Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þegar nýr heimsfaraldur skellur á er forgangsatriði að átta sig á hvaða einstaklingsbundnu þættir hafa áhrif á alvarleika sjúkdómsins. Sá einstaklingsbundni þáttur sem virðist skipta mestu máli í COVID-19 er aldur: með hækkandi aldri eykst hættan á alvarlegum veikindum og dauðsföllum. Hins vegar ber að undirstrika að einstaklingar á öllum aldri, óháð áhættuþáttum, geta veikst alvarlega eða látist af völdum sjúkdómsins COVID-19.
Hvaða þýðingu hefur þetta þá fyrir börn? Margt á enn eftir að rannsaka en þó er vitað að mikill meirihluti barna með COVID-19 sýna aðeins væg einkenni sem lýsa sér að mestu með flensulíkum veikindum. Marktækur hópur barna fær síðan engin einkenni! Þetta þýðir þó ekki að veikindin séu alltaf væg - börn á öllum aldri hafa veikst alvarlega af COVID-19 og því miður hafa sum látist. Samband aldurs og alvarleika sjúkdóms virðist einnig eiga við um börn, því börn 10 ára og eldri eru líklegri til að verða alvarlega veik heldur en börn sem eru yngri en 10 ára. Ungbörn (1 árs og yngri) virðast einnig viðkvæmari, en þetta hefur þó ekki verið staðfest. Fyrir börnin gildir það sama og hjá fullorðnum, það er að segja vissir undirliggjandi sjúkdómar, til dæmis hjarta- og æðasjúkdómar, langvinnir lungnasjúkdómar og sykursýki, auka hættu á alvarlegri sjúkdómi.
Tilfelli af óvenjulegum bólgusjúkdómi sem líkist kawasaki-sjúkdómi hafa greinst eftir COVID-19 í börnum. Sérlega sjaldgæft er að þessi bólgusjúkdómur komi fram og er hann talinn hrjá færri en eitt af hverjum þúsund börnum sem fá COVID-19 (undir 0,1%).
Ástæðurnar fyrir vægari veikindum barna eru ekki þekktar að svo stöddu. Ein kenning er að prótínið sem SARS-CoV-2 (veiran sem veldur COVID-19) notar til að komast inn í frumur hafi mismikla virkni eftir aldri þeirra sem veikjast. Einnig eru kenningar uppi um að með hækkandi aldri aukist tilhneiging til heiftarlegrar bólgusvörunar, sem virðist vera lykilþáttur í alvarlegum tilfellum COVID-19. Enn sem komið er hafa aldurstengdir eiginleikar ónæmiskerfisins lítið verið rannsakaðir.
Nýlega hafa tilfelli af óvenjulegum bólgusjúkdómi greinst í börnum í kjölfar COVID-19. Um er að ræða fjölkerfa bólguheilkenni (e. pediatric inflammatory multisystem syndrome, PIMS) sem líkist talsvert kawasaki-sjúkdómi. Kawasaki-sjúkdómur er sjaldgæfur sjúkdómur í börnum þar sem bólga verður í æðum víðs vegar í líkamanum. Helstu einkenni eru hiti, bólga í vörum og tungu, roði og bjúgur á höndum og fótum, eitlastækkanir og roði í augum. Í alvarlegri tilfellum verður truflun á starfsemi hjarta- og æðakerfisins sem getur meðal annars valdið æðagúlum á kransæðum sem umlykja hjartað. Ein ráðandi kenning varðandi kawasaki-sjúkdóm er að hann þróist í kjölfar vissra veirusýkinga.
Þannig hafa tilfelli lík kawasaki-sjúkdómi greinst eftir COVID-19 í börnum og ber að undirstrika að ekki er um að ræða kawasaki-sjúkdóminn sjálfan. Frekari upplýsingar skortir til að sýna fram á nákvæmt orsakasamband en líklegt má telja að PIMS sé hluti af mögulegum fylgikvillum COVID-19 í börnum. Tilfellin lýsa sér þannig að nokkrum vikum eftir COVID-19 koma fram einkenni mikillar bólgusvörunar. Gangur sjúkdómsins er almennt alvarlegri en sést í kawasaki-sjúkdómi, hann hefur áhrif á hjarta- og æðakerfið og þörf er á kröftugri ónæmisbælandi meðferð. Langflest börn ná fullum bata eftir þetta ástand, en því miður hafa nokkur látist í kjölfar þess. Sérlega sjaldgæft er að þessi bólgusjúkdómur komi fram eftir COVID-19 og er hann talinn hrjá færri en eitt af hverjum þúsund börnum sem fá sjúkdóminn (undir 0,1%).
Heimildir:
Jón Magnús Jóhannesson. „Hvaða áhrif hefur COVID-19 á börn og geta hættulegir fylgikvillar komið fram?“ Vísindavefurinn, 18. maí 2020, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=79514.
Jón Magnús Jóhannesson. (2020, 18. maí). Hvaða áhrif hefur COVID-19 á börn og geta hættulegir fylgikvillar komið fram? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=79514
Jón Magnús Jóhannesson. „Hvaða áhrif hefur COVID-19 á börn og geta hættulegir fylgikvillar komið fram?“ Vísindavefurinn. 18. maí. 2020. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=79514>.