Eru til þjóðsögur eða heimildir um hvernig fólk hafði samband við eða kallaði fram huldufólk?Í 22. kafla Kormáks sögu er sagt frá því að álfum er boðið til veislu eða nokkurs konar álfablóts. Maður einn sem hafði særst í bardaga leitar ráða hjá Þórdísi spákonu og hún segir: „Hóll einn er héðan skammt í brott, er álfar búa í. Graðung þann er Kormákur drap skaltu fá og rjóða blóð graðungsins á hólinn utan en gera álfum veislu af slátrinu og mun þér batna.“ Engum sögum fer þó af því hvort álfarnir voru mönnum sýnilegir við veisluna eða því hvort einhver bein samskipti urðu á milli þeirra.
Þegar menn sitja á krossgötum þá koma álfar úr öllum áttum og þyrpast að manni og biðja hann að koma með sér, en maður má engu gegna; þá bera þeir að manni alls konar gersemar, gull og silfur, klæði, mat og drykk. En maður má ekkert þiggja. Þar koma álfakonur í líki móður og systur manns og biðja mann að koma, og allra bragða er leitað. En þegar dagur rennur þá á maður að standa upp og segja: „Guði sé lof, nú er dagur um allt loft.“ Þá hverfa allir álfar, en þessi álfaauður verður eftir og hann á þá maðurinn. – En svari maður eða þiggi boð álfa þá er maður heillaður og verður vitstola og aldrei síðan mönnum sinnandi. Því varð manni sem Fúsi hét og sat úti á jólanótt og stóðst lengi þangað til ein álfakonan kom með stóra flotskildi og bauð honum að bíta í. Þá leit Fúsi við og sagði það sem síðar er að orðtæki haft: „Sjaldan hef ég flotinu neitað;“ beit hann þá bita sinn úr flotskildinum og trylltist og varð vitlaus. (JÁ I 118)Heimildir og mynd:
- Kormáks saga. Íslensk fornrit VIII. Einar Ól. Sveinsson gaf út. Reykjavík: Hið íslenska fornritafélag, 1939.
- Jón Árnason. Íslenskar þjóðsögur og ævintýri. 6 bindi. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjvík: Þjóðsaga, 1954–1961.
- Mynd: Alfaborg - Palace of the Elves - Flickr.com. Höfundur myndar: Amaury Laporte. Birt undir https://creativecommons.org/licenses/by/2.0/ leyfi. (Sótt 8.8.2022).