Við fengum þessa spurningu, Hvað er mikið af koltvísýringi í loftinu?, og því ákvað ég að kíkja á Vísindavefinn. Sá þá svar við þessari spurningu Hve mikið er af koltvísýringi kringum jörðina? Þarna eru tölur fyrir árið 2000. Ég velti fyrir mér hvort hægt sé að uppfæra með nýrri tölum?Svarið við spurningunni sem spyrjandi vísar til (Hve mikið er af koltvísýringi kringum jörðina?) er frá árinu 2002 og því sjálfsagt að taka saman í stuttu máli hvernig staðan hefur breyst. Við bendum lesendum engu að síður að skoða vel upprunalega svarið, enda standa allar útskýringar svarshöfundar þar fyllilega fyrir sínu, þó að styrkur koltvíoxíðs í andrúmsloftinu sé annar nú en þá. Reglulegar mælingar á koltvíoxíði (CO2, sem einnig er nefnt koltvísýringur eða koltvíildi) í andrúmslofti hófust á Mauna Loa á Hawaii árið 1958. Þær sýna að styrkur CO2 hefur vaxið stöðugt allar götur síðan. Þegar áðurnefnt svar var birt á Vísindavefnum var styrkurinn 370 ppm[1] og hafði aukist um 33% frá því fyrir iðnbyltingu. Árið 2022 var styrkurinn hins vegar kominn eilítið yfir 418 ppm (ársmeðaltal, óstaðfestar tölur) sem er um 13% aukning á 20 ára tímabili. Augnabliksstyrkur (þ.e. dagsgildi) á Mona Loa í janúar 2023 var hins vegar kominn yfir 419 ppm.
- ^ Styrkur CO2 er mældur í milljónustu hlutum og 278 ppm þýðir, að af hverjum milljón loftsameindum eru 278 sameindir CO2.
- CO2.earth. (Sótt 17.1.2023).
- NOAA Global Monitoring Laboratory. Trends in Atmospheric Carbon Dioxide. (Sótt 17.1.2023).
Tómas Jóhannesson jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands fær þakkir fyrir veitta aðstoð við gerð þessa svars.