Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Samfélagsmiðlar (e. social media) hafa á skömmum tíma orðið mikilvægur þáttur í daglegu lífi margra. Þeir eru meðal annars notaðir til að fylgjast með fréttum, skoða nýjustu tískustrauma, senda skilaboð, deila myndum, bjóða fólki á ýmsa viðburði, hlusta á tónlist, horfa á myndbönd um allt milli himins og jarðar, fá ýmis konar ráðgjöf og síðast en ekki síst að tjá skoðanir.
En hvað eru eiginlega samfélagsmiðlar og hvað einkennir þessa miðla sem leika svo stóran þátt í lífi margra? Líkt og við á um ýmis önnur hugtök sem virðast einföld við fyrstu sýn þá er ekki til ein algild eða einföld skilgreining á fyrirbærinu. Þetta kemur ekki endilega á óvart þar sem samfélagsmiðlar geta verið ansi ólíkir og haft mismunandi eiginleika (e. affordances).[1] Við notum miðla eins og Facebook, Twitter, Instagram og TikTok ekki á nákvæmlega sama hátt. Sumir þessara miðla leggja mesta áherslu á myndir eða myndbönd, aðrir einblína meira á texta og hjá öðrum er tónlist stór þáttur. En þrátt fyrir þetta þá er hægt að draga fram nokkra þætti sem flestir samfélagsmiðlar eiga sameiginlega.[2]
Ekki er til ein algild eða einföld skilgreining á því hvað samfélagsmiðlar eru. Þeir eiga þó nokkra auðgreinda sameiginlega þætti.
Gagnvirkni, notendur, síður og samfélög
Í fyrsta lagi er algengt að benda á að samfélagsmiðlar eru gagnvirkir (e. interactive) miðlar þar sem notendur geta verið í samskiptum við aðra notendur með einhverjum hætti. Til dæmis með því að senda skilaboð eða bregðast við efni sem aðrir hafa deilt. Að þessu leyti eru samfélagsmiðlar ólíkir hefðbundnum fjölmiðlum (e. legacy media) sem dreifa gjarnan efni til notenda án gagnvirkni. Þegar fréttatími er sendur út í sjónvarpi þá getum við horft á hann en höfum engin tök á að bregðast við eða eiga í samtali við þann sem les fréttirnar. Og þegar við lesum dagblað þá getum við ekki breytt textanum á síðum blaðsins sem hafa þegar verið prentaðar.
Undanfarin ár hafa mörk hefðbundinna fjölmiðla og samfélagmiðla þó orðið óljósari hvað þetta varðar. Sumir fjölmiðlar bjóða lesendum upp á skrifa athugasemdir við fréttir á netinu. Þá dreifa flestir fjölmiðlar nú efninu sínu einnig á samfélagsmiðlum til að fá meiri sýnileika. Enn fremur setja þeir efnið fram með hætti sem hentar fyrir tiltekna samfélagsmiðla. Notendur geta fylgst með efni frá fjölmiðlunum á samfélagsmiðlum, tjáð skoðanir sínar á því og einnig deilt efninu áfram. Jafnframt er orðið algengt að fólk fylgist með efni í hefðbundnum fjölmiðlum á sama tíma og það tjáir sig um sama efni á samfélagsmiðlum (e. dual screen viewing).[3] Hér á landi þekkist það til að mynda vel að áhorfendur ræði um Evróvisjón-atriðin á samfélagsmiðlum í rauntíma eða þegar „þjóðin“ fylgist með æsispennandi handbolta- eða fótboltaleik og tjáir sig um þróun mála jafnóðum á samfélagsmiðlum.
Í öðru lagi byggja samfélagsmiðlar að miklu leyti á efni sem er búið til og deilt af notendum þeirra (e. user-generated content). Þetta sést til dæmis í myndböndum, myndum, viðburðum og öðru sem notendur deila á samfélagsmiðlum. Þarna er augljós munur á samfélagsmiðlum og hefðbundnum fjölmiðlum. Þeir síðarnefndu leggja mikla áherslu á að miðla efni sem er búið til af fagfólki, eins og frétta- og dagskrárgerðarfólki. Fagfólkið sem vinnur á fjölmiðlum á að sjá um að fara vel yfir upplýsingar sem berast þeim, sannreyna þær, ákveða hvort upplýsingarnar eiga erindi til almennings, leita ólíkra sjónarmiða þegar það á við, gæta að hlutlægni og vinna efni úr upplýsingunum í framhaldi. Þessu efni er svo miðlað út í samfélagið í kjölfarið. Þannig hafa fjölmiðlar verið álitnir hliðverðir (e. gatekeepers) samfélagslegrar umræðu. Þá hafa þeir einnig sögulega verið uppspretta upplýsinga og sett mál á dagskrá (e. agenda setting).
Á samfélagsmiðlum geta notendur búið til og dreift efni að vild. Því er þessi hefðbundna hliðvarsla ekki til staðar þar með sama hætti og í fjölmiðlum. Notendur samfélagsmiðlanna hafa því tök á að koma málum á dagskrá og í raun má segja að þeir séu orðnir ný tegund af hliðvörðum.[4] Í þessu samhengi hefur undanfarin ár mikið verið rætt um að alls kyns rangar og misvísandi upplýsingar geti auðveldlega komist í dreifingu á samfélagsmiðlum og stuðlað að svokallaðri upplýsingaóreiðu.
Í þriðja lagi þá búa notendur samfélagsmiðla yfirleitt til einhvers konar síðu (e. profile eða page) um sig. Þar getur fólk í sumum tilfellum sett inn mynd af sér og alls kyns upplýsingar sem eiga að veita öðrum notendum upplýsingar um viðkomandi. Notendur nýta svo þessar síður til að deila efni, setja inn myndir, myndbönd og fleira. Samfélagsmiðlafyrirtækin halda utan um þessar síður og notendur geta auðveldlega misst stjórn á efni sem það setur þarna inn. Til dæmis ef aðrir notendur deila því áfram.
Flestir samfélagsmiðlar eiga það sameiginlegt að notendur þeirra tengjast öðrum notendum í gegnum einhvers konar síður (e. profile eða page).
Í fjórða og síðasta lagi þá eiga flestir samfélagsmiðlar það sameiginlegt að notendur þeirra tengjast öðrum notendum í gegnum þessar síður með einhverjum hætti (til dæmis með því að vera vinir eða að fylgja viðkomandi). Með slíkum tengingum verða til alls kyns hópar og samfélög á miðlunum og notendur sjá efni frá þessum „vinum“ sínum. Þegar samfélagsmiðlar voru nýkomnir fram á sjónarsviðið var mikið rætt um jákvæðar hliðar þess að þeir myndu tengja fólk saman með þessum hætti. Hin síðari ár hefur þó verið bent á að fólk lokist einnig af inni í hópum og samfélögum sem geta orðið að nokkurs konar bergmálshellum (e. echo chambers) þar sem notendur heyra einungis það sem þeir vilja heyra (eða samfélagsmiðlafyrirtækin telja að notendur vilji heyra) en ekki rými þar sem andstæðar skoðanir og hugmyndir birtast.[5]Algrím (e. algorithms) samfélagsmiðlanna velja jafnframt efni sem birtist notendum út frá persónuleikaþáttum, áhugasviði, skapi, staðsetningu og fleiru. Upplýsingar um notendur eru nýttar til að miðla klæðskerasniðnum skilaboðum til hvers og eins notanda.[6]
Það er merkilegt að hugsa til þess hvað samfélagsmiðlar hafa náð gríðarlega mikilli útbreiðslu á tiltölulega skömmum tíma. Þeir hafa haft mjög mikil áhrif á samskipti fólks (bæði form samskipta og inntak þeirra) og ljóst er að við erum enn að læra hvernig best er að umgangast þessa tækni. Þetta sést til dæmis í umræðu um samfélagsmiðlanotkun barna og ungmenna, hvernig ýmsir aðilar reyna að nýta sér tæknina til að svindla á fólki og dreifa alls kyns rangfærslum og upplýsingaóreiðu, ógnanir og hatur sem fólk verður fyrir á netinu og hvernig samfélagsmiðlafyrirtækin nýta allar þær upplýsingar sem við látum þeim í té.[7] Það verður því fróðlegt að sjá hvernig samfélagsmiðlanotkun mun þróast á næstu árum.
Tilvísanir:
^ Sjá til dæmis Boulianne, S., & Larsson, A. O. (2023). Engagement with candidate posts on Twitter, Instagram, and Facebook during the 2019 election. New Media & Society, 25(1), 119–140. https://doi.org/10.1177/14614448211009504
^ Sjá til dæmis Obar, J.A., & Wildman, S. (2015). Social media definition and the governance challenge: An introduction to the special issue. Telecommunications Policy, 39(9), 745-750. http://dx.doi.org/10.2139/ssrn.2663153
^ Sjá til dæmis Chadwick, A., O’Loughlin, B., & Vaccari, C. (2017) Why People Dual Screen Political Debates and Why It Matters for Democratic Engagement, Journal of Broadcasting & Electronic Media, 61(2), 220-239. https://doi.org/10.1080/08838151.2017.1309415
^ Sjá til dæmis Ha, L., Xu, Y., Yang, C., Wang, F., Yang, L., Abuljadail, M., Hu, X., Jiang, W., & Gabay, I. (2018). Decline in news content engagement or news medium engagement? A longitudinal analysis of news engagement since the rise of social and mobile media 2009–2012. Journalism, 19(5), 718–739. https://doi.org/10.1177/1464884916667654
^ Sjá til dæmis Terren, L., & Borge-Bravo, R. (2021). Echo Chambers on Social Media: A Systematic Review of the Literature. Review of Communication Research, 9, 99-118. https://doi.org/10.12840/ISSN.2255-4165.028