Sæl öll. Hafið þið aðgengilega útskýringu á íslensku á hugtakinu externalities í hagfræði, sem ég sé að kallast úthrif sums staðar? Kær kveðja. Stefán Jón HafsteinHagfræðingar tala um ytri áhrif eða úthrif (e. externalities) þegar hegðun eða ákvarðanir eins hafa áhrif á aðra án þess þó að þeir eigi í viðskiptum. Sem dæmi má nefna að ef ég ákveð að keyra á stórum bensínháki um götur bæjarins og menga þannig andrúmsloftið þá hefur það neikvæð áhrif á aðra. Í þessu tilfelli raunar alla heimsbyggðina, vegna hnattrænnar hlýnunar. Ytri áhrif geta einnig verið jákvæð. Sem dæmi má taka húseiganda sem leggur mikla alúð við garðinn við húsið sitt og gerir hann undurfagran, það hefur jákvæð áhrif á flesta nágrannana, það er þá sem njóta fegurðarinnar, en kannski ekki þá sem fyllast öfund eða samviskubiti vegna þess að þeir sjálfir hafa ekki einu sinni slegið grasflötina sína síðan sláttuvélin bilaði fyrir þremur árum (það síðastnefnda er svo auðvitað dæmi um athafnir, eða öllu heldur athafnaleysi, sem hefur neikvæð ytri áhrif). Bólusetning er annað dæmi. Bólusetning eins minnkar líkur á því að aðrir, jafnvel óbólusettir, smitist og það er vitaskuld jákvætt fyrir þá.
- global-vaccination-effort---brazil_51046948702_o | Retired O… | Flickr. (Sótt 28.09.2021). Myndin er birt undir leyfinu Attribution-NonCommercial-NoDerivs 2.0 Generic (CC BY-NC-ND 2.0) .