Varðar þjóðarframleiðslu og hagvöxt sbr. upplýsingar Gylfa Magnússonar. Hef e.t.v. ekki leitað eða kafað nógu djúpt í efnið, en ég held því fram að á síðustu árum og áratugum sé hagvöxtur ævinlega skilgreindur í umræðunni sem vöxtur þjóðarframleiðslu frá ári til árs, svo sem réttilega. En er ekki mikilvægara að skilgreina eða tala um hagvöxtinn á mann (per capita)? Þar sem tekið er tillit til hver uppruninn á vextinum er t.d. hagkvæmari nýting auðlinda?Þegar rætt er um hagvöxt í þjóðmálaumræðunni er alla jafna verið að vísa til breytinga á vergri landsframleiðslu (VLF) á milli ára. Einnig eru oft skoðaðar tölur um breytingu á vergri landsframleiðslu á mann og þá til dæmis talað um hagvöxt á mann eða hagvöxt að teknu tilliti til fólksfjölgunar. Á landi þar sem fólki fjölgar á milli ára þá eykst verg landsframleiðsla á mann eðli máls samkvæmt hægar en verg landsframleiðsla. Þá getur verið áhugavert að skoða breytingar á vergri landsframleiðslu á vinnandi mann eða á vinnustund. Þótt verg landsframleiðsla sé áhugaverð stærð fer því fjarri að hún sé algildur mælikvarði á hve vel hefur tekist til í efnahagslífinu. Landsframleiðsla er að ýmsu leyti gallað hugtak, hún mælir fyrst og fremst framleiðslu á vörum og þjónustu sem gengur kaupum og sölu á markaði en ekki ýmis önnur gæði. Þá tekur hún hvorki tillit til auðlindanotkunar né tekjuskiptingar. Ýmsir hafa glímt við að þróa betri mælikvarða á efnahagslífið en verga landsframleiðslu en enginn af þeim mælikvörðum hefur þó komist nálægt því að ryðja henni úr sessi í þjóðmálaumræðunni. Mynd:
- Landsframleiðsla - Hagstofa. (Sótt 1.02.2016).