Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Er fólk sem er gjarnt á að fá berkjubólgu, í flokki þeirra sem eru í áhættuhóp vegna COVID-19?
Það er mjög mikilvægt að huga að því hvaða einstaklingsbundnu þættir auka hættu á alvarlegum veikindum vegna COVID-19. Við erum enn að læra hratt og mikið um þennan nýja smitsjúkdóm en það sem við vitum er að tveir hópar eru sérstaklega viðkvæmir fyrir alvarlegri veikindum í kjölfar hans:
Einstaklingar eldri en 60 ára: áhættan á alvarlegri sjúkdómi eykst eftir fimmtugt en fer hratt vaxandi eftir sextugt.
Einstaklingar með vissa undirliggjandi, langvinna sjúkdóma.
Hins vegar eru einstaklingar með „undirliggjandi, langvinna sjúkdóma“ mjög stór hópur og þá vakna spurningarnar: Á þetta við um alla undirliggjandi sjúkdóma? Skapa einhverjir undirliggjandi sjúkdómar meiri hættu en aðrir? Það sem við vitum hingað til er að þeir undirliggjandi sjúkdómar sem tengjast mest alvarlegum veikindum eru langvinnir lungnasjúkdómar, sykursýki, háþrýstingur og hjarta- og æðasjúkdómar. Af hjarta- og æðasjúkdómum má helst nefna hjartabilun og blóðþurrðarsjúkdóm í hjarta (e. ischemic heart disease) - það er einstaklingar sem hafa fengið hjartaáfall. Rannsóknir hingað til hafa hins vegar mest skoðað hversu margir alvarlega veikir eru með vissa sjúkdóma, ekki endilega hvort tiltekinn undirliggjandi sjúkdómur valdi alvarlegri veikindum.
Tökum háþrýsting sem dæmi - segjum að af alvarlega veikum séu 50% með háþrýsting en af þeim sem eru með vægari einkenni er hlutfallið 30%. Þýðir þetta að háþrýstingur valdi verri einkennum af COVID-19? Ekki endilega! Eldri einstaklingar eru oftar með háþrýsting og við vitum mjög vel að hærri aldur eykur hættu á alvarlegri sjúkdómi vegna COVID-19. Háþrýstingur getur valdið bæði blóðþurrðarsjúkdómi í hjarta og hjartabilun - kannski er hætta á alvarlegri veikindum einskorðuð við þá sem hafa fylgikvilla háþrýstings, ekki háþrýsting einan og sér. Þetta eru atriði sem þarfnast frekari rannsókna.[1]
Efri öndunarfærin ná frá nef- og munnholi niður að barkakýli. Allt fyrir neðan barkakýlið má skilgreina sem neðri öndunarfærin. Berkjubólga er þegar bólga verður í barka eða stórum berkjum neðri öndunarvegar.
Hvað þá með langvinna lungnasjúkdóma? Þá komum við inn á rót spurningarinnar hér fyrir ofan en förum aðeins fyrst yfir það hvað berkjubólga er. Öndunarfærum okkar má skipta í tvo hluta - efri og neðri öndunarfæri. Efri öndunarfærin ná frá nef- og munnholi niður að barkakýli. Allt fyrir neðan barkakýlið má skilgreina sem neðri öndunarfærin. Barkakýlið tengist rörlaga barkanum, sem skiptist síðan niður í tvær stórar berkjur. Þessar berkjur tengja barkann við lungun og greinast síðan frekar í smærri og smærri rör þar til þær enda í lungnablöðrum (e. alveoli). Berkjubólga er þegar bólga verður í barka eða stórum berkjum neðri öndunarvegar og hún getur verið bráð (kemur hratt upp) eða langvinn (ein birtingarmynd langvinnrar lungnateppu, sjá fyrir neðan).
Bráð berkjubólga lýsir sér fyrst og fremst með hósta, stundum með hráka eða nefstíflum, hita, höfuðverkjum og mæði. Bráð berkjubólga verður langoftast vegna veirusýkinga en ef sýking er af völdum baktería draga sýklalyf sjaldan úr einkennum. Hósti vegna berkjubólgu varir vanalega lengur en sýkingin sjálf, eða í 2-3 vikur. Vissir áhættuþættir auka líkur á því að fá berkjubólgu en þar má helst nefna vannæringu, ofnæmi í öndunarfærum, mótefnaskort og langvinna lungnasjúkdóma. Ekki er víst hvort einstaklingar með astma séu viðkvæmari fyrir því að fá berkjubólgu, eða fái meiri einkenni af völdum hennar.[2]
Ef tilhneigingu til að fá bráða berkjubólgu er ekki hægt að rekja til tóbaksreykinga eða langvinnrar lungnateppu virðist ekki aukin hætta á alvarlegum sjúkdómi vegna COVID-19.
Þá erum við komin hringinn - vissir langvinnir lungnasjúkdómar auka hættu á alvarlegum sjúkdómi vegna COVID-19. Einnig geta vissir lungnasjúkdómar aukið hættu á bráðri berkjubólgu. Eins og staðan er núna er aðeins einn sjúkdómur klár tengiliður á milli þessara tveggja áhættuhópa: langvinn lungnateppa (LLT, e. chronic obstructive pulmonary disorder). LLT er í yfirgnæfandi meirihluta í kjölfar tóbaksreykinga og lýsir sér aðallega með versnandi mæði, þrekleysi og hósta. Langvinn berkjubólga er gjarnan hluti af einkennamynstri LLT en einnig verður meiri tilhneiging á bráðum versnunum vegna veirusýkinga og stundum bakteríusýkinga. Þar fyrir utan virðast tóbaksreykingar einar og sér auka hættu á alvarlegri sjúkdómi vegna COVID-19.[3]
Ef tilhneigingu til að fá bráða berkjubólgu er ekki hægt að rekja til tóbaksreykinga eða langvinnrar lungnateppu virðist ekki aukin hætta á alvarlegum sjúkdómi vegna COVID-19. Reykingarstöðvun er nú líkt og áður sérlega mikilvægt skref í heilsuvernd og ef langvinn lungnateppa er til staðar ætti að tryggja viðunandi meðferð til að sporna við henni og hámarka færni og vellíðan.[4]Tilvísanir:
Jón Magnús Jóhannesson. „Eru þeir sem oft fá berkjubólgu í áhættuhópi vegna COVID-19?“ Vísindavefurinn, 13. apríl 2020, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=78950.
Jón Magnús Jóhannesson. (2020, 13. apríl). Eru þeir sem oft fá berkjubólgu í áhættuhópi vegna COVID-19? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=78950
Jón Magnús Jóhannesson. „Eru þeir sem oft fá berkjubólgu í áhættuhópi vegna COVID-19?“ Vísindavefurinn. 13. apr. 2020. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=78950>.