Náttúruleg „verkjalyf“ líkamans eins og dópamín virðast hvorki hafa eitrunar- né ávanabindandi áhrif, eins og t.d. morfín. Svo hvers vegna er dópamín þá ekki bara framleitt sem lyf til sölu, í staðinn fyrir hættulegu, ávanabindandi gerviefnin?Taugaboðefni eru sameindir, oftast litlar, sem flytja boð milli taugafrumna eða frá taugafrumum til svarfrumna en þær síðastnefndu eru frumur sem stjórna einhverri tiltekinni starfsemi. Sem dæmi um svarfrumur mætti nefna vöðvafrumur eða kirtilfrumur. Dópamín er taugaboðefni sem er eitt af mikilvægustu boðefnum í heilanum en hefur einnig bein áhrif á starfsemi vissra líffæra utan heilans. Í heilanum sér dópamín einkum um boðflutninga í þeim kjörnum sem sjá um hreyfingar og samhæfingu þeirra en utan heilans er það aðallega stjórnun blóðrásar sem dópamín tekur þátt í. Í vissum tilvikum getur dópamín sennilega dregið úr verkjum en sú verkun er veik og ekki gagnleg. Hins vegar er vitað að dópamín getur átt þátt í að viðhalda langvinnum verkjum og þannig skert lífsgæði. Vissulega getur dópamín framkallað ánægjutilfinningu en erfitt er að framkalla hana með lyfjagjöf.
- Dopamine HCl.JPG - Wikimedia Commons. Höfundur myndar: Intropin. Birt undir CC BY 3.0 leyfi. (Sótt 25.10.2021).