Gull er allra efna stöðugast og raunar nánast óeyðanlegt – ekki er fjarri lagi að meginþorri þess gulls sem grafið hefur verið úr jörðu frá upphafi vega sé ennþá í notkun. Gull úr eyrnalokk Kleópötru kann nú að vera í tannfyllingu einhvers eða giftingarhring. Þótt gull tengist einkum graníti og æðum tengdum þeim, finnst það í litlum mæli í flestu storkubergi. En vegna þess hve lágur styrkur (magn) þess er í storkubergi, og hve vel það stenst hvers kyns veðrun og rof, hafa helstu gullnámur jafnan verið í árseti þar sem gullið situr eftir þegar önnur efni molna og eyðast og berast burt. Mest og merkust slíkra myndana er gullsvæðið mikla þar sem heitir Witwatersrand í Suður-Afríku. Þessi forkambríska völusteinsmyndun er að flatarmáli næstum jafnstór og Ísland og hefur sums staðar verið numin niður á þriggja km dýpi síðan gull fannst þar fyrst árið 1885 – þaðan koma yfir 60% þess gulls sem numið er árlega í heiminum. En mikið þarf til: berg sem kallað er gullauðugt inniheldur ekki nema 0,007% af gulli (Au) þannig að um 50 grömm af málmi fást úr hverju tonni af grjóti. Almennt er álitið að gullið í Witwatersrand hafi borist með straumvatni ásamt völuberginu en þó eru þeir til sem halda því fram að gullið hafi fallið út úr jarðhitavatni. Meginrökin eru þau, að með gullinu er steindin úraninít (UO2) sem stenst veðrun mjög illa og leysist auðveldlega upp — það þykir skjóta skökku við að óeyðanleg og mjög-eyðanleg steind skuli hafa fengið sömu örlög í árburðinum. En hver svo sem myndunarsaga þess er, þá er þetta svæði einstætt í veröldinni. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvað er hreint gull mörg karöt?
- Er hreint gull (24 karöt) notað í eitthvað?
- Eru til margar tegundir gimsteina á Íslandi og finnast gull, silfur og kopar í einhverju magni?
- Hvað er glópagull og hvernig verður það til?