%)
0,007 (0,7%)
Fyrirtæki lítið
0,026 (2,6%)
-0,008 (-0,8%)
Grunnskóli
Framhaldsskóli
Viðbótarnám eftir framhaldsskóla
0,035 (3,6%)
0,019 (1,9%)
Fyrrihlutapróf háskóli
0,092 (9,6%)
0,062 (6,4%)
Meistarapróf úr háskóla eða meira
0,185 (20,3%)
0,154 (16,6%)
Vinnu hjá sveitarfélagi
-0,207 (-18,7%)
-0,199 (-18%)
Vinnur hjá ríkinu
-0,159 (-14,7%)
-0,200 (-18,1%)

Hagstofan notar nokkuð flókna útfærslu aðhvarfsgreiningar til að meta áhrif einstakra þátta á launamyndunina. Tafla 2 sýnir helstu niðurstöður þegar aðhvarfsgreiningu er beitt á talnasafn sem skipt er eftir kyni. Skipta má skýringarþáttum í nokkra flokka. Í fyrsta lagi þætti sem tengjast fyrirtækjum og staðsetningu þeirra. Þeir sem hafa starfsstöð á höfuðborgarsvæðinu fá 5% hærri laun en þeir sem hafa starfsstöð utan þess, óháð kyni. Fyrirtæki með jafnlaunavottun borga bæði körlum og konum hærri laun en fyrirtæki sem ekki eru með slíka vottun. Meðalstór fyrirtæki greiða lítillega hærri laun en stór, lítil fyrirtæki borga körlum lægri laun en stór, en konum meira! Að vinna hjá ríki eða sveitarfélagi þýðir 15-20% lægri laun en launagreiðslur til sambærilegs einstaklings í vinnu á almennum markaði. Þá sjáum við að körlum í sambúð er greitt 4% hærri laun en sambærilegum karli sem ekki er í sambúð. Sambúðarávinningur fyrir konur er minni. Ung börn á heimili hafa neikvæð áhrif á laun beggja kynja, en eldri börn jákvæð. Þau áhrif eru sterkari fyrir karla en konur. Viðbótarnám eftir framhaldsskóla hefur lítil en jákvæð áhrif. Meistaragráða eða betra hefur talsverð áhrif, meiri fyrir konur en karla.

Niðurstöður Hagstofunnar staðfesta að launamyndunarferlið er ekki það sama fyrir karla og konur. Að öðru leyti staðfesta niðurstöður Hagstofunnar að launamyndun ræðst bæði af þáttum sem einstaklingarnir taka ákvörðun um (hjúskaparstöðu, búsetu, barnafjöldi) og af þáttum sem þeir ráða litlu um (aldur, stærð fyrirtækis). Að auki geta sumir launþegar tekið ákvörðun um hvort unnið er á vettvangi hins opinbera eða á almenna markaðnum.

Verkstjórn er einn fárra þátta í greiningu Hagstofunnar sem er nánast alfarið á forræði vinnuveitandans. Eins og tafla 2 ber með sér eru launauppbót vegna verkstjórnar umtalsverð.

Niðurstaða

Er launamunur á Íslandi meiri en annars staðar? Tölur úr norrænum samanburði bendir til þess að svo sé, sjá mynd 7. Þessi staðreynd stangast á við niðurstöður á mælingum á svokölluðum Gini-stuðli. Á þann mælikvarða er tekjudreifing aðeins jafnari í 3 eða 4 ríkjum OECD.[5] Á þessu eru eðlilegar skýringar eins og dregið er fram í neðanmálsgrein 3. Svo virðist einnig sem meðallaun á Íslandi, reiknuð samkvæmt skráðu gengi krónunnar séu (eða hafi verið) há samanborið við laun á öðrum Norðurlöndum á árinu 2018. Sú mynd fölnar reyndar þegar tekið er tillit til líklegs vinnuframlags Íslendinga og þess að verðlag á Íslandi er umtalsvert hærra en í Danmörku og Svíþjóð. Sé litið til tekjuskiptingar eftir atvinnugreinum vekur athygli að rekstur veitingastaða og gistirekstur greiðir lægst laun allra atvinnugreina að meðaltali. Þessi staðreynd hefur orðið hagfræðingum áhyggjuefni,[6] þar sem þessi atvinnugrein er hluti af ferðaþjónustunni. Aukist hlutdeild ferðaþjónustunnar í vinnuaflsnotkuninni án þess að framleiðni og launagreiðslur aukist hraðar en annars staðar í hagkerfinu gæti það orðið dragbítur á hagvöxt á Íslandi þegar til framtíðar er litið.

Tilvísanir:
  1. ^ Kjaratölfræðinefnd er samstarfsvettvangur um gerð og hagnýtingu tölfræðigagna um laun og efnahag. Í nefndinni sitja fulltrúar heildarsamtaka á vinnumarkaði, ríkis og sveitarfélaga, auk fulltrúa forsætisráðuneytis, félags- og vinnumálaráðuneytis og Hagstofu Íslands.
  2. ^ sjá Rolf Aaberge, Christophe André o.fl. (2018). Income Inequality in the Nordics from an OECD Perspective. The Nordic Council of Ministers.
  3. ^ Þessi ójafnaðarmæling er ólík mælingu á svokölluðum Gini-stuðli sem oft er vísað til að því leytinu til að ekki er tekið til tekjujöfnunar skatta- og tilfærslukerfa. Þá er gögnum safnað um einstaklinga á vinnumarkaði. Gini-stuðlar sem Hagstofa Íslands birtir eru alla jafna byggðar á fjölskyldutekjum. Fjölskyldutekjum er dreift á fjölskyldumeðlimi samkvæmt reiknireglu. Því má búast við að tíundarhlutfall sem Paeliussen o.fl. reikna út beri merki meiri ójafnaðar en Gini-útreikningar Hagstofunnar.
  4. ^ Hagstofa Íslands. (2021). Icelandic gender pay gap analysis 2008-2020 . Hagtíðindi - Statistical Series, 106:6.
  5. ^ Sjá OECD. Income inequality.
  6. ^ Sjá Þórður Snær Júlíusson. (2023, 10. febrúar). Afleit grein til að búa til störf og góð lífskjör fyrir Íslendinga í framtíðinni. Heimildin.

Höfundur

Þórólfur Matthíasson

prófessor í hagfræði við HÍ

Útgáfudagur

2.3.2023

Spyrjandi

Katrín, Jónína G.

Tilvísun

Þórólfur Matthíasson. „Hvaða þættir stýra launamun á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 2. mars 2023, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=84690.

Þórólfur Matthíasson. (2023, 2. mars). Hvaða þættir stýra launamun á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=84690

Þórólfur Matthíasson. „Hvaða þættir stýra launamun á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 2. mar. 2023. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=84690>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvaða þættir stýra launamun á Íslandi?
Hugtakið launamunur kemur fyrir í samanburði milli einstaklinga, hópa, starfa, atvinnugreina og stéttarfélaga, svo nokkur dæmi séu nefnd. Kjaratölfræðinefnd[1] vinnur með fjögur grunnhugtök: Grunnlaun, regluleg laun, regluleg heildarlaun og heildarlaun. Auk þess er Kjaratölfræðinefnd nýlega farin að halda sérstaklega utan um launaauka, sem eru álagsgreiðslur, bónusar og aðrir launaliðir sem gerðir eru upp reglulega. Kjaratölfræðinefnd skilgreinir sem fullvinnandi einstaklinga þá sem vinna að minnsta kosti 90% af mánaðarlegri vinnuskyldu. Þeir sem minna vinna teljast hlutastarfsmenn. Í skýrslum sínum fjallar Kjaratölfræðinefnd fyrst og fremst um laun fullvinnandi. Aðrir talnasafnarar hafa þann hátt á að blása launasummu þeirra sem ekki eru fullvinnandi upp í fullt starfshlutfall. Þessar aðgerðir, að fella vinnulitla út úr talnasafni eða að blása laun vinnulítilla upp í fullt starfshlutfall eru nauðsynlegar ef einangra á launamun frá mun sem orsakast af ólíku vinnuframlagi einstaklinga.

Það getur verið flókið mál að bera saman laun tveggja aðila. Þó sá sem vill bera saman hafi fullar upplýsingar um dagvinnulaun, yfirvinnu, álagsgreiðslur og aðrar upplýsingar sem máli skipta, má fá misvísandi niðurstöður um launamun milli þessara tveggja aðila með því að horfa til ólíkra launaþátta. Anna getur verið með mun hærri dagvinnulaun en Bergþóra. Bergþóra getur hins vegar verið með mun hærri heildarlaun en Anna. Þá er freistandi að álykta að launamunur sé Bergþóru í hag. En svo þarf ekki að vera ef Bergþóra fékk mjög háa eingreiðslu á því tímabili sem samanburður er látinn ná til. Launahugtökunum regluleg laun og regluleg heildarlaun í gagnasafni Kjaratölfræðinefndar er ætla að draga úr samanburðarvanda sem hlýst af óreglulegum greiðslum af ýmsu tagi. Vaktaálag getur verið hluti af reglulegum launum. Eins og gefur að skilja geta slíkar leiðréttingar talnasafns aldrei náð fram „réttri“ niðurstöðu heldur aðeins nálgun við rétta niðurstöðu.

Mynd 1: Dreifing grunnlauna, reglulegra launa og reglulegra heildarlauna fullvinnandi eftir mörkuðum - maí 2022, heimild tafla 3.7 í haustskýrslu Kjaratölfræðinefndar 2022.

Kjaratölfræðinefnd sýnir grunnlaun, regluleg laun og regluleg heildarlaun fyrir ólíka undirmarkaði vinnumarkaðarins. Skiptingin í ólíka markaði helgast af skipulagi vinnumarkaðarins í samningssvæði. Á myndinni eru sýnd hefðbundin meðaltöl auk valinna tíundar- og fjórðungsmarka. Í fyrsta lagi eru sýnd fyrstu tíundarmörk, í öðru lagi fyrstu fjórðungsmörk, önnur fjórðungsmörk (sem jafnframt eru 5. tíundarmörk), þriðju fjórðungsmörk og 9. tíundarmörk. Túlkun þessara talna er með þeim hætti að fyrstu tíundarmörkin sýna laun þess aðila sem er með hærri laun en 10% safnsins sem hann tilheyrir (til dæmis aðili á almennum markaði). Þessi aðili er jafnframt með lægri laun en 90% þeirra sem safninu tilheyra. Neðri fjórðungsmörkin sýna laun þess aðila sem er með hærri laun en 25% safnsins sem hann tilheyrir, en lægri en 75% og þannig koll af kolli. Önnur fjórðungsmörkin eru oft nefnd miðgildi vegna þess að 50% þeirra sem safninu tilheyra eru með lægri laun en þar eru tilgreind, en 50% með hærri laun. Þetta eru sem sagt laun miðjuaðilans í safninu. Efri fjórðungsmörkin (75%) sýna laun þess aðila sem er með hærri laun en 75% þeirra sem safninu tilheyra. Mynd 1 sýnir að regluleg heildarlaun eru hærri en regluleg laun sem síðan eru hærri en grunnlaun mælt á alla þá mælikvarða sem tilgreindir eru fyrir alla undirmarkaði. Þetta er eins og við er að búast. Meðaltal er í öllum tilfellum hærra en miðgildi. Það er einkenni launadreifinga þar sem fáir aðilar eru með mjög há laun. Myndin sýnir ágætlega að meiri munur er á hæstu og lægstu launum á almennum markaði en hjá opinberu aðilunum. Það er að segja það er minni breidd í launum hjá hinu opinbera en á almennum markaði, sama hvaða launamælikvarði er notaður.

Tíundarhlutfall er hlutfall launa sem marka níundu tíundarmörk og þau fyrstu. Kjaratölfræðinefnd reiknar þessa stuðla eftir mörkuðum og launategundum.

Tafla 1:Tíundarhlutföll eftir mörkuðum í maí 2022. Heimild Kjaratölfræðinefnd.

Markaður
Grunnlaun
Regluleg laun
Regluleg heildarlaun
Almennur markaður
2,9
2,5
2,5
Ríki
2,0
1,8
2,0
Reykjavíkurborg
1,7
1,9
2,0
Sveitarfélög utan RVK
1,8
1,9
2,1
Kjaratölfræðinefnd notar hugtakið tíundarstuðull. Það hugtak virðist stundum notað í aðeins öðrum skilningi en hugtakið tíundarhlutfall.

Taflan staðfestir það sem sést á mynd 1 um breidd dreifinganna eftir mörkuðum. Dreifing grunnlauna á almenna markaðnum er ójafnari en dreifing breiðari launahugtakanna sem bendir til þess að dreifing aukatekna sé hlutfallslega jafnari en dreifing grunnlauna á þeim markaði. Þetta á síður við um opinberu markaðina þrjá sem bendir til þess að regluleg viðbót við grunnlaun auki launaójöfnuð, en minnki hann ekki.

Laun eftir atvinnugreinum

Mynd 2: Laun og launatengd gjöld á starf árið 2021, heimild Hagstofa Íslands, eigin útreikningar.

Mynd 2 sýnir meðaltal launa og launatengdra gjalda eftir atvinnugreinum á árinu 2021. Því miður eru tölur um tíundarmörk og fjórðungsmörk ekki aðgengilegar á vef Hagstofunnar. Engu að síður afhjúpa tölurnar mikinn mun milli atvinnugreina. Hæst laun eru greidd í atvinnugreinum sem falla undir atvinnugreinaflokkunina fiskveiðar og fiskeldi. Laun í þessum greinum eru tvöfalt hærri en laun í landinu almennt. Laun eru einnig hærri en meðaltalið í fjármála- og vátryggingastarfsemi. Laun í heilbrigðis- og félagsþjónustu eru rétt undir meðallaunum, en laun í fræðslustarfsemi eru talsvert lægri en meðallaun í landinu öllu. Lægstu launin eru greidd í atvinnugreinum sem falla undir rekstur gististaða og veitingarekstur.

Launadreifing eftir starfsstéttum

Mynd 3: Fjórðungsmarkabil launa launþega eftir starfsstétt árið 2021, heimild Hagstofan.

Laun stjórnenda, sérfræðinga og iðnaðarmanna eru hærri en laun verkafólks og sérhæfðs starfsfólks. Mynd 3 sýnir fjórðungsmarkabil helstu starfsstétta samkvæmt skiptingu Hagstofu Íslands. Miðgildi reglulegra heildarlauna stjórnenda eru ríflega tvöfalt hærri en miðgildi reglulegra heildarlauna ósérhæfðs starfsfólks. Spönnin milli fjórðungsmarkanna er 166 þúsund krónur (rúm 30% af miðgildinu) hjá ósérhæfðu starfsfólki, en 528 þúsund krónur (tæp 50% af miðgildinu) hjá stjórnendum. Miðgildi launa stjórnenda er 80% hærra en miðgildi launa verkafólks, miðgildi launa sérfræðinga er 30% hærra en miðgildi launa verkafólks. Hjá iðnaðarmönnum er munurinn 25%. Eins og við munum sjá síðar eru þessar mælingar ekki að fullu í takt við aðrar mælingar sem kann að helgast af því að skiptingar í hópa feli launamun.

Samanburður við Norðurlönd

Á vegum Þjóðhagsráðs var unnin samanburður á launum starfshópanna sem sýndir eru á mynd 4 á Íslandi annars vegar og Noregi, Danmörku og Svíþjóð hins vegar.

Niðurstöður fyrir almenna markaðinn eru sýndar á mynd 4. Miðað er við meðallaun. Í skýrslu Þjóðhagsráðs er einnig sýnd sambærileg mynd fyrir opinbera markaðinn. Vakin er athygli á að framsetningin er frábrugðin því sem sýnt er á mynd 3. En á þeirri mynd eru einvörðungu sýnd heildarlaun, en ekki sundurliðunin í undirþætti.

Mynd 4: Meðallaun á almennum markaði á Norðurlöndum, samsetning launa og samanburður, þúsundir ISK, 2018. Vakin er athygli á að lóðrétti ásinn byrjar við 250 þúsund krónur sem ýkir mun milli Íslands og Svíþjóðar svo dæmi sé tekið. Heimild Þjóðhagsráð.

Tölulegar upplýsingar fyrir Ísland á mynd 4 eru ekki fyllilega sambærilegar við upplýsingar á mynd 3 þar sem gögnin á mynd 3 eru miðuð við árið 2021. Gögn á mynd 4 eiga hins vegar við um árið 2018. Þá ná upplýsingar á mynd 3 til alls vinnumarkaðarins en á mynd 4 aðeins til almenna markaðarins. Athugið einnig að á mynd 4 er miðað við meðaltal en ekki miðgildi heildarlauna. Það ætti ekki að skipta miklu máli í samanburði milli landa.

Heildarlaun stjórnenda á Íslandi eru áberandi hærri en á við um aðra stjórnendur á Norðurlöndum. Sama á við um iðnaðarmenn og sérhæft iðnverkafólk. Umtalsvert stærri hluti íslensku launanna byggir á yfirvinnu eða aukagreiðslum en í hinum löndunum. Laun í Svíþjóð virðast áberandi lægst á Norðurlöndum. En að öðru leyti virðast regluleg laun á Íslandi í nokkuð góðu samræmi við laun í Noregi og Danmörku.

Þessi góða staða Íslands í norrænum samanburði kann að helgast af tímabundinni afstöðu gjaldmiðla landanna. Raungengi íslensku krónunnar var enda tiltölulega hátt árið 2018. Til að taka tillit til þess eru tölurnar að baki myndar 4 leiðréttar með tilliti til kaupmáttar gjaldmiðils hvers lands fyrir sig. Niðurstöðuna má sjá á mynd 5.

Mynd 5: Almennur markaður á Norðurlöndum: Samsetning launa og samanburður, leiðrétt fyrir kaupmætti (USD PPP OECD 2018). Aftur vakin athygli á að lóðrétti ásinn byrjar í 2.000 dollurum, en ekki í núlli. Heimild: Þjóðhagsráð.

Mynd 5 sýnir nokkuð aðra stöðu en mynd 4. Laun í Danmörku eru alltaf hærri en á Íslandi, nema þegar litið er til heildarlauna iðnaðarmanna. Þó regluleg laun stjórnenda og sérfræðinga á Íslandi standi ágætlega samanborið við Noreg og Svíþjóð er ekki sömu sögu að segja um lakast launuðu störfin þar sem laun í Noregi virðast iðulega hærri en á Íslandi þegar tillit er tekið til kaupmáttar.

Höfundar skýrslu Þjóðhagsráðs slá allmarga varnagla varðandi óvissuatriði sem tengjast gagnavinnslunni að baki myndum 4 og 5. Varnaðarorð varðandi oftúlkun talnanna fá aukið vægi þegar gögn um meðaltal launakostnaðar á unna stund (í evrum) er skoðuð, en það er gert á mynd 6.

Mynd 6: Meðaltal launakostnaðar á unna stund í evrum á Norðurlöndum, 2017 - 2021, Heimild Kjaratölfræðinefnd.

Með hliðstjón af mynd 4 mætti ætla að launakostnaður á unna stund væri hæstur á Íslandi, svo í Danmörku, þá í Noregi og lægstur í Svíþjóð. En mynd 6 sýnir að Noregur er ávallt dýrasta landið og Svíþjóð það ódýrasta (af þessum 4 löndum). Til að niðurstöður mynda 4 og 6 geti verið sambærilegar þarf vinnumagn að baki launa Íslendinga að vera umtalsvert meira en tilsvarandi vinnumagn Norðmanna og Dana. Enn fremur þarf vinnumagn Dana að baki tekjum sínum að vera meira en vinnumagn Norðmanna.

Almenn tekjudreifing

Starfsmenn OECD, þeir Jon Kristian Paeliussen Mikkel Hermansen, Christophe André og Orsetta Causa skrifuðu grein í Nordic Economic Policy Review árið 2018 með heitinu „Income Inequality in the Nordics from an OECD Perspective,“[2] Þeir birta tíundarstuðla heildartekna fullvinnandi fyrir Norðurlöndin og valin OECD-lönd.[3] Þessi samanburður gefur góðan grunn til að bera saman dreifingu atvinnutekna áður en velferðarkerfið jafnar tekjur. Mynd 7 sýnir tíundarstuðla og þróun þeirra yfir 25 ára tímabil (þar sem gögn eru aðgengileg).

Mynd 7: Tíundarhlutföll, Norðurlöndin og valin OECD-lönd, 1990 til 2016. Byggt á heildarlaunum fullvinnandi launþega. OECD-meðaltalið er fundið sem óvegið meðaltal valinna OECD-landa (21 land).

Mynd 7 sýnir að tíundarhlutfallið er hæst á Íslandi af Norðurlöndunum. Hlutfallið hefur lækkað nokkuð á Íslandi eftir hrun, en hækkað jafnt og þétt í hinum löndunum. Af þeim OECD-löndum sem sýnd eru á myndinni er ójöfnuður á vinnumarkaði mældur með tíundarhlutfalli mestur í Bandaríkjunum, hefur hækkað úr 4,5 í 5 á þessum 25 árum. Það er að segja sá sem er með hærri laun en 90% launþega er með 5 sinnum hærri laun en sá sem er með hærri laun en 10%. Þetta hlutfall sveiflast í kringum 3 á Íslandi, en hefur hækkað úr 2 í 2,3 í Svíþjóð og úr 2 í 2,5 í Noregi. Hlutfallið er um 2,5 í Danmörku. Norðurlandabúar hafa áhyggjur af þessari hækkun.

Niðurstöður og lærdómar af talnayfirferð

Yfirferðin hér að framan sýnir að talnagögn gefa um margt misvísandi upplýsingar um tekjumyndun og tekjudreifingu á Íslandi. Samanburður Þjóðhagsráðs á heildartekjum eftir starfsstéttum á Íslandi og Noregi, Danmörku og Svíþjóð sýnir öfluga tekjumyndun á Íslandi, sérstaklega samanborið við Svíþjóð. Glansinn minnkar aðeins þegar horft er til vinnumagnsins sem líklega er notað til að búa tekjurnar til og þegar tekið er tillit til þess að verðlag er mun hærra á Íslandi en endurspeglast í gengisskráningunni (PPP-leiðréttingin). Sé litið til vinnumarkaðarins í heild virðist sem munur hárra og lágra launa sé meiri á Íslandi en á öðrum Norðurlöndum, en minni en í Bandaríkjunum og Bretlandi. Sagt með öðrum orðum og í samanburði við Norðurlönd: Að baki norrænna lífskjara hér á landi býr meira vinnuframlag en frændþjóðirnar búa við. Launamunur á vinnumarkaðnum í heild er meiri en meðal frændþjóðanna.

Launamyndun

Í öðru svari á Vísindavefnum (Af hverju fá konur lægri laun en karlar?) er vikið að því að fæðing fyrsta barns hafi mikil áhrif á launamyndunarferli og vinnumarkaðssnertingu (sænskra) sambúðaraðila. Þá skiptir einnig máli að karl í sambúð er að jafnaði 2 árum eldri en konan í þeirri sambúð. Vinnumarkaðsþátttaka karla, sem eru í sambúð og eiga barn, er umfangsmeiri en vinnumarkaðsþátttaka kvenna í sömu stöðu. En fleira hefur áhrif á launamyndun en sambúðarstaða og barnafjöldi. Aldur og starfsaldur eru áhrifaþættir (meiri starfsaldur jafngildir meiri reynslu og þjálfun), menntun hefur einnig áhrif og líka búseta, vaktavinna, vinnuhlutfall og atvinnugrein.

Hagstofa Íslands hefur um árabil haft það hlutverk að reikna út launamun kynjanna. Í tengslum við þá útreikninga hafa komið fram niðurstöður sem kasta ljósi á launamyndun karla og kvenna á Íslandi þar sem byggt er á upplýsingum úr skattaframtölum, frá Þjóðskrá og Vinnumarkaðsrannsóknum yfir alllangt tímabil. Aðferðafræði Hagstofunnar hefur þróast mikið og engin tök á að gera grein fyrir henni í þessari grein. En vísa má til rannsóknarritgerðar sem Hagstofan birtir.[4]

Tafla 2: Áhrif einstakra launamyndunarþátta á tímalaun karla og kvenna á íslenskum vinnumarkaði (prósentutölur innan sviga).

Launamyndunarþáttur
Konur
Karlar
Aldur
0,003 (0,3%)
0,004 (0,4%)
Starfsaldur í fyrirtæki
0,004 (0,4%)
0,007 (0,7%)
Nemandi
-0,002 (-0,2%)
-0,006 (-0,6%)
Nemi (iðnnemi)
-0,199 (-18%)
-0,343 (-29%)
Í sambúð
0,008 (0,8%)
0,039 (4%)
Barn 0-2 ára
-0,002 (-0,2%)
-0,013 (-1,3%)
Barn 2-5 ára
-0,009 (-0,9%)
-0,003 (-0,3%)
Barn 6-16 ára
0,042 (4,3%)
0,039 (4%)
Í verkalýðsfélagi
0,017 (1,7%)
-0,048 (-4,7%)
Í fullu starfi
0,001 (0,1%)
0,013 (1,3%)
Ekki Íslendingur
-0,048 (-4,7%)
-0,053 (-5,2%)
Verkstjórn
0,166 (18,1%)
0,193 (21,3%)
Iðnmenntun
0,007 (0,7%)
0,027 (2,7%)
Á mánaðarlaunum
0,036 (3,7%)
0,079 (8,7%)
Vaktavinna
0,089 (9,3%)
0,073 (7,6%)
Höfuðborgarsvæðið
0,053 (5,4%)
0,051 (5,2%)
Hlutfall kvenna á vinnustað milli 33 og 66%
0,359 (42,3%)
0,333 (39,5%)
Hlutfall kvenna á vinnustað yfir 66%
0,238 (26,9%)
0,215 (24%)
Hlutfall ungra minna en 66%
0,387 (47,3%)
0,343 (40,9%)
Jafnlaunavottun
0,003 (0,3%)
0,028 (2,8%)
Fyrirtæki meðalstórt
0,021 (2,1%)
0,007 (0,7%)
Fyrirtæki lítið
0,026 (2,6%)
-0,008 (-0,8%)
Grunnskóli
Framhaldsskóli
Viðbótarnám eftir framhaldsskóla
0,035 (3,6%)
0,019 (1,9%)
Fyrrihlutapróf háskóli
0,092 (9,6%)
0,062 (6,4%)
Meistarapróf úr háskóla eða meira
0,185 (20,3%)
0,154 (16,6%)
Vinnu hjá sveitarfélagi
-0,207 (-18,7%)
-0,199 (-18%)
Vinnur hjá ríkinu
-0,159 (-14,7%)
-0,200 (-18,1%)

Hagstofan notar nokkuð flókna útfærslu aðhvarfsgreiningar til að meta áhrif einstakra þátta á launamyndunina. Tafla 2 sýnir helstu niðurstöður þegar aðhvarfsgreiningu er beitt á talnasafn sem skipt er eftir kyni. Skipta má skýringarþáttum í nokkra flokka. Í fyrsta lagi þætti sem tengjast fyrirtækjum og staðsetningu þeirra. Þeir sem hafa starfsstöð á höfuðborgarsvæðinu fá 5% hærri laun en þeir sem hafa starfsstöð utan þess, óháð kyni. Fyrirtæki með jafnlaunavottun borga bæði körlum og konum hærri laun en fyrirtæki sem ekki eru með slíka vottun. Meðalstór fyrirtæki greiða lítillega hærri laun en stór, lítil fyrirtæki borga körlum lægri laun en stór, en konum meira! Að vinna hjá ríki eða sveitarfélagi þýðir 15-20% lægri laun en launagreiðslur til sambærilegs einstaklings í vinnu á almennum markaði. Þá sjáum við að körlum í sambúð er greitt 4% hærri laun en sambærilegum karli sem ekki er í sambúð. Sambúðarávinningur fyrir konur er minni. Ung börn á heimili hafa neikvæð áhrif á laun beggja kynja, en eldri börn jákvæð. Þau áhrif eru sterkari fyrir karla en konur. Viðbótarnám eftir framhaldsskóla hefur lítil en jákvæð áhrif. Meistaragráða eða betra hefur talsverð áhrif, meiri fyrir konur en karla.

Niðurstöður Hagstofunnar staðfesta að launamyndunarferlið er ekki það sama fyrir karla og konur. Að öðru leyti staðfesta niðurstöður Hagstofunnar að launamyndun ræðst bæði af þáttum sem einstaklingarnir taka ákvörðun um (hjúskaparstöðu, búsetu, barnafjöldi) og af þáttum sem þeir ráða litlu um (aldur, stærð fyrirtækis). Að auki geta sumir launþegar tekið ákvörðun um hvort unnið er á vettvangi hins opinbera eða á almenna markaðnum.

Verkstjórn er einn fárra þátta í greiningu Hagstofunnar sem er nánast alfarið á forræði vinnuveitandans. Eins og tafla 2 ber með sér eru launauppbót vegna verkstjórnar umtalsverð.

Niðurstaða

Er launamunur á Íslandi meiri en annars staðar? Tölur úr norrænum samanburði bendir til þess að svo sé, sjá mynd 7. Þessi staðreynd stangast á við niðurstöður á mælingum á svokölluðum Gini-stuðli. Á þann mælikvarða er tekjudreifing aðeins jafnari í 3 eða 4 ríkjum OECD.[5] Á þessu eru eðlilegar skýringar eins og dregið er fram í neðanmálsgrein 3. Svo virðist einnig sem meðallaun á Íslandi, reiknuð samkvæmt skráðu gengi krónunnar séu (eða hafi verið) há samanborið við laun á öðrum Norðurlöndum á árinu 2018. Sú mynd fölnar reyndar þegar tekið er tillit til líklegs vinnuframlags Íslendinga og þess að verðlag á Íslandi er umtalsvert hærra en í Danmörku og Svíþjóð. Sé litið til tekjuskiptingar eftir atvinnugreinum vekur athygli að rekstur veitingastaða og gistirekstur greiðir lægst laun allra atvinnugreina að meðaltali. Þessi staðreynd hefur orðið hagfræðingum áhyggjuefni,[6] þar sem þessi atvinnugrein er hluti af ferðaþjónustunni. Aukist hlutdeild ferðaþjónustunnar í vinnuaflsnotkuninni án þess að framleiðni og launagreiðslur aukist hraðar en annars staðar í hagkerfinu gæti það orðið dragbítur á hagvöxt á Íslandi þegar til framtíðar er litið.

Tilvísanir:
  1. ^ Kjaratölfræðinefnd er samstarfsvettvangur um gerð og hagnýtingu tölfræðigagna um laun og efnahag. Í nefndinni sitja fulltrúar heildarsamtaka á vinnumarkaði, ríkis og sveitarfélaga, auk fulltrúa forsætisráðuneytis, félags- og vinnumálaráðuneytis og Hagstofu Íslands.
  2. ^ sjá Rolf Aaberge, Christophe André o.fl. (2018). Income Inequality in the Nordics from an OECD Perspective. The Nordic Council of Ministers.
  3. ^ Þessi ójafnaðarmæling er ólík mælingu á svokölluðum Gini-stuðli sem oft er vísað til að því leytinu til að ekki er tekið til tekjujöfnunar skatta- og tilfærslukerfa. Þá er gögnum safnað um einstaklinga á vinnumarkaði. Gini-stuðlar sem Hagstofa Íslands birtir eru alla jafna byggðar á fjölskyldutekjum. Fjölskyldutekjum er dreift á fjölskyldumeðlimi samkvæmt reiknireglu. Því má búast við að tíundarhlutfall sem Paeliussen o.fl. reikna út beri merki meiri ójafnaðar en Gini-útreikningar Hagstofunnar.
  4. ^ Hagstofa Íslands. (2021). Icelandic gender pay gap analysis 2008-2020 . Hagtíðindi - Statistical Series, 106:6.
  5. ^ Sjá OECD. Income inequality.
  6. ^ Sjá Þórður Snær Júlíusson. (2023, 10. febrúar). Afleit grein til að búa til störf og góð lífskjör fyrir Íslendinga í framtíðinni. Heimildin.
...