Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hugtakið upplýsingaóreiða (e. information disorder) hefur verið áberandi undanfarin ár og þá oft í samhengi við kosningar, alþjóðastjórnmál og stríð. Algengt er að sjá dæmi um upplýsingaóreiðu þegar hagsmunir eru miklir og mál umdeild. Hugtakinu er gjarnan skipt í þrennt:
Misupplýsingar (e. misinformation): Röngum eða misvísandi upplýsingum er deilt án ásetnings og ekki til að valda skaða.
Rangupplýsingar (e. disinformation): Röngum eða misvísandi upplýsingum er deilt af ásetningi og til þess að valda skaða.
Meinupplýsingar (e. malinformation): Réttum upplýsingum er deilt af ásetningi og til þess að valda skaða.[1]
Hugtakið upplýsingaóreiða (e. information disorder) hefur verið áberandi undanfarin ár og þá oft í samhengi við kosningar, alþjóðastjórnmál og stríð.
Þó að þessi skipting geti verið gagnleg til að átta sig á ólíkum birtingarmyndum upplýsingaóreiðu ber að varast einfalda túlkun á því sem fellur undir hugtakið, iðulega er margt sem flækir heildarmyndina. Til dæmis kemur það fyrir að fleiri en ein útgáfa af óreiðunni eigi við um tilteknar upplýsingar. Einhver getur vísvitandi framleitt efni sem inniheldur rangar eða misvísandi upplýsingar og er ætlað að valda skaða og komið því í umferð á samfélagsmiðlum (rangupplýsingar). Í kjölfarið getur einhver annar deilt sama efni áfram en ekki áttað sig á því að um rangar eða misvísandi upplýsingar er að ræða (misupplýsingar). Þess vegna getur verið mikilvægt að gera greinarmun á því hver á hugmyndina að efninu, hver fjármagnar gerð efnisins, hver framleiðir það og hver dreifir því. Staðan getur orðið enn flóknari þar sem upplýsingaóreiða getur einnig átt við réttar upplýsingar sem er deilt til að valda skaða (meinupplýsingar), oft með því að færa einkaupplýsingar (eins og skjöl, ljósmyndir eða upptökur) yfir í almannarýmið og slíta úr samhengi.
Dæmi þar sem röngum eða misvísandi upplýsingum er vísvitandi dreift til að valda skaða hafa iðulega verið mest áberandi í fréttaflutningi um upplýsingaóreiðu. Þar má nefna miðlun upplýsinga í tengslum við kosningaúrslit og alþjóðasamskipti. Umræða um þessi mál varð fyrst mjög sýnileg eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu (Brexit) árið 2016 og bandarísku forsetakosningarnar síðar það sama ár. Nýlegri dæmi þar sem mikið hefur verið fjallað um upplýsingaóreiðu má sjá í tengslum við COVID-19-faraldurinn og stríðið í Úkraínu. Jafnframt má iðulega finna upplýsingaóreiðu í tengslum við umdeild mál sem upp koma í samfélaginu hverju sinni.
Það er ekkert nýtt að fólk búi til og dreifi upplýsingum um eitthvað sem er beinlínis rangt eða misvísandi og oft er fólk ósammála um hvað er satt og rétt. Það að rannsaka þessa tegund af upplýsingamiðlun getur því reynst snúið og umdeilt. En þá er rétt að spyrja hvers vegna hugtakið upplýsingaóreiða er svo ofarlega á baugi nú?
Hvað er nýtt í þessu?
Helsta breytingin er sú að nú dreifast upplýsingar með allt öðrum hætti en þær gerðu áður, ástæðan er fyrst og fremst tilvist samfélagsmiðla og annarra nýrri miðla. Tækniþróun og nýjar miðlunarleiðir gera það mun auðveldara að búa til efni og dreifa upplýsingum til fjölda fólks en áður. Að sama skapi getur reynst erfiðara að greina uppruna upplýsinganna. Efni sem birtist á samfélagsmiðlum getur verið af allt öðrum toga en það sem við sjáum í hefðbundnum ritstýrðum fjölmiðlum. Algengt er að upplýsingar sem fara á flug á samfélagsmiðlum hafi ekki verið sannreyndar og ekki faglega unnið úr þeim áður en þeim er miðlað og deilt. Á sjálfstæðum og faglegum fjölmiðlum starfa blaða- og fréttamenn sem þurfa að vega og meta upplýsingar, hvort heimildir séu traustar og hvort efnið eigi erindi til almennings. Á samfélagsmiðlum er slík hliðvarsla (e. gatekeeping) ekki til staðar. Nú er það æ algengara að almenningur nálgist fréttir beint í gegnum netið og samfélagsmiðla, samhliða því að lestur prentmiðla hefur dregist mikið saman.[2]
Algengt er að upplýsingar sem fara á flug á samfélagsmiðlum hafi ekki verið sannreyndar og ekki faglega unnið úr þeim áður en þeim er miðlað og deilt.
Efni sem inniheldur rangar eða misvísandi upplýsingar og er dreift á samfélagsmiðlum er gjarnan sett í þann búning að það veki sterk tilfinningaviðbrögð hjá viðtakendum. Þá er slíkt efni oft sett þannig fram að það höfði til ákveðinna gilda hjá þeim hópum sem efninu er beint að. Viðamiklar rannsóknir á samfélagsmiðlum hafa sýnt að það er einmitt efni af þessum toga sem fær mikla dreifingu. Til dæmis sýndi stór rannsókn sem birtist í Science árið 2018 að fréttir sem innihéldu rangar upplýsingar dreifðust sex sinnum hraðar en annað efni á Twitter. Þarna var oft um að ræða upplýsingar sem voru settar fram þannig að þær kæmu fólki á óvart á einhvern hátt og höfðað var til tilfinninga. Einnig kom fram í rannsókninni að um 70% meiri líkur voru á því að tíst sem byggði á röngum eða misvísandi upplýsingum væri deilt og miðlað áfram af öðrum notendum á Twitter í samanburði við fréttir sem byggðu á staðreyndum.[3] Rannsóknir sem Facebook hefur látið framkvæma sýna einnig að efni sem vekur upp sterk tilfinningaviðbrögð á miðlinum, þar á meðal reiði, er líklegra til að fá notendur samfélagsmiðilsins til að bregðast við og deila efninu.[4]Upplýsingaóreiða frekar en falsfréttir
Það sem í daglegu tali er oft kallað falsfréttir (e. fake news) mætti í raun skilgreina sem upplýsingaóreiðu. Gagnrýni á notkun á hugtakinu falsfréttir hefur verið töluvert áberandi hjá fólki sem rannsakar þessi mál.[5] Margir forðast að nota hugtakið þar sem það er ekki jafn nákvæmt og upplýsingaóreiða. Sé falsfréttahugtakið notað, er til að mynda ekki endilega gerður greinarmunur á því hvort upplýsingum sé dreift vísvitandi eða ekki. Einnig er áherslan á fréttir í hugtakinu talin vera frekar þröng þar sem margt af því efni sem inniheldur rangar eða misvísandi upplýsingar og er dreift á netinu er ekki endilega sett í hefðbundinn fréttabúning.
Það sem í daglegu tali er oft kallað falsfréttir (e. fake news) mætti í raun skilgreina sem upplýsingaóreiðu.
Notkun hugtaksins falsfréttir hefur einnig verið gagnrýnd í samhengi við það að ýmsir aðilar hafa notað hugtakið til að slá á gagnrýni fjölmiðla sem beinist að þeim sjálfum. Hugtakið hefur einnig verið notað til að hóta eða ógna fréttafólki sem starfar á sjálfstæðum fjölmiðlum sem hafa faglega fréttamennsku að leiðarljósi og það sakað um að vera að dreifa falsfréttum. Markmiðið er þá gjarnan að reyna að hafa kælingaráhrif (e. chilling effect) á umfjöllun sem er tilteknum hagsmunaaðilum ekki að skapi.
Staðan á Íslandi: COVID-19 og kosningar
Þegar COVID-19-faraldurinn skall á varð fljótt ljóst að alls kyns rangar eða misvísandi upplýsingar tengdar honum voru í dreifingu. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) lýsti því yfir að við værum ekki bara að glíma við heimsfaraldur vegna veirunnar skæðu heldur einnig staðleysufaraldur (e. infodemic) sem tengdist upplýsingaóreiðu um COVID-19, sérstaklega á samfélagsmiðlum.[6]
Rannsakendur í fjölda ríkja fóru í framhaldi að skoða dreifingu á röngum eða misvísandi upplýsingum um faraldurinn og í fyrri bylgjum hans voru framkvæmdar fyrstu rannsóknir á umfangi upplýsingaóreiðu á Íslandi, en þær voru gerðar á vegum vinnuhóps þjóðaröryggisráðs. Þar kom meðal annars fram að almenningur hér á landi hafði séð sambærilegt magn af röngum eða misvísandi upplýsingum tengdum faraldrinum og fólk í öðrum vestrænum ríkjum eins og Bretlandi. Jafnframt sýndu niðurstöður að Íslendingar höfðu helst orðið varir við rangar eða misvísandi upplýsingar á samfélagsmiðlum. Í rannsókninni kom einnig fram að lítill hluti fólks treysti upplýsingunum um COVID-19 sem birtust á samfélagsmiðlum (um 10% svarenda) á meðan mikill meirihluti fólks treysti upplýsingum um faraldurinn í íslenskum fjölmiðlum (um 80% svarenda). Traust til innlendra viðbragðsaðila og fjölmiðla reyndist töluvert hærra á Íslandi en í samanburðarríkjum.[7] Það að mæla traust í þessu samhengi skiptir máli þar sem rannsóknir benda til þess að fólk sé oft líklegra til að trúa röngum eða misvísandi upplýsingum á samfélagsmiðlum ef það treystir almennt ekki fjölmiðlum og öðrum stofnunum í samfélaginu.[8] Upplýsingaóreiðu er gjarnan beint að fólki sem tilheyrir slíkum hópum og með það að markmiði að grafa enn frekar undan trausti í samfélaginu og á lýðræðislegum stofnunum þess.
Rannsóknir benda til þess að fólk sé oft líklegra til að trúa röngum eða misvísandi upplýsingum á samfélagsmiðlum ef það treystir almennt ekki fjölmiðlum og öðrum stofnunum í samfélaginu. Upplýsingaóreiðu er gjarnan beint að fólki sem tilheyrir slíkum hópum.
Rannsóknir sem framkvæmdar hafa verið um dreifingu rangra eða misvísandi upplýsinga á Íslandi í kjölfarið á þessari fyrstu rannsókn sýna einnig að mikill meirihluti hefur orðið var við slíkt efni á samfélagsmiðlum. Í rannsókn Fjölmiðlanefndar um upplýsingaóreiðu og falsfréttir í aðdraganda alþingiskosninganna 2021 kom til dæmis fram að tæplega helmingur svarenda varð var við rangar upplýsingar eða falsfréttir í kosningabaráttunni. Og af þessum hópi þá sáu rúm 70% slíkar upplýsingar á Facebook, en mun færri sáu slíkar upplýsingar á ritstýrðum netmiðlum (um 28%), í sjónvarpi (um 26%) og í útvarpi (um 22%).[9]
Það verður áhugavert að sjá niðurstöður fleiri rannsókna á þessu sviði á komandi árum. Á sama tíma og almenningur nálgast sífellt meiri upplýsingar í gegnum samfélagsmiðla þá hefur það einnig gerst að hefðbundnir fjölmiðlar nýta nú alls kyns efni af þessum miðlum sem heimildir í fréttum.[10] Það getur reynst flókið að meta hvað eru réttar og traustar upplýsingar þegar leiðir til þess að birta rangar eða misvísandi upplýsingar breytast hratt samhliða stöðugri tækniþróun.
Tilvísanir: