Hvað er bergtegundin íslandít og hvar er hægt að finna hana? Finnst hún annars staðar í heiminum en á Íslandi?Meginhluti storkubergs jarðar skiptist í þrjár syrpur, það er röð samstofna bergtegunda frá kísilsnauðum til kísilríkra (basískt berg–ísúrt–súrt), þær nefnast kalk-alkalíska, lág-alkalíska (þóleiíska) og alkalíska syrpan. Hin fyrstnefnda einkennir storkuberg eyjaboga og fellingafjalla, nefnilega niðurstreymisbelti jarðar, og af sjálfu leiðir að hún finnst ekki hér á landi. Ísúrt gosberg hennar nefnist andesít, eftir Andesfjöllum í Suður-Ameríku. Basaltískur endi lág-alkalísku syrpunnar myndar hafsbotna jarðar en ofansjávar er hún bundin úthafseyjum sem tengjast rekhryggjum og heitum reitum; þar er ísúra bergið járnríkt og álsnautt (miðað við andesít) og nefnist íslandít. Höfundur nafnsins hét Ian Carmichael, breskur stúdent sem gerði 10 milljón ára gamla eldstöð sem hann kenndi við kirkjustaðinn Þingmúla í Skriðdal að doktorsverkefni sínu. Vafalaust er íslandít að finna á ýmsum úthafseyjum þar sem lág-alkalískt berg er ríkjandi, til dæmis á Hawaii og Galapagos, en hér á landi tengist það megineldstöðvum rekbeltanna sem og fornum rofnum eldstöðvum af sama tagi. Auk þess að vera fremur erfitt í greiningu er ísúrt berg tiltölulega sjaldgæft hér landi samanborið við basískt berg og súrt; þá staðreynd uppgötvaði þýski efnafræðingurinn Robert Bunsen í Íslandsferð sinni 1846 og síðan hefur það verið rækilega staðfest, síðast í tímaritinu Jökli 2008.[1]
Alkalíska röðin | Lág-alkalíska röðin | ||
AB | alkalíbasalt | P | pikrít |
H | hawaiít | B | basalt |
M | mugearít | BÍ | basaltískt íslandít |
BE | benmorít | Í | íslandít |
T | trakít | D | dasít |
AR | alkalí-ríólít | R | ríólít |
- ^ Sveinn P. Jakobsson, Kristján Jónasson, Ingvar A. Sigurðsson 2008. The three igneous rock series of Iceland. Jökull 58: 117–138.
- Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (2013).