
Pango-kerfið greinir gerðir eftir skyldleika í hringlaga þróunartré eins og sést vinstra megin á myndinni. Inni í hringnum er elstu gerðirnar eða upphaflega veiran í tilfelli SARS-CoV-2. Utan á hringnum eru nýfundnar gerðir, og þær raðast saman í hópa eftir skyldleika. Merki Pango-kerfisins (til hægri) er sótt til beltisdýra (Pangolin). Þegar þau hringa sig saman verður til mynstur sem svipar til þróunartrés.
- Pango-kerfið. Í Pango-kerfinu er fyrsta greiningin eftir dýpri greinum í ættartré veirunnar. Þær eru skilgreindar með bókstöfum, A og B. Næst koma númer, aðskilin með punktum til að auðkenna ólíkar undirgreinar hvors hóps um sig (B.1 og B.2). Tölurnar þýða að afbrigði B.1. var skilgreint á undan B.2. Þessi merking raða númera gildir í öllu kerfinu. Ef nýjar gerðir finnast sem eru afkomendur B.1, þá kallast þær B.1.1 og B.1.2. og svo framvegis. Afbrigði sem kallast B.1.1.7 er þess vegna sjöunda afbrigðið sem er skilgreint sem afkomandi B.1.1. Það afbrigði er einmitt þekkt í almennu tali sem breska afbrigðið. Einungis eru skráð 4 stig á hvern ættmeið (B.1.1.28.1 en ekki til dæmis B.1.1.28.1.1.). Þess í staðinn er nýjum stofni sem aðgreinist frá ættmeið með fjórar tölur, gefinn nýr bókstafur og síðan númer þar undir. Þannig varð til afbrigðið P.1. úr B.1.1.28.1, en það er einnig þekkt sem brasilíska afbrigðið (og nú gamma).
- Nextstrain-kerfið. Það byggir á samþættingu upplýsinga um skyldleika og stökkbreytingar sem taldar eru hafa áhrif á virkni veirunnar. Nöfnin eru samsett úr tölum og bókstöfum (til dæmis 20A) og síðan er bætt við auðkenni fyrir stökkbreytingar, ef þær eru til staðar. Til dæmis breytingin N501Y sem er í bindiprótíninu. N501Y, þýðir að basabreyting í erfðamengi veirunnar veldur því að týrósín amínósýra kemur í stað asparssýru á stað 501 í bindiprótíninu. B.1.1.7. afbrigðið heitir 20I/501Y.V1 í þessu kerfi. Sumar alvarlegar breytingar, eins og N501Y hafa fundist á nokkrum greinum ættartrés veirunnar (20I/501Y.V1 - B.1.1.7, afbrigði kennt við Bretland, 20H/501Y.V2 - B.1.351, afbrigði kennt við Suður-Afríku og 20J/501Y.V3 - P.1 sem er kennt við Brasilíu). Kostur þessa kerfis er að það getur auðkennt og aðgreint afbrigði sem þessi, og bent á sameiginleg einkenni þeirra. Vandamálið er að erfitt er að vita hvaða stökkbreytingar skipta máli fyrir fjölgunarhæfni eða smithæfni veirunnar, nema með greiningum á smitstuðlum eða líffræðilegri virkni veirunnar. Slíkt tekur tíma, og þá fær afbrigðið nafn löngu eftir að það „fæðist“.
- Kerfi kennt við CDC. Frá heilbrigðissjónarmiði skiptir mestu hvort afbrigði myndist sem hafi sérstaka eiginleika, til dæmis smiti betur, sleppi undan ónæmissvari (vegna fyrri sýkingar eða bólusetninga), ónæmi gagnavart mótefnameðhöndlun, lengri fasi duldrar sýkingar eða aukin dánartíðni. CDC flokkar afbrigði veirunnar í þrjá misalvarlega flokka sem kallast: áhugaverð afbrigði (e. variant of interest, VOI), varhugaverð afbrigði (e. variant of concern, VOC) og sérlega varhugaverð afbrigði (e. variant of high convern, VOHC). Afbrigði lenda í fyrsta flokknum (VOI), ef vísbendingar eru um að þau hafi einhverja af þessum eiginleikum: Betri bindingu við viðtaka, veiran hlutleysist treglega af mótefnum (vegna fyrri sýkinga eða bólusetninga), breytileiki minnki notagildi meðferða eða greiningarprófa, eða leiði til aukinnar smithættu eða verri sjúkdómseinkenna. Einnig skiptir máli ef afbrigðið eykst hratt í tíðni í stofni, er tengt afmarkaðri hópsýkingu, eða ef afbrigðið hefur merkjanlega útbreiðslu eða tíðni í Bandaríkjunum[2] eða í öðrum löndum. Annar flokkurinn (VOC) inniheldur svokölluð varhugaverð afbrigði. Um þau gildir að breytileikar innan afbrigðis auki smithæfni, valdi alvarlegri sjúkdómi eða minni vörn mótefna gegn veirunni, eða minni notagildi meðferða, bóluefna eða greiningaraðferða. Þriðji og síðasti flokkurinn er fyrir sérstaklega varhugaverð afbrigði, sem myndu valda alvarlegri sjúkdómi eða jafnvel sleppa nær alveg frá mótefnum (hvort sem væri frá fyrri sýkingu eða vegna mótefnis). Ekkert afbrigði er í þessum flokki, en tæp tylft í hvorum hinna.

Nafngiftir sem byggja á uppruna afbrigða í ákveðnu landi eru óheppilegar, því þær endurspegla hvorki líffræðilegan raunveruleika né miðla sérstökum upplýsingum. Myndin er tekin í Brasilíu en þar greindist fyrst svonefnt gamma-afrigði veirunnar SARS-CoV-2.
alfa | B.1.1.7 | GRY (áður þekkt sem GR/501Y.V1) | 20I/S:501Y.V1 | Bretland, sept. 2020 | 18. des. 2020 |
beta | B.1.351 | GH/501Y.V2 | 20H/S:501Y.V2 | Suður-Afríka, maí 2020 | 18. des. 2020 |
gamma | P.1 | GR/501Y.V3 | 20J/S:501Y.V3 | Brasilía, nóv. 2020 | 11. jan. 2021 |
delta | B.1.617.2 | G/452R.V3 | 21A/S:478K | Indland, okt. 2020 | VOI: 4. apríl 2021 - VOC: 11. maí 2021 |
Samantekt.
- Nokkur nafngiftarkerfi eru notuð til að lýsa ættartré og eiginleikum veirunnar.
- Nýju kerfi er ætlað að gera upplýsingagjöf um veiruafbrigðin betri.
- ^ Endurröðun er mjög sjaldgæf í kórónuveirum.
- ^ Kerfið er hannað af CDC sem er bandarísk stofnun.
- ^ Spit On, Yelled At, Attacked: Chinese-Americans Fear for Their Safety - The New York Times. (Sótt 7.6.2021).
- CDC. (2021). SARS-CoV-2 Variant Classifications and Definitions. (Sótt 7.6.2021).
- WHO. Tracking SARS-CoV-2 variants. (Sótt 7.6.2021).
- Tavernise, S. & Oppel, R. A. (2020, 23. mars). Spit On, Yelled At, Attacked: Chinese-Americans Fear for Their Safety. The New York Times. (Sótt 7.6.2021).
- Rambaut A. o.fl. (2020). A dynamic nomenclature proposal for SARS-CoV-2 lineages to assist genomic epidemiology. Nature Microbiology, 5, 1403-1407. (Sótt 7.6.2021).
- Pango Network. Statement of Nomenclature Rules. (Sótt 7.6.2021).
- CoVariants. (Sótt 7.6.2021).
- Pango lineages. (Sótt 7.6.2021).
- COVID-19 Pandemic - Brazil | A man wearing a protective mask… | Flickr. (Sótt 7.6.2021). Myndina tók Raphael Alves og hún er birt undir leyfinu Creative Commons — Attribution-NonCommercial-NoDerivs 2.0 Generic — CC BY-NC-ND 2.0.
Fyrst það 'má ekki' tala um Wuhan-veiruna (hvað þá Kínaveiruna!), hvers vegna er þá samt allt í lagi að tala um „breska“ afbrigðið?!