Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Getið þið frætt mig um lemúra?

Jón Már Halldórsson

Lemúrar eru hálfapar og tilheyra ættbálki prímata rétt eins og apar og menn. Lemúrar eru einlendir og finnast aðeins á eyjunni Madagaskar í Indlandshafi, úti fyrir suðausturströnd Afríku.

Ýmsar tilgátur hafa verið settar fram um hvernig lemúrar, og reyndar margar aðrar dýrategundir, bárust til Madagaskar. Ljóst þykir að það hafi gerst töluvert löngu eftir að Madagaskar skildist frá öðru landi og varð eyja. Sú tilgáta sem nú er helst á lofti er að forfeður núverandi lemúra hafi borist þangað frá meginlandi Afríku fyrir 50-65 milljón árum, fljótandi á einhvers konar gróðurflekum sem stórar ár skoluðu í sjó fram. Fjölbreytt náttúra eyjunnar ásamt fáum öðrum spendýrategundum sem kepptu um pláss, hefur síðan stuðlað að mikilli tegundaútgeislun þannig að í dag eru tegundirnar gjarnan taldar vera rúmlega 100 og skiptast í 15 ættkvíslir og fimm ættir (stundum átta ættir, breytilegt eftir því hvaða viðmið eru notuð).

Tengundir af ættkvísl músalemúra eru minnstar allra prímata.

Þegar um margar tegundir er að ræða, eins og í tilfelli lemúra, þá er eðlilegt að útlit, fæða, atferli og aðrir líffræðilegir og félagslegir þættir séu mjög mismunandi. Lemúrar í dag eiga það þó sameiginlegt að vera flestir tiltölulega smáir vexti þótt breytileikinn sé töluverður. Smæstir allra lemúra, og reyndar smæstir allra prímata, eru tegundir af ættkvísl músalemúra (Microcebus). Sú allra minnsta kallast á ensku Madame Berthe's mouse lemur (Microcebus berthae) og er aðeins rúmir 9 cm á lengd og um 30 g að þyngd. Til samanburðar þá eru stærstu lemúrarnir indri (Indri indri) sem getur orðið rúmlega 70 cm langur og allt að 9,5 kg og krúnusífaka (Propithecus diadema) sem verður að meðaltali 6,5 kg og um 100 cm.

Áður voru til mun stærri tegundir, stærst þeirra var Archaeoindris fontoynontii sem talið er að hafa verið 150-180 kg eða á stærð við górillu. Talið er að tegundir af Archaeoindris-ættkvíslinni hafi dáið út um 350 f.Kr. eða um það leyti sem menn námu land á Madagaskar.

Meðal annarra sameiginlegra einkenna lemúra eru stór augu, langt trýni og blautt nef, gott lyktarskyn sem þeir treysta meira á en sjónskyn (í samanburði við æðri prímata), og hæg grunnbrennsla sem hjálpar þeim að komast í gegnum þurrkatímabil þegar fæða og vatn eru af skornum skammti.

Einstaklingar af tegundin indri (Indri indri) geta orðið rúmlega 70 cm langir og allt að 9,5 kg.

Lemúrar eru ýmist á ferli á nóttu eða degi, breytilegt eftir tegundum, en það eru frekar smærri tegundirnar sem eru virkar á næturnar. Flestir lemúrar halda að mestu til í trjám. Fæða þeirra er aðallega úr jurtaríkinu en margar tegundir éta líka skordýr og jafnvel smá hryggdýr ef lítið er um aðra fæðu.

Lemúrar eiga ýmsa náttúrlega óvini. Þeim stendur einna mest ógn af rándýri sem kallast fossa (Cryptoprocta ferox) en lemúrar eru stór hluti af fæðu þeirra. Fossa er tiltölulega lítið dýr sem minnir um margt á kattardýr en er skylt mongúsum. Aðrir afræningjar lemúra eru til dæmis villikettir, hundar, snákar, uglur og stórir ránfuglar.

Hins vegar er það mannskepnan sem er mesta ógnin við afkomu lemúra. Síðastliðnir áratugir hafa reynst lemúrum afar óhagstæðir og hefur stofnum allra tegunda hrakað. Alþjóðasamtökin IUCN telja nú að nánast allar tegundir lemúra séu í útrýmingarhættu, þar af allt að þriðjungur í bráðri hættu. Meginástæðan fyrir þessari slæmu stöðu lemúra er eyðing búsvæða þeirra. Madagaskar er meðal fátækustu þjóða heims og er talið að allt að 70% íbúa lifi undir fátæktarmörkum. Fólksfjölgun er einnig nokkuð mikil eða um 2,5% á ári. Aðstæður sem þessar setja mikinn þrýsting á villt dýralíf og búsvæði.

Mikið hefur verið gengið á skóga Madagaskar, bæði til þess að ná í eldsneyti en einnig til þess að fá land undir ræktun. Ólöglegar veiðar á lemúrum eiga einnig sinn þátt í slæmri stöðu þeirra. Loftslagsbreytingar koma líka við sögu því auknir þurrkar hafa haft áhrif á búsvæði og gert afkomu lemúranna erfiðari. Það er því ekki hægt að segja að framtíðin sé mjög björt fyrir þessa sérstöku tegundir sem hvergi finnast annars staðar en á Madagaskar.

Heimildir og myndir:

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

5.11.2020

Spyrjandi

Elín Margrét Guðmundsdóttir

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Getið þið frætt mig um lemúra?“ Vísindavefurinn, 5. nóvember 2020, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=79749.

Jón Már Halldórsson. (2020, 5. nóvember). Getið þið frætt mig um lemúra? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=79749

Jón Már Halldórsson. „Getið þið frætt mig um lemúra?“ Vísindavefurinn. 5. nóv. 2020. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=79749>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Getið þið frætt mig um lemúra?
Lemúrar eru hálfapar og tilheyra ættbálki prímata rétt eins og apar og menn. Lemúrar eru einlendir og finnast aðeins á eyjunni Madagaskar í Indlandshafi, úti fyrir suðausturströnd Afríku.

Ýmsar tilgátur hafa verið settar fram um hvernig lemúrar, og reyndar margar aðrar dýrategundir, bárust til Madagaskar. Ljóst þykir að það hafi gerst töluvert löngu eftir að Madagaskar skildist frá öðru landi og varð eyja. Sú tilgáta sem nú er helst á lofti er að forfeður núverandi lemúra hafi borist þangað frá meginlandi Afríku fyrir 50-65 milljón árum, fljótandi á einhvers konar gróðurflekum sem stórar ár skoluðu í sjó fram. Fjölbreytt náttúra eyjunnar ásamt fáum öðrum spendýrategundum sem kepptu um pláss, hefur síðan stuðlað að mikilli tegundaútgeislun þannig að í dag eru tegundirnar gjarnan taldar vera rúmlega 100 og skiptast í 15 ættkvíslir og fimm ættir (stundum átta ættir, breytilegt eftir því hvaða viðmið eru notuð).

Tengundir af ættkvísl músalemúra eru minnstar allra prímata.

Þegar um margar tegundir er að ræða, eins og í tilfelli lemúra, þá er eðlilegt að útlit, fæða, atferli og aðrir líffræðilegir og félagslegir þættir séu mjög mismunandi. Lemúrar í dag eiga það þó sameiginlegt að vera flestir tiltölulega smáir vexti þótt breytileikinn sé töluverður. Smæstir allra lemúra, og reyndar smæstir allra prímata, eru tegundir af ættkvísl músalemúra (Microcebus). Sú allra minnsta kallast á ensku Madame Berthe's mouse lemur (Microcebus berthae) og er aðeins rúmir 9 cm á lengd og um 30 g að þyngd. Til samanburðar þá eru stærstu lemúrarnir indri (Indri indri) sem getur orðið rúmlega 70 cm langur og allt að 9,5 kg og krúnusífaka (Propithecus diadema) sem verður að meðaltali 6,5 kg og um 100 cm.

Áður voru til mun stærri tegundir, stærst þeirra var Archaeoindris fontoynontii sem talið er að hafa verið 150-180 kg eða á stærð við górillu. Talið er að tegundir af Archaeoindris-ættkvíslinni hafi dáið út um 350 f.Kr. eða um það leyti sem menn námu land á Madagaskar.

Meðal annarra sameiginlegra einkenna lemúra eru stór augu, langt trýni og blautt nef, gott lyktarskyn sem þeir treysta meira á en sjónskyn (í samanburði við æðri prímata), og hæg grunnbrennsla sem hjálpar þeim að komast í gegnum þurrkatímabil þegar fæða og vatn eru af skornum skammti.

Einstaklingar af tegundin indri (Indri indri) geta orðið rúmlega 70 cm langir og allt að 9,5 kg.

Lemúrar eru ýmist á ferli á nóttu eða degi, breytilegt eftir tegundum, en það eru frekar smærri tegundirnar sem eru virkar á næturnar. Flestir lemúrar halda að mestu til í trjám. Fæða þeirra er aðallega úr jurtaríkinu en margar tegundir éta líka skordýr og jafnvel smá hryggdýr ef lítið er um aðra fæðu.

Lemúrar eiga ýmsa náttúrlega óvini. Þeim stendur einna mest ógn af rándýri sem kallast fossa (Cryptoprocta ferox) en lemúrar eru stór hluti af fæðu þeirra. Fossa er tiltölulega lítið dýr sem minnir um margt á kattardýr en er skylt mongúsum. Aðrir afræningjar lemúra eru til dæmis villikettir, hundar, snákar, uglur og stórir ránfuglar.

Hins vegar er það mannskepnan sem er mesta ógnin við afkomu lemúra. Síðastliðnir áratugir hafa reynst lemúrum afar óhagstæðir og hefur stofnum allra tegunda hrakað. Alþjóðasamtökin IUCN telja nú að nánast allar tegundir lemúra séu í útrýmingarhættu, þar af allt að þriðjungur í bráðri hættu. Meginástæðan fyrir þessari slæmu stöðu lemúra er eyðing búsvæða þeirra. Madagaskar er meðal fátækustu þjóða heims og er talið að allt að 70% íbúa lifi undir fátæktarmörkum. Fólksfjölgun er einnig nokkuð mikil eða um 2,5% á ári. Aðstæður sem þessar setja mikinn þrýsting á villt dýralíf og búsvæði.

Mikið hefur verið gengið á skóga Madagaskar, bæði til þess að ná í eldsneyti en einnig til þess að fá land undir ræktun. Ólöglegar veiðar á lemúrum eiga einnig sinn þátt í slæmri stöðu þeirra. Loftslagsbreytingar koma líka við sögu því auknir þurrkar hafa haft áhrif á búsvæði og gert afkomu lemúranna erfiðari. Það er því ekki hægt að segja að framtíðin sé mjög björt fyrir þessa sérstöku tegundir sem hvergi finnast annars staðar en á Madagaskar.

Heimildir og myndir:

...