Þegar maður er að skoða staðsetningu jarðskjálfta á vef Veðurstofunnar þá eru þeir staðsettir með tölum í lengdar- og breiddargráðum. Nú langar mig að vita hvað ein lengdargráða er löng í metrum á breiddargráðu, t.d. 63,88° þannig að maður geti áttað sig á hve mikil fjarlægð er á milli upptaka skjálfta?Þar sem fjarlægðin á milli lengdarbauga minnkar stöðugt eftir því sem farið er norðar eða sunnar frá miðbaug er einfaldast að nota reiknivélar á Netinu til að skoða fjarlægð á milli staða. Það hefur lengi tíðkast að gefa upp staðsetningu á yfirborði jarðar með því að nota bauganet sem eins konar ímyndað hnitakerfi lagt yfir jarðarkúluna. Breiddarbaugar eru notaðir til þess að ákvarða staðsetningu til norðurs eða suðurs og lengdarbaugar ákvarða staðsetningu til austurs eða vesturs. Í gráðum talið er jafnt bil á milli breiddarbauganna (1 gráða), en þar sem jörðin er ekki fullkomlega hnöttótt heldur flatari til pólanna er bilið á milli þeirra ekki nákvæmlega það sama í kílómetrum talið, en munar þó ekki miklu. Við miðbaug eru um 110,57 km á milli breiddarbauga en við pólana er fjarlægðin um 111,70 km. Hins vegar fer bilið á milli lengdarbauganna algjörlega eftir því við hvaða stað er miðað. Við miðbaug er fjarlægðin á milli þeirra rúmlega 111 km en minnkar svo eftir því sem nær dregur pólunum þar sem þeir koma allir saman og fjarlægðin er 0. Það er því nokkuð flókið fyrir flest okkar að reikna vegalengd á milli tveggja staða út frá lengd og breidd. Hins vegar eru góðar reiknivélar á Netinu sem auðvelda lífið þegar leysa þarf svona verkefni. Til dæmis má benda á vef Fellibyljamiðstöðvar Bandaríkjanna (National Hurricane Center and Central Pacific Hurricane Center) eða síðuna Movable Type Scripts. Á þessum síðum er bæði hægt að setja inn staðsetningu á forminu gráður/mínútur/sekúndur og sem tugabrot. Hér var sérstaklega spurt um fjarlægðina á milli upptaka jarðskjálfta og vísað í töflu á vef Veðurstofunnar þar sem staðsetning jarðskjálftanna er sýnd í breidd og lengd í hundraðshlutum úr gráðum. Tökum sem dæmi tvo jarðskjálfta sem urðu föstudaginn 12. mars, annars vegar þann sem var kl. 7:43 og var 5 að stærð hins vegar skjálfta upp á 4,2 sem varð rúmum klukkutíma síðar:
- Latitude/Longitude Distance Calculator - National Hurricane Center. (Sótt 12.3.2021).
- Movable Type Scripts. (Sótt 12.3.2021).
- The Distance Between Degrees of Latitude and Longitude - ThoughtCo. (Sótt 12.3.2021).
- How to Calculate the Distance Between Latitude Lines - Sciencing. (Sótt 12.3.2021).
- Allt Ísland - jarðskjálftar síðustu 48 klst. (Óyfirfarnar frumniðurstöður) | Jarðskjálftar - allt landið | Veðurstofa Íslands. (Sótt 12.3.2021).