Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Stutta svarið er, já, svo sannarlega. Það er auðvelt að færa gild rök fyrir staðhæfingum sem eru augljóslega ósannar. Tökum einfalt dæmi:
1. Ef Salka Valka er á lífi þá er hún í felum. 2. Salka Valka er á lífi. 3. Salka Valka er í felum.
Í þessari rökfærslu eru forsendurnar 1 og 2 og niðurstaðan 3. Rökfærslur eru kallaðar ‚gildar‘ þegar niðurstaðan hlýtur að vera sönn að því gefnu að forsendurnar séu sannar. En auðvitað er forsenda 2 augljóslega ósönn og niðurstaðan einnig. Rökfærslan er samt gild vegna þess að ef forsendurnar væru sannar þá yrði niðurstaðan að vera það líka. Sagt er að rökfærsla sé ‚sönn‘ þegar hún er gild og forsendurnar eru sannar. Til dæmis:
1. Allar manneskjur eru dauðlegar. 2. Xanþippa er manneskja. 3. Xanþippa er dauðleg.
Hér eru forsendurnar sannar og rökfærslan sjálf gild, þess vegna hlýtur niðurstaðan að vera sönn.
Af þessu má ráða að það er hægt að færa gild rök fyrir hvaða staðhæfingu sem vera skal, því gildið veltur ekki á sanngildi forsendanna. Nú má kannski umorða upphaflegu spurninguna í þessu ljósi: Er hægt að færa sönn rök fyrir því að rökræður séu tilgangslausar?
Ef við getum fundið slíka rökfærslu þá munum við hafa sýnt fram á að niðurstaðan sjálf hljóti að vera sönn, það er að segja, að rökræður séu tilgangslausar. Þótt þetta kunni að virðast þversagnakennt þá þarf það ekki að vera raunin. Tilgangur er margslungið fyrirbæri og það eru rökræður líka. Það sem við köllum ‚rökræður‘ í daglegu lífi hefur oft lítið að gera með rök eða rökfærslur og því gæti raunverulegur tilgangur þeirra verið eitthvað allt annað, til dæmis að skemmta sér og öðrum. Aftur á móti gæti einhver haldið því fram að allt sé tilgangslaust og því hljóti rökræður líka að vera tilgangslausar. Ef forsendan (‚Allt er tilgangslaust‘) er sönn þá er þessi tiltekna rökfærsla bæði gild og sönn. Rökfærslan sjálf er þá líka tilgangslaus.
Við skulum því umorða spurninguna einu sinni enn: Er hægt að færa sönn rök fyrir því að sannar rökfærslur séu tilgangslausar?
Nú kemur loksins almennilega í ljós hvaða atriði skiptir mestu máli til að ákvarða svarið við spurningunni. Við þurfum að vita eitthvað um tilgang og tilgangsleysi, því annars getum við ekki notað neinar staðhæfingar um tilgang sem forsendur í sannri rökfærslu. Í mjög grófum dráttum má segja að til séu tvær sennilegar tilgátur um hlutverk eða tilgang rökfærslna. Þau sem setja fram tilgátur af þessu tagi gera venjulega ráð fyrir ákveðnum hugmyndum um tilgang, nefnilega að tilgangur eða hlutverk hegðunar eða hugrænnar getu til að framkalla hegðunina verði að samræmast ferlum líffræði og þróunarfræði. Það er að segja, við höfum áhuga á náttúrulegum fyrirbærum sem hægt væri að útskýra, að minnsta kosti að hluta til, með líffræðilegum ferlum.
Seinni tilgátan er sú að rökgáfan hafi það hlutverk að auðvelda okkur að sannfæra aðra um að okkar eigin viðhorf séu hin réttu. Við getum hagnast verulega á því að geta sannfært aðra um okkar eigin skoðanir.
Fyrri tilgátan er sú að geta lífvera til að nota rök hafi þróast og hafi því það hlutverk að auka möguleika hennar til að vita hvað er satt og rétt. Ef lífvera getur notað rökfærslur í rökhugsun, og gert einhvers konar greinarmun á sönnum og ósönnum rökum, þá má ætla að ályktunarhæfni hennar aukist til muna. Vel má vera að þessi hæfni geti breiðst út með náttúruvali eða svipuðum ferlum.
Seinni tilgátan er sú að rökgáfan hafi það hlutverk að auðvelda okkur að sannfæra aðra um að okkar eigin viðhorf séu hin réttu. Sé þessi tilgáta sönn má einnig ímynda sér hvernig líffræðileg þróun – og kannski félagsleg eða menningarleg þróun – hafi ýtt undir útbreiðslu þessarar getu hjá mannfólki. Við getum hagnast verulega á því að geta sannfært aðra um okkar eigin skoðanir.
Nú ætti að vera augljóst af hverju upprunalegu spurningunni verður ekki svarað sómasamlega í stuttum pistli. Í raun þyrftum við fyrst að sýna fram á að báðar tilgáturnar séu ósannar – og svo ekki sé talað um aðrar tilgátur sem kunna að vera trúverðugar – áður en við gætum sýnt fram á að rökræður séu tilgangslausar. Líklega myndi sú tilraun ekki takast, þótt erfitt sé að vita um slíkt fyrirfram. Okkur hefur að minnsta kosti ekki tekist að finna sönnun þess að rökræður séu tilgangslausar.
Ef lesandi vill kynna sér kenningar um tilgang rökhugsunar má mæla með nýlegri bók eftir Hugo Mercier og Daniel Sperber, The Enigma of Reason, 2017, Harvard University Press. En höfundar bókarinnar færa rök gegn fyrri tilgátunni hér fyrir ofan og mæla hinni síðari bót.
Mynd:
Elmar Geir Unnsteinsson. „Er hægt að færa rök fyrir því að rökræður séu tilgangslausar?“ Vísindavefurinn, 30. mars 2021, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=80855.
Elmar Geir Unnsteinsson. (2021, 30. mars). Er hægt að færa rök fyrir því að rökræður séu tilgangslausar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=80855
Elmar Geir Unnsteinsson. „Er hægt að færa rök fyrir því að rökræður séu tilgangslausar?“ Vísindavefurinn. 30. mar. 2021. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=80855>.