Ef manneskja A fer ekki að tilmælum landlæknis um sóttkví, eða kemur sér undan því, og smitar aðra manneskju (B) sem leiðir til dauða hennar, er þá hægt að sakfella manneskju A fyrir manndráp?Hér má sjá svar Baldurs S. Blöndal við þessari spurningu frá lagalegu sjónarhorni: Gæti einstaklingur sem vanvirðir sóttkví verið sakfelldur fyrir manndráp? Hér er áherslan hins vegar lögð á sjónarhorn siðfræðinnar á þessa spurningu. Eins og sjá má í svari Baldurs gera lögin ekki ráð fyrir að fólk sé sótt til saka fyrir manndráp vegna brots á sóttkví nema sérstakur ásetningur þar að lútandi sé talinn hafa verið til staðar. Í framhaldi af því má benda á viðurlög í sóttvarnalögum og reglugerð uppfærðri 2. nóvember 2020 við brotum gegn reglum um sóttkví og einangrun:
Brot gegn reglugerð heilbrigðisráðherra nr. 800/2020 um sóttkví, einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID-19, með breytingum: Brot gegn skyldu til að fara/vera í sóttkví, 1. og 3. mgr. 3. gr.Þarna er einungis um fjársektir að ræða en jafnframt getur málið horft öðruvísi við á grundvelli ásetnings eða ítrekaðra brota, eins og Baldur fjallar um í sínu svari. Sem sagt geta lögin gert greinarmun á brotum á reglum um sóttkví eða einangrun þar sem ekki liggur fyrir að til hafi staðið að valda öðrum skaða, og markvissari brotum, eins og ef einhver smitar annan vísvitandi af veirunni sem veldur COVID-19. Hér er um að ræða það sem lögin segja um brot af þessu tagi. Hins vegar getum við líka viljað skoða málið frá siðferðilegu sjónarhorni. Þó að lögin eigi vissulega að endurspegla siðferðishugmyndir okkar þá geta þau ekki alltaf gert það að fullu leyti. Hugsum okkur til dæmis að við séum sjálf í sporum manneskju sem á að vera í einangrun vegna greinds kórónuveirusmits en virðum það ekki með þeim afleiðingum að önnur manneskja smitast og deyr. Samkvæmt lögum ættum við að greiða allt að 500 þúsund króna fjársekt en líklegt kann að vera að samviska okkar angraði okkur mun meira en svo. Ef til vill myndum við áfellast okkur sjálf að einhverju leyti fyrir dauða viðkomandi, jafnvel þótt það hefði ekki verið ásetningur okkar að valda slíkum skaða. Og óháð því hvaða samviskubit við kunnum að upplifa hvert um sig þá má auðvitað finna ýmislegt að því siðferðilega að sýna það sem við getum kallað vítavert gáleysi.
- Sekt ákvarðist eftir alvarleika brots kr. 50.000-250.000. Brot gegn skyldum þeirra sem eru í sóttkví, 5. og 7. gr.
- Sekt ákvarðist eftir alvarleika brots kr. 50.000-250.000. Brot á reglum um einangrun, 1. og 2. mgr. 9. gr.
- Sekt ákvarðist eftir alvarleika brots kr. 150.000-500.000. Sektarheimild nær einungis til fyrsta brots.
- ^ Sjá meira um það í svari við spurningunni Hvað er átt við með hugtakinu „siðferðileg heppni“?