Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Geta fjöll verið ljót?

Ólafur Páll Jónsson

Stutta svarið við þessari spurningu er: Já, fjöll geta verið ljót. Gömul kona sem flutti frá Akureyri suður á Selfoss sagðist oft sakna fallegu fjallanna við Eyjafjörð og gaf lítið fyrir Ingólfsfjall, sem Selfyssingar töluðu svo gjarnan um. Henni fannst Ingólfsfjall vera ljótt. Eftir að hafa búið syðra í nokkur ár heyrðist hún svo segja „Mér finnst bara ágætt að vera á Selfossi eftir að ég missti sjónina“ og átti þá við að nú þyrfti hún ekki lengur að hafa Ingólfsfjall fyrir augunum í stað hinna fögru fjalla sem ramma inn mynni Eyjafjarðar.

Selfoss séð til norðvesturs, Ölfusá og Ingólfsfjall í bakgrunni.

En þótt fólki finnist fjall ljótt, er ekki þar með sagt að rétt sé að eigna fjallinu þennan sérstaka eiginleika, ljótleika. Og reyndar er heldur ekki ljóst hvort ljótt fjall (skyldi slíkt fjall vera til) sé ljótt vegna þess að það hafi til að bera sérstakan eiginleika, ljótleika, eða hvort ljótleiki fjallsins sé einfaldlega fjarvera fegurðar eins og skugginn eða myrkrið sem er fjarvera ljóss.

Á átjándu öld var mikið rætt um fegurð náttúrunnar og þýski heimspekingurinn Immanuel Kant taldi að náttúran væri besta dæmið um fagurfræðilegt viðfangsefni, betri en nokkur list. En fegurð náttúrunnar átti sér ólíkar myndir, hún var ýmist talin myndræn (e. picturesque), fögur (e. beautiful) eða háleit (e. sublime). Á íslensku hefur hið háleita einnig verið kallað hið ægifagra. Heimspekingurinn Edmund Burke setti hugmyndina um ægifegurð á kortið, ef svo má segja, í bókinni A Philosophical Inquiry into the Origin of Our Ideas of the Sublime and Beautiful. Þar segir hann meðal annars:

Allt það sem vekur hugmynd um sársauka og hættu, það er að segja allt sem á einhvern hátt er ógnvænlegt og fjallar um ógnvænlega hluti eða virkar hliðstætt ógn, er uppspretta hins háleita; það er að segja kallar fram sterkustu kenndir sem hugurinn á til. (Sjá Æsa 2008, bls. 12).

Breski heimspekingurinn Emily Brady, sem hefur fjallað mikið um íslenska náttúru, segir á einum stað:

Í reynslu af hinu háleita kemur náttúran manni fyrir sjónir sem flókin, dularfull, myrk, mikil, risavaxin, taumlaus, víðfeðm, óreiðukennd, ólöguleg, formlaus, hrá, hávær, ofsafengin o.s.frv. Hvar fellur mannfólkið inn í þetta allt saman? Það kemur ekki á óvart að í sannri reynslu af hinu háleita finnst okkur við enn vera agnarsmá. (Brady, 2008, bls. 43)

Litlu síðar segir hún svo:

Hér er því um að ræða náttúru sem menn meta fyrir eiginleika sem eru í sterkri mótsögn við blómlegar byggðir. Enda þótt þá eiginleika megi ekki kenna við ljótleika tilheyra þeir þó flokki eiginleika sem jafnan teljast vera í andstöðu við fegurð. (Brady, 2008, bls. 44)

Lómagnúpur.

Fjöll eins og Herðubreið eða Lómagnúpur eru kannski í senn myndræn, fögur og ægifögur. En Laki, sem er varla meira en lítill móbergshjalli er ekki sérlega myndrænn, varla fagur heldur, og eflaust hefur einhver ferðalangur stoppað bíl sinn á stæðinu við rætur fjallsins, horft upp skriðuna þar sem stígurinn hlykkjast upp brekkuna og sagt: „Þetta er ekkert sérstakt.“ En þar sem fjallið situr klofið á miðri Lakagígasprungunni vekur það hæglega upp tilfinningu fyrir smæð mannsins andspænis náttúrunni, um ofsafenginn kraftinn og hin myrku öfl sem ráða reki jarðskorpunnar. Laki er því kannski ægifagur þótt hann sé hvorki myndrænn né fagur í venjulegum skilningi þess orðs.

Heimildir og myndir:

Spyrjandi sendi Vísindavefnum spurninguna nokkrum sinnum, meðal annars með þessu bréfi:

Undanfarin ár hef ég ítrekað óskað eftir svari Vísindavefs Háskóla Íslands hvort að fjöll geti verið ljót. Þrátt fyrir það hefur aldrei þeim fjölmörgu spurningum verið svarað. Langar mig því að spyrja hvort Vísindavef Háskóla Íslands beri ekki að svara fyrri fyrirspurnum, um hvort fjöll geti verið ljót, enda bera þær fyrirspurnir í sér að svars væri að vænta sbr. óskráðri meginreglu í íslenskum stjórnsýslurétti um að stjórnvöld verði í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að leggja meðferð og afgreiðslu erindisins, um hvort fjöll geti verið ljót, í skipulegan farveg sem miðaði að því að erindið, fái afgreiðslu lögum samkvæmt.

Höfundur

Ólafur Páll Jónsson

prófessor í heimspeki við HÍ

Útgáfudagur

26.2.2021

Spyrjandi

Gunnar Sigurðarson

Tilvísun

Ólafur Páll Jónsson. „Geta fjöll verið ljót?“ Vísindavefurinn, 26. febrúar 2021, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=81114.

Ólafur Páll Jónsson. (2021, 26. febrúar). Geta fjöll verið ljót? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=81114

Ólafur Páll Jónsson. „Geta fjöll verið ljót?“ Vísindavefurinn. 26. feb. 2021. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=81114>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Geta fjöll verið ljót?
Stutta svarið við þessari spurningu er: Já, fjöll geta verið ljót. Gömul kona sem flutti frá Akureyri suður á Selfoss sagðist oft sakna fallegu fjallanna við Eyjafjörð og gaf lítið fyrir Ingólfsfjall, sem Selfyssingar töluðu svo gjarnan um. Henni fannst Ingólfsfjall vera ljótt. Eftir að hafa búið syðra í nokkur ár heyrðist hún svo segja „Mér finnst bara ágætt að vera á Selfossi eftir að ég missti sjónina“ og átti þá við að nú þyrfti hún ekki lengur að hafa Ingólfsfjall fyrir augunum í stað hinna fögru fjalla sem ramma inn mynni Eyjafjarðar.

Selfoss séð til norðvesturs, Ölfusá og Ingólfsfjall í bakgrunni.

En þótt fólki finnist fjall ljótt, er ekki þar með sagt að rétt sé að eigna fjallinu þennan sérstaka eiginleika, ljótleika. Og reyndar er heldur ekki ljóst hvort ljótt fjall (skyldi slíkt fjall vera til) sé ljótt vegna þess að það hafi til að bera sérstakan eiginleika, ljótleika, eða hvort ljótleiki fjallsins sé einfaldlega fjarvera fegurðar eins og skugginn eða myrkrið sem er fjarvera ljóss.

Á átjándu öld var mikið rætt um fegurð náttúrunnar og þýski heimspekingurinn Immanuel Kant taldi að náttúran væri besta dæmið um fagurfræðilegt viðfangsefni, betri en nokkur list. En fegurð náttúrunnar átti sér ólíkar myndir, hún var ýmist talin myndræn (e. picturesque), fögur (e. beautiful) eða háleit (e. sublime). Á íslensku hefur hið háleita einnig verið kallað hið ægifagra. Heimspekingurinn Edmund Burke setti hugmyndina um ægifegurð á kortið, ef svo má segja, í bókinni A Philosophical Inquiry into the Origin of Our Ideas of the Sublime and Beautiful. Þar segir hann meðal annars:

Allt það sem vekur hugmynd um sársauka og hættu, það er að segja allt sem á einhvern hátt er ógnvænlegt og fjallar um ógnvænlega hluti eða virkar hliðstætt ógn, er uppspretta hins háleita; það er að segja kallar fram sterkustu kenndir sem hugurinn á til. (Sjá Æsa 2008, bls. 12).

Breski heimspekingurinn Emily Brady, sem hefur fjallað mikið um íslenska náttúru, segir á einum stað:

Í reynslu af hinu háleita kemur náttúran manni fyrir sjónir sem flókin, dularfull, myrk, mikil, risavaxin, taumlaus, víðfeðm, óreiðukennd, ólöguleg, formlaus, hrá, hávær, ofsafengin o.s.frv. Hvar fellur mannfólkið inn í þetta allt saman? Það kemur ekki á óvart að í sannri reynslu af hinu háleita finnst okkur við enn vera agnarsmá. (Brady, 2008, bls. 43)

Litlu síðar segir hún svo:

Hér er því um að ræða náttúru sem menn meta fyrir eiginleika sem eru í sterkri mótsögn við blómlegar byggðir. Enda þótt þá eiginleika megi ekki kenna við ljótleika tilheyra þeir þó flokki eiginleika sem jafnan teljast vera í andstöðu við fegurð. (Brady, 2008, bls. 44)

Lómagnúpur.

Fjöll eins og Herðubreið eða Lómagnúpur eru kannski í senn myndræn, fögur og ægifögur. En Laki, sem er varla meira en lítill móbergshjalli er ekki sérlega myndrænn, varla fagur heldur, og eflaust hefur einhver ferðalangur stoppað bíl sinn á stæðinu við rætur fjallsins, horft upp skriðuna þar sem stígurinn hlykkjast upp brekkuna og sagt: „Þetta er ekkert sérstakt.“ En þar sem fjallið situr klofið á miðri Lakagígasprungunni vekur það hæglega upp tilfinningu fyrir smæð mannsins andspænis náttúrunni, um ofsafenginn kraftinn og hin myrku öfl sem ráða reki jarðskorpunnar. Laki er því kannski ægifagur þótt hann sé hvorki myndrænn né fagur í venjulegum skilningi þess orðs.

Heimildir og myndir:

Spyrjandi sendi Vísindavefnum spurninguna nokkrum sinnum, meðal annars með þessu bréfi:

Undanfarin ár hef ég ítrekað óskað eftir svari Vísindavefs Háskóla Íslands hvort að fjöll geti verið ljót. Þrátt fyrir það hefur aldrei þeim fjölmörgu spurningum verið svarað. Langar mig því að spyrja hvort Vísindavef Háskóla Íslands beri ekki að svara fyrri fyrirspurnum, um hvort fjöll geti verið ljót, enda bera þær fyrirspurnir í sér að svars væri að vænta sbr. óskráðri meginreglu í íslenskum stjórnsýslurétti um að stjórnvöld verði í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að leggja meðferð og afgreiðslu erindisins, um hvort fjöll geti verið ljót, í skipulegan farveg sem miðaði að því að erindið, fái afgreiðslu lögum samkvæmt.
...