Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er hægt að sakfella manneskju fyrir manndráp ef hún smitar einhvern af COVID-19 sem síðan deyr?

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

COVID-19 borði í flokk
Upprunalega spurningin var:
Ef manneskja A fer ekki að tilmælum landlæknis um sóttkví, eða kemur sér undan því, og smitar aðra manneskju (B) sem leiðir til dauða hennar, er þá hægt að sakfella manneskju A fyrir manndráp?

Hér má sjá svar Baldurs S. Blöndal við þessari spurningu frá lagalegu sjónarhorni: Gæti einstaklingur sem vanvirðir sóttkví verið sakfelldur fyrir manndráp? Hér er áherslan hins vegar lögð á sjónarhorn siðfræðinnar á þessa spurningu.

Eins og sjá má í svari Baldurs gera lögin ekki ráð fyrir að fólk sé sótt til saka fyrir manndráp vegna brots á sóttkví nema sérstakur ásetningur þar að lútandi sé talinn hafa verið til staðar. Í framhaldi af því má benda á viðurlög í sóttvarnalögum og reglugerð uppfærðri 2. nóvember 2020 við brotum gegn reglum um sóttkví og einangrun:

Brot gegn reglugerð heilbrigðisráðherra nr. 800/2020 um sóttkví, einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID-19, með breytingum:

Brot gegn skyldu til að fara/vera í sóttkví, 1. og 3. mgr. 3. gr.
- Sekt ákvarðist eftir alvarleika brots kr. 50.000-250.000.

Brot gegn skyldum þeirra sem eru í sóttkví, 5. og 7. gr.
- Sekt ákvarðist eftir alvarleika brots kr. 50.000-250.000.

Brot á reglum um einangrun, 1. og 2. mgr. 9. gr.
- Sekt ákvarðist eftir alvarleika brots kr. 150.000-500.000.

Sektarheimild nær einungis til fyrsta brots.

Þarna er einungis um fjársektir að ræða en jafnframt getur málið horft öðruvísi við á grundvelli ásetnings eða ítrekaðra brota, eins og Baldur fjallar um í sínu svari. Sem sagt geta lögin gert greinarmun á brotum á reglum um sóttkví eða einangrun þar sem ekki liggur fyrir að til hafi staðið að valda öðrum skaða, og markvissari brotum, eins og ef einhver smitar annan vísvitandi af veirunni sem veldur COVID-19.

Hér er um að ræða það sem lögin segja um brot af þessu tagi. Hins vegar getum við líka viljað skoða málið frá siðferðilegu sjónarhorni. Þó að lögin eigi vissulega að endurspegla siðferðishugmyndir okkar þá geta þau ekki alltaf gert það að fullu leyti. Hugsum okkur til dæmis að við séum sjálf í sporum manneskju sem á að vera í einangrun vegna greinds kórónuveirusmits en virðum það ekki með þeim afleiðingum að önnur manneskja smitast og deyr. Samkvæmt lögum ættum við að greiða allt að 500 þúsund króna fjársekt en líklegt kann að vera að samviska okkar angraði okkur mun meira en svo. Ef til vill myndum við áfellast okkur sjálf að einhverju leyti fyrir dauða viðkomandi, jafnvel þótt það hefði ekki verið ásetningur okkar að valda slíkum skaða. Og óháð því hvaða samviskubit við kunnum að upplifa hvert um sig þá má auðvitað finna ýmislegt að því siðferðilega að sýna það sem við getum kallað vítavert gáleysi.

Manneskja sem hegðar sér af gáleysi þar sem af hlýst slys eða annar alvarlegur skaði getur setið uppi með stórt sár á samviskunni.

Mörg höfum við tilhneigingu til að réttlæta eigin gerðir og taka ýmiss konar áhættu. Einhver sem hlítir ekki fyrirmælum um sóttkví hugsar kannski með sér að það hljóti nú að vera allt í lagi að kíkja aðeins í heimsókn til ömmu, að hann sjálfur sé sennilega ekkert smitaður og að hann muni nú bara passa sig. Í flestum tilvikum er það svo kannski rétt, að það að hafa ekki fylgt fyrirmælum um sóttkví hafi ekki valdið neinum smitum og allt fer vel. En svo geta verið einstaka tilvik sem fara illa og vandinn er auðvitað sá að við getum ekki vitað fyrir fram hvort verður um hvert einstakt tilvik.

Svokölluð siðferðileg heppni og óheppni koma hér við sögu. Manneskja sem hegðar sér af gáleysi þar sem allt fer samt vel fær kannski svolítið samviskubit yfir eigin gáleysi en önnur sem hegðar sér með nákvæmlega sama hætti og af hlýst slys eða annar alvarlegur skaði situr uppi með miklu stærra sár á samviskunni og annað fólk dæmir hana líka harðar. Sú fyrri er það sem er kallað siðferðilega heppin en hin síðari er siðferðilega óheppin.[1] Það sem lögin taka til í dæminu sem spurt er um, það er þegar einhver víkur sér undan lögbundinni sóttkví, er hins vegar óháð siðferðilegri heppni. Ef upp kemst greiðir fólk sams konar sekt óháð því hvort einhver annar hafi orðið fyrir smiti.

Tilvísun:
  1. ^ Sjá meira um það í svari við spurningunni Hvað er átt við með hugtakinu „siðferðileg heppni“?

Heimild og mynd:

Ritstjórn Vísindavefsins þakkar Dagbjarti Gunnari Lúðvíkssyni fyrir gagnlega ábendingu um svarið. Fyrri hluti svarsins var lítillega uppfærður 3.2.2021.

Höfundur

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

prófessor í heimspeki og hagnýtri siðfræði

Útgáfudagur

29.1.2021

Síðast uppfært

3.2.2021

Spyrjandi

Rúnar Ingi Guðjónsson

Tilvísun

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Er hægt að sakfella manneskju fyrir manndráp ef hún smitar einhvern af COVID-19 sem síðan deyr?“ Vísindavefurinn, 29. janúar 2021, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=81022.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2021, 29. janúar). Er hægt að sakfella manneskju fyrir manndráp ef hún smitar einhvern af COVID-19 sem síðan deyr? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=81022

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Er hægt að sakfella manneskju fyrir manndráp ef hún smitar einhvern af COVID-19 sem síðan deyr?“ Vísindavefurinn. 29. jan. 2021. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=81022>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er hægt að sakfella manneskju fyrir manndráp ef hún smitar einhvern af COVID-19 sem síðan deyr?
Upprunalega spurningin var:

Ef manneskja A fer ekki að tilmælum landlæknis um sóttkví, eða kemur sér undan því, og smitar aðra manneskju (B) sem leiðir til dauða hennar, er þá hægt að sakfella manneskju A fyrir manndráp?

Hér má sjá svar Baldurs S. Blöndal við þessari spurningu frá lagalegu sjónarhorni: Gæti einstaklingur sem vanvirðir sóttkví verið sakfelldur fyrir manndráp? Hér er áherslan hins vegar lögð á sjónarhorn siðfræðinnar á þessa spurningu.

Eins og sjá má í svari Baldurs gera lögin ekki ráð fyrir að fólk sé sótt til saka fyrir manndráp vegna brots á sóttkví nema sérstakur ásetningur þar að lútandi sé talinn hafa verið til staðar. Í framhaldi af því má benda á viðurlög í sóttvarnalögum og reglugerð uppfærðri 2. nóvember 2020 við brotum gegn reglum um sóttkví og einangrun:

Brot gegn reglugerð heilbrigðisráðherra nr. 800/2020 um sóttkví, einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID-19, með breytingum:

Brot gegn skyldu til að fara/vera í sóttkví, 1. og 3. mgr. 3. gr.
- Sekt ákvarðist eftir alvarleika brots kr. 50.000-250.000.

Brot gegn skyldum þeirra sem eru í sóttkví, 5. og 7. gr.
- Sekt ákvarðist eftir alvarleika brots kr. 50.000-250.000.

Brot á reglum um einangrun, 1. og 2. mgr. 9. gr.
- Sekt ákvarðist eftir alvarleika brots kr. 150.000-500.000.

Sektarheimild nær einungis til fyrsta brots.

Þarna er einungis um fjársektir að ræða en jafnframt getur málið horft öðruvísi við á grundvelli ásetnings eða ítrekaðra brota, eins og Baldur fjallar um í sínu svari. Sem sagt geta lögin gert greinarmun á brotum á reglum um sóttkví eða einangrun þar sem ekki liggur fyrir að til hafi staðið að valda öðrum skaða, og markvissari brotum, eins og ef einhver smitar annan vísvitandi af veirunni sem veldur COVID-19.

Hér er um að ræða það sem lögin segja um brot af þessu tagi. Hins vegar getum við líka viljað skoða málið frá siðferðilegu sjónarhorni. Þó að lögin eigi vissulega að endurspegla siðferðishugmyndir okkar þá geta þau ekki alltaf gert það að fullu leyti. Hugsum okkur til dæmis að við séum sjálf í sporum manneskju sem á að vera í einangrun vegna greinds kórónuveirusmits en virðum það ekki með þeim afleiðingum að önnur manneskja smitast og deyr. Samkvæmt lögum ættum við að greiða allt að 500 þúsund króna fjársekt en líklegt kann að vera að samviska okkar angraði okkur mun meira en svo. Ef til vill myndum við áfellast okkur sjálf að einhverju leyti fyrir dauða viðkomandi, jafnvel þótt það hefði ekki verið ásetningur okkar að valda slíkum skaða. Og óháð því hvaða samviskubit við kunnum að upplifa hvert um sig þá má auðvitað finna ýmislegt að því siðferðilega að sýna það sem við getum kallað vítavert gáleysi.

Manneskja sem hegðar sér af gáleysi þar sem af hlýst slys eða annar alvarlegur skaði getur setið uppi með stórt sár á samviskunni.

Mörg höfum við tilhneigingu til að réttlæta eigin gerðir og taka ýmiss konar áhættu. Einhver sem hlítir ekki fyrirmælum um sóttkví hugsar kannski með sér að það hljóti nú að vera allt í lagi að kíkja aðeins í heimsókn til ömmu, að hann sjálfur sé sennilega ekkert smitaður og að hann muni nú bara passa sig. Í flestum tilvikum er það svo kannski rétt, að það að hafa ekki fylgt fyrirmælum um sóttkví hafi ekki valdið neinum smitum og allt fer vel. En svo geta verið einstaka tilvik sem fara illa og vandinn er auðvitað sá að við getum ekki vitað fyrir fram hvort verður um hvert einstakt tilvik.

Svokölluð siðferðileg heppni og óheppni koma hér við sögu. Manneskja sem hegðar sér af gáleysi þar sem allt fer samt vel fær kannski svolítið samviskubit yfir eigin gáleysi en önnur sem hegðar sér með nákvæmlega sama hætti og af hlýst slys eða annar alvarlegur skaði situr uppi með miklu stærra sár á samviskunni og annað fólk dæmir hana líka harðar. Sú fyrri er það sem er kallað siðferðilega heppin en hin síðari er siðferðilega óheppin.[1] Það sem lögin taka til í dæminu sem spurt er um, það er þegar einhver víkur sér undan lögbundinni sóttkví, er hins vegar óháð siðferðilegri heppni. Ef upp kemst greiðir fólk sams konar sekt óháð því hvort einhver annar hafi orðið fyrir smiti.

Tilvísun:
  1. ^ Sjá meira um það í svari við spurningunni Hvað er átt við með hugtakinu „siðferðileg heppni“?

Heimild og mynd:

Ritstjórn Vísindavefsins þakkar Dagbjarti Gunnari Lúðvíkssyni fyrir gagnlega ábendingu um svarið. Fyrri hluti svarsins var lítillega uppfærður 3.2.2021....