
Viðbrögðin við faraldrinum hafa verið mjög mismunandi eftir löndum en þó yfirleitt falið í sér verulegar takmarkanir á ferðum og samkomum fólks. Þetta hefur skiljanlega haft mjög lamandi áhrif á efnahagsstarfsemi.
Erfitt að meta efnahagsáhrifin því skýr fordæmi vantar
Þegar þetta er ritað, í maí 2020, er margt óljóst um áhrif faraldursins á efnahagslífið. Meðal annars eru ýmsar lykilforsendur óþekktar, þar á meðal hve langan tíma mun taka að ná tökum á faraldrinum. Þannig er til dæmis ekki vitað hvort hann muni blossa upp að nýju á Íslandi eða öðrum löndum þar sem sýkingum hefur fækkað til muna. Ekki er vitað hvort og þá hvenær bóluefni verður í boði eða lækning. Það er erfitt að spá fyrir um efnahagsáhrifin án þess að hafa skýr svör frá heilbrigðisvísindunum um slíka þætti. Jafnvel þótt slík svör fengjust er þó erfitt að meta efnahagsáhrifin enda ekki hægt að byggja spár á skýrum fordæmum. Faraldrar fortíðar, eins og til dæmis spænska veikin, urðu við allt aðrar aðstæður í efnahagslífinu og viðbrögð samfélaga voru einnig mjög frábrugðin þeim sem nú hefur verið gripið til. Líkön hagfræðinnar af hagkerfum hafa því ekki verið prófuð við aðstæður sem þessar enda það ekki hægt án nothæfra gagna og fordæma. Engu að síður hafa verið gerðar ýmsar tilraunir til að meta samdráttinn og spá fyrir um hann. Þær eru allar því marki brenndar að byggja á ófullkomnum gögnum og líkönum og því verður að taka niðurstöðunum með verulegum fyrirvara. Skekkjumörk í spám eru að minnsta kosti mjög víð. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hefur þannig áætlað að heimshagkerfið (það er samanlögð landsframleiðsla allra landa) muni dragast saman um 3% í ár en hafði spáð 3% vexti fyrir faraldur. Það er mun meiri samdráttur en til dæmis í fjármálakrísunni um og upp úr 2008. Spár fyrir Ísland eru talsvert svartsýnni og þannig spáir AGS 7,2% samdrætti hérlendis í ár. Aðrir hafa spáð ívið meiri samdrætti en þetta, til dæmis Seðlabankinn 8% og Íslandsbanki og Landsbankinn um 9%. Fyrir faraldur var hins vegar spáð um 1,5% hagvexti (það er vexti vergrar landsframleiðslu) á Íslandi í ár. Verg landsframleiðsla Íslands var rétt um 2.966 milljarðar króna á síðasta ári, 2019. Miðað við þessar spár minnkar verðmætasköpun íslenska hagkerfisisins því um 7-9% af því eða 210-270 milljarða króna árið 2020. Að auki verður ekki sá hagvöxtur sem spáð hafði verið sem hækkar matið á efnahagsáfallinu um um það bil 50 milljarða króna. Þá er rétt að hafa í huga að efnahagsáfallið kemur örugglega ekki allt fram í ár því að áhrifanna mun örugglega einnig gæta á næsta ári og mjög líklega eitthvað lengur.Hvenær verða umsvifin aftur þau sömu?
Þessi minni framleiðsla á vörum og þjónustu kemur víða fram og höggið er þyngst fyrir greinar eins og ferðaþjónustu. Lokun landamæra þýðir augljóslega að sala á ferðaþjónustu til útlendinga hverfur alveg. Jafnvel þótt tekin verði einhver skref í átt til opnunar landamæra áður en faraldurinn er genginn yfir er ólíklegt að það skili sér í miklum umsvifum í sölu ferðaþjónustu til skamms tíma. Þá verður að teljast líklegt að einhvern tíma taki fyrir umsvif í ferðaþjónustu að verða svipuð og fyrir faraldur jafnvel þegar allar hömlur á ferðalög hafa verið afnumdar. Í íslenskri ferðaþjónustu flækir það svo málið að hún hafði þegar dregist nokkuð saman frá því sem mest var áður en áhrifa faraldursins tók að gæta. Í ljósi þess virðist engan veginn hægt að ganga að því vísu að umsvifin nái fljótt aftur fyrri hæðum. Fleiri greinar hafa orðið fyrir höggi, meðal annars þær sem veita ýmiss konar persónulega þjónustu, sem var gert að loka um lengri eða skemmri tíma. Lista- og menningargeirinn tapaði líka miklum tekjum enda ekki hægt að selja miða á leiksýningar eða tónleika eða skemmta í til dæmis brúðkaupum eða þorrablótum í samkomubanni. Af svipuðum ástæðum urðu íþróttafélög fyrir miklu tekjutapi. Fyrrnefndar tölur um samdrátt efnahagslífsins ættu að endurspegla allt þetta og margt fleira.Hagstærðir segja ekki alla söguna
Tjón sem mælist í landsframleiðslu segir ekki alla söguna. Margs konar sálrænar og félagslegar afleiðingar af til dæmis samkomubanni geta skipt verulegu máli þótt þær komi ekki fram í hagstærðum. Sömuleiðis getur verið að til dæmis röskun á skólastarfi hafi ýmsar slæmar afleiðingar sem ekki er auðvelt að meta til fjár. Þá er vel þekkt að atvinnuleysi hefur margar aðrar afleiðingar en bara tekjumissi. Hér verður þó ekki reynt að meta slíka þætti. Þótt hluti höggsins lendi beint á fyrirtækjum og þar með starfsmönnum þeirra, viðskiptavinum og birgjum þá kemur efnahagssamdrátturinn miklu víðar fram. Fjárhagur hins opinbera, það er ríkis og sveitarfélaga, versnar til muna. Að hluta er það vegna þess sem hagfræðingar kalla sjálfvirka sveiflujafnara. Þeir fela það í sér að tekjur hins opinbera dragast saman í samdrætti hagkerfisins og útgjöld hækka, sem minnkar áhrifin fyrir heimili og fyrirtæki. Sem dæmi útgjaldamegin mætti nefna atvinnuleysistryggingar og raunar velferðarkerfið í heild. Tekjumegin minnkar skattheimta þegar tekjur launþega og fyrirtækja lækka. Fyrir utan þessi sjálfvirku áhrif hefur verið gripið til margvíslegra aðgerða sem annað hvort lækka tekjur eða fresta fyrir ríki og sveitarfélög eða auka útgjöld. Sem dæmi mætti nefna svokallaða hlutabótaleið. Fjárhagur ríkisins versnar því til muna þótt erfitt sé að meta nú hve mikill hallinn verður. Spár um það eru mjög ónákvæmar nú en ef til vill gæti hallinn orðið svipaður og samdráttur landsframleiðslu eða um það bil 300 milljarðar. Áhrifin á sveitarfélögin eru líka mjög neikvæð en örugglega mjög ólík milli sveitarfélaga, meðal annars vegna þess að vægi atvinnugreina sem eru í miklum vanda er misjafnt eftir landshlutum.Skammtímahögg breytir litlu um langtímaþróun hagkerfisins
Horfur í efnahagsmálum eru því ekki bjartar til skamms tíma en það má ekki gleyma því að skammtímahögg sem þetta ætti ekki að breyta miklu um langtímaþróun hagkerfisins. Þegar faraldurinn er genginn yfir verður allt til staðar til að framleiða vörur og þjónustu með sama krafti og áður, það er fólk, fjármunir, náttúruauðlindir og þekking. Það mun hins vegar án efa taka einhvern tíma að ná aftur upp svipuðum umsvifum og áður, til dæmis vegna þess að fyrirtæki hafa hætt starfsemi og önnur þurfa að koma í þeirra stað, starfsfólk er hætt og þarf að finna sér nýja vinnu (og fyrirtæki nýtt starfsfólk) og fjárhagsstaða ýmissa fyrirtækja verður slæm þótt þau hafi ekki farið í þrot.
Þegar faraldurinn er genginn yfir verður allt til staðar til að framleiða vörur og þjónustu með sama krafti og áður, það er fólk, fjármunir, náttúruauðlindir og þekking.
- © Kristinn Ingvarsson.
- iceland, girl, nature, woman, landscape, rejkjavik, mountains, cold, waterfall, ice | Pxfuel. (Sótt 25.05.2020).