Þegar ég fægi silfrið mitt þá set ég matarsóda og álpappír út í sjóðandi vatn, hendi silfrinu úti og bíð róleg um stund. Svo tek ég upp skínandi fínt silfur en álpappírinn verður svartur. Hvað gerist?Silfur (Ag) dökknar með tíð og tíma þegar það hvarfast við brennisteinsvetni (H2S) í andrúmsloftinu (fyrir tilstuðlan súrefnis) og myndar svart silfursúlfíð (Ag2S). Þá er talað um að fallið hafi á silfrið. Efnahvarfið sem á sér stað er eftirfarandi: $$4Ag_{(s)}+ 2H_2 S_{(g)}+ O_{2(g)} \to 2Ag_2 S_{(s)}+2H_2 O_{(l)}$$ Ýmsar leiðir eru færar til að endurheimta gljáandi silfurlitinn. Ein þeirra er að setja silfur sem fallið hefur á í heitt vatn með álpappír (Al) og matarsóda, eins og spyrjandi bendir á. Eftirfarandi efnahvarf á sér þá stað: $$3Ag_2 S_{(s) }+ 2Al_{(s) } \to 6Ag_{(s)}+Al_2 S_{3(s)}$$ Álið hvarfast við silfursúlfíðið og myndar grátt álsúlfíð (Al2S3) á yfirborði álpappírsins og/eða álsúlfíð-agnir sem fljóta í vatninu. Silfrið sem var í silfursúlfíðinu verður hins vegar aftur að hreinu silfri á yfirborði silfurhlutarins og þar með er hluturinn laus við svarta litinn. Silfuratómin úr silfursúlfíðinu setjast þó ekki endilega á sama stað á silfurhlutinn og þau voru upprunalega. Í hvert sinn sem þetta hreinsunarferli er framkvæmt myndast því örlitlar holur eða ójöfnur á yfirborð hlutarins, sem sjást bara í smásjá. Það er því líklegt að silfrið verði örlítið minna glansandi eftir hverja meðferð.

Ein leið til að endurheimta gljáandi lit silfurs sem fallið hefur á er að setja það í heitt vatn ásamt álpappír og matarsóda.
- Ted Beyer. (2014). The Chemistry of Silver Tarnish. Educational Innovations. (Sótt 10.10.2022).
- Removing Tarnish from Silver. Compound Interest. (Sótt 10.10.2022).
- Aluminium oxide. Wikipedia. (Sótt 10.10.2022).
- Mynd: EverydayCheapskate. (Sótt 10.10.2022).