Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað eru kransæðar?

Þuríður Þorbjarnardóttir

Hjartavöðvinn þarf á næringu að halda eins og allir aðrir vefir líkamans, og ekki síst súrefni. Sérstakar æðar, svokallaðar kransæðar, eru slagæðar sem kvíslast um hjartavöðvann og flytja honum súrefni og næringarefni.

Kransæðarnar eru hægri og vinstri kransæðar sem liggja og greinast um hjartahelmingana tvo. Þær klofna út um op á ósæðinni, þar sem hún kemur út úr vinstra hvolfi, fyrir aftan blöðkur ósæðarlokunnar. Vinstri og hægri kransæðarnar og greinar þeirra liggja á yfirborði hjartavöðvans og eru því stundum kallaðar hjartahimnuslagæðar (e. epicardial arteries). Þessar æðar dreifa blóðflæðinu til mismunandi svæða hjartavöðvans.

Þegar æðarnar eru heilbrigðar veita þær lítið viðnám miðað við smærri greinar þeirra og slagæðlinga sem eru fjær upptökunum, en þær mynda smáæðanet (e. microvascular network) ásamt háræðum og bláæðlingum. Líkt og í öðrum smáæðanetum er mesta viðnámið gegn blóðflæði í þessum litlu slagæðum og slagæðlingum og eru þær því helsti vettvangur fyrir stjórnun á blóðflæði.

Slagæðlingarnir greinast í háræðar sem liggja upp að hjartavöðvafrumunum. Hátt hlutfall milli háræða og hjartavöðvafrumna og stuttar vegalengdir á milli þeirra tryggja að nægilegt súrefni flæðir til hjartavöðvafrumnanna og úrgangsefni (einkum koltvíildi (CO2) og vetnisjónir) frá þeim. Súrefnissnautt blóð úr háræðum berst síðan í bláæðlinga sem sameinast í hjartabláæðar sem liggja um hjartavöðvann og sameinast í stærri og stærri bláæðar, þær helstu eru mikla hjartabláæð, miðhjartabláæð, litla hjartabláæð og fremri hjartabláæð. Súrefnissnautt blóðið berst í kransæðastokk (e. coronary sinus) aftan á hjartanu og þaðan í hægri gátt hjartans.

Grunnsúrefnisnotkun hjartans er mikil eða 8-10 ml súrefni á mínútu. Kransæðarnar eru einu æðarnar sem veita blóði til þessa mikilvæga líffæris, og því mjög mikilvægt að það sé sem stöðugast og öruggast, þrátt fyrir breytingar á ástandi líkamans. Blóðflæðið um kransæðarnar er nátengt súrefnisþörf hjartavöðvans hverju sinni og í heilbrigðum kransæðum eykst blóðflæðið þegar hjartastarfsemi og súrefnisnotkun eykst.

Svokölluð sjálfstjórnun (e. autoregulation) hjálpar að viðhalda eðlilegu blóðflæði í kransæðum þegar breytingar verða á gegnflæðisþrýstingi (munurinn á þrýstingi í slagæðum og bláæðum, PS-PB, e. perfusion pressure) í þeim vegna breytinga á þrýstingi í ósæðinni. Sjálfstjórnun felst í að líffæri (hjartað í þessu tilfelli) viðhaldi stöðugu blóðflæði, þrátt fyrir breytingar á gegnflæðisþrýstingi, til dæmis með því að loka fyrir blóðflæði um hluta slagæðlinga. Blóðflæðið minnkar þá til að byrja með en nær aftur fyrra gildi eftir fáeinar mínútur. Þetta sjálfstjórnunarviðbragð gerist að öllu leyti án afskipta tauga eða hormóna og er því um fullkomna innri sjálfstjórnun að ræða.

Auk sjálfstjórnunar koma taugar og hormón líka við sögu í stjórnun á blóðflæðinu um kransæðarnar.

Mestallt blóðflæði um kransæðar fer fram í þanfasa hjartans (díastólu) þegar kransæðarnar í hjartavöðvanum eru opnar og undir lágum þrýstingi. Þegar hjartavöðvi hvolfanna dregst saman (í slagi/systólu hjartans) lokast kransæðar sem liggja undir hjartaþelinu og inn í vöðvann vegna hás þrýstings innan hvolfanna. Kransæðarnar utan á hjartanu haldast aftur á móti opnar og í slagfasa hjartans er eina blóðflæði til hjartavöðvans um þær.

Kransæðasjúkdómar eru ein af algengari dánarorsökum í hinum vestræna heimi. Alvarleg æðakölkun í kransæð getur leitt til kransæðastíflu. Stíflist kransæð getur hún ekki gegnt sínu hlutverki og flutt vöðvanum næringu og súrefni. Sé ekkert að gert deyr sá hluti vöðvans sem stíflaða æðin flutti blóð til. Drepi í hjartavöðva fylgir mikil hætta á hjartsláttartruflunum sem geta verið lífshættulegar og valdið hjartastoppi. Um það má lesa meira í svari sama höfundar við spurningunni Hvað gerir hjartað og hvað veldur hjartaáfalli?

Heimildir og mynd:

Höfundur

Útgáfudagur

9.1.2013

Spyrjandi

Súsanna Katarína, f. 1996

Tilvísun

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað eru kransæðar?“ Vísindavefurinn, 9. janúar 2013, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=61626.

Þuríður Þorbjarnardóttir. (2013, 9. janúar). Hvað eru kransæðar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=61626

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað eru kransæðar?“ Vísindavefurinn. 9. jan. 2013. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=61626>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað eru kransæðar?
Hjartavöðvinn þarf á næringu að halda eins og allir aðrir vefir líkamans, og ekki síst súrefni. Sérstakar æðar, svokallaðar kransæðar, eru slagæðar sem kvíslast um hjartavöðvann og flytja honum súrefni og næringarefni.

Kransæðarnar eru hægri og vinstri kransæðar sem liggja og greinast um hjartahelmingana tvo. Þær klofna út um op á ósæðinni, þar sem hún kemur út úr vinstra hvolfi, fyrir aftan blöðkur ósæðarlokunnar. Vinstri og hægri kransæðarnar og greinar þeirra liggja á yfirborði hjartavöðvans og eru því stundum kallaðar hjartahimnuslagæðar (e. epicardial arteries). Þessar æðar dreifa blóðflæðinu til mismunandi svæða hjartavöðvans.

Þegar æðarnar eru heilbrigðar veita þær lítið viðnám miðað við smærri greinar þeirra og slagæðlinga sem eru fjær upptökunum, en þær mynda smáæðanet (e. microvascular network) ásamt háræðum og bláæðlingum. Líkt og í öðrum smáæðanetum er mesta viðnámið gegn blóðflæði í þessum litlu slagæðum og slagæðlingum og eru þær því helsti vettvangur fyrir stjórnun á blóðflæði.

Slagæðlingarnir greinast í háræðar sem liggja upp að hjartavöðvafrumunum. Hátt hlutfall milli háræða og hjartavöðvafrumna og stuttar vegalengdir á milli þeirra tryggja að nægilegt súrefni flæðir til hjartavöðvafrumnanna og úrgangsefni (einkum koltvíildi (CO2) og vetnisjónir) frá þeim. Súrefnissnautt blóð úr háræðum berst síðan í bláæðlinga sem sameinast í hjartabláæðar sem liggja um hjartavöðvann og sameinast í stærri og stærri bláæðar, þær helstu eru mikla hjartabláæð, miðhjartabláæð, litla hjartabláæð og fremri hjartabláæð. Súrefnissnautt blóðið berst í kransæðastokk (e. coronary sinus) aftan á hjartanu og þaðan í hægri gátt hjartans.

Grunnsúrefnisnotkun hjartans er mikil eða 8-10 ml súrefni á mínútu. Kransæðarnar eru einu æðarnar sem veita blóði til þessa mikilvæga líffæris, og því mjög mikilvægt að það sé sem stöðugast og öruggast, þrátt fyrir breytingar á ástandi líkamans. Blóðflæðið um kransæðarnar er nátengt súrefnisþörf hjartavöðvans hverju sinni og í heilbrigðum kransæðum eykst blóðflæðið þegar hjartastarfsemi og súrefnisnotkun eykst.

Svokölluð sjálfstjórnun (e. autoregulation) hjálpar að viðhalda eðlilegu blóðflæði í kransæðum þegar breytingar verða á gegnflæðisþrýstingi (munurinn á þrýstingi í slagæðum og bláæðum, PS-PB, e. perfusion pressure) í þeim vegna breytinga á þrýstingi í ósæðinni. Sjálfstjórnun felst í að líffæri (hjartað í þessu tilfelli) viðhaldi stöðugu blóðflæði, þrátt fyrir breytingar á gegnflæðisþrýstingi, til dæmis með því að loka fyrir blóðflæði um hluta slagæðlinga. Blóðflæðið minnkar þá til að byrja með en nær aftur fyrra gildi eftir fáeinar mínútur. Þetta sjálfstjórnunarviðbragð gerist að öllu leyti án afskipta tauga eða hormóna og er því um fullkomna innri sjálfstjórnun að ræða.

Auk sjálfstjórnunar koma taugar og hormón líka við sögu í stjórnun á blóðflæðinu um kransæðarnar.

Mestallt blóðflæði um kransæðar fer fram í þanfasa hjartans (díastólu) þegar kransæðarnar í hjartavöðvanum eru opnar og undir lágum þrýstingi. Þegar hjartavöðvi hvolfanna dregst saman (í slagi/systólu hjartans) lokast kransæðar sem liggja undir hjartaþelinu og inn í vöðvann vegna hás þrýstings innan hvolfanna. Kransæðarnar utan á hjartanu haldast aftur á móti opnar og í slagfasa hjartans er eina blóðflæði til hjartavöðvans um þær.

Kransæðasjúkdómar eru ein af algengari dánarorsökum í hinum vestræna heimi. Alvarleg æðakölkun í kransæð getur leitt til kransæðastíflu. Stíflist kransæð getur hún ekki gegnt sínu hlutverki og flutt vöðvanum næringu og súrefni. Sé ekkert að gert deyr sá hluti vöðvans sem stíflaða æðin flutti blóð til. Drepi í hjartavöðva fylgir mikil hætta á hjartsláttartruflunum sem geta verið lífshættulegar og valdið hjartastoppi. Um það má lesa meira í svari sama höfundar við spurningunni Hvað gerir hjartað og hvað veldur hjartaáfalli?

Heimildir og mynd: