Ef einstaklingi er gefið vetnisperoxíð (H2O2) og C-vítamín hverjar eru líkurnar á því að manneskjan losni við veiru úr líkamanum eins og t.d. COVID-19?
Stutta svarið við spurningunni er að samkvæmt núverandi þekkingu eru líkurnar engar á því að vetnisperoxíð eða C-vítamín gagnist við COVID-19. Að gefa efnin saman breytir engu þar um.
Vetnisperoxíð hefur efnaformúluna H2O2 og klofnar auðveldlega í vatn (H2O) og súrefni (O2). Margir þekkja efnið undir nafninu súrvatn eða brintoverilte og algengt er að það sé í styrkleikanum 3%. Vetnisperoxíð er sterkt oxandi efni. Þetta efni er notað í ýmis konar iðnaði en einnig til að bleikja hár og sem sótthreinsiefni meðal annars til að hreinsa sár. Það seinkar gróanda sára og eykur hættu á örmyndun og er þess vegna óheppilegt til þeirra nota.Í óhefðbundnum lækningum hefur vetnisperoxíð einkum verið notað við krabbameini, lungnasjúkdómum og ýmis konar sýkingum þar með talið alnæmi. Sumt af þessu byggir á þeirri kenningu að vetnisperoxíð drepi sveppi sem aftur séu undirrót ýmis konar sjúkdóma. Ekkert af þessu hefur verið sannað og notkun vetnisperoxíðs getur verið hættuleg. Þegar efnið er notað til lækninga (óhefðbundinna) er það gefið í langan tíma, annað hvort er það drukkið eða sprautað í vöðva eða æð. Þegar það er drukkið sem 3% lausn getur það auðveldlega valdið skemmdum í munni, vélinda og maga með tilheyrandi óþægindum og að sprauta efninu er beinlínis lífshættulegt og þekkt eru mörg dauðsföll við þannig notkun.
Vetnisperoxíð má nota til að bleikja hár en það á ekkert erindi á eða í líkamann.
C-vítamín í stórum skömmtum (yfir 2000 mg á dag) getur haft ýmsar aukaverkanir og má þar t.d. nefna meltingaróþægindi, höfuðverk, svefntruflanir og nýrnasteina.
Niðurstaðan er sú að fyrir hinn venjulega borgara er lítill sem enginn ávinningur í að taka stóra skammta af C-vítamíni til að verjast kvefi og þá væntanlega einnig öðrum veirusjúkdómum. Engar rannsóknir hafa enn sem komið er verið birtar á hugsanlegum áhrifum stórra skammta af C-vítamíni á COVID-19.
Mynd:- Listening to Bleach - Nirvana | teenagers bleaching hair | Flickr. (Sótt 15.04.2020). Myndin er birt undir leyfinu Creative Commons — Attribution-ShareAlike 2.0 Generic — CC BY-SA 2.0.