Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Til að reikna hversu mikið losnar af gróðurhúsalofttegundum í gróðureldum (sem skógareldar tilheyra) þarf að vita hversu stórt svæði hefur brunnið, hvaða gróður er á svæðinu og hversu mikið af honum brann, en ekki brennur alltaf allt að fullu. Þegar þessar upplýsingar liggja fyrir er hægt að nota vel þekkta stuðla til að reikna hversu mikið af gastegundum myndast við brunann og þar af leiðandi finna út hversu mikið af gróðurhúsalofttegundum losna.
Margt þarf að hafa í huga þegar losun gróðurhúsalofttegunda vegna gróðurelda er metin.
Til að reikna þetta nákvæmlega þarf því góðar upplýsingar um magn, tegund og ástand gróðurs á því svæði sem brennur.[1] Rakastig, árstíð og fleira hefur áhrif á bæði magn lífmassa og hversu auðveldlega hann brennur. Fyrir sama svæði fer því losunin eftir árstíma og veðuraðstæðum, auk þess sem ákafi eldanna (hitastig) hefur mikil áhrif.
Með því að kortleggja gróðurfar og stærð svæða sem brennur er því hægt að meta magn gróðurhúsalofttegunda sem eldarnir losa. Gervitunglagögn eru yfirleitt notuð til að meta stærð og ákefð stórra gróðurelda.
Gróðureldar eru vel þekkt fyrirbæri í Ástralíu en umfang þeirra 2019-2020 er meira en áður hefur sést.
Ef magnið sem brennur og gróðurfar er þekkt, er tiltölulega auðvelt að reikna magn gróðurhúsalofttegunda sem losna. Um helmingur af þurrum lífmassa er kolefni (C) og meirihluti lífræns efnis sem brennur verður að CO2, auk þess CH4 og N2O. Einnig myndast önnur gös í minna mæli, sót og aðrar agnir.[2]
Í miklum sinueldum sem hafa verið nefndir Mýraeldar og geisuðu í Hraunhreppi vorið 2006, losnuðu um 27 þúsund tonn af CO2 ígildum; þar af 25 þúsund tonn CO2, 72 tonn CH4 og 2 tonn N2O.[3] Vegna mismunandi hitunaráhrifa lofttegunda hafa CH4 og N2O mun meiri áhrif en CO2 og er magntölum þeirra því jafnan breytt í CO2 ígildi.
Nákvæmlega hve mikið CO2 gróðureldar á heimsvísu losa er erfitt að meta, talið er að það séu um 400 milljón tonn af CO2 ígildum á ári undanfarin 20 ár, meðan heildarlosun var 32.500 milljón tonn af CO2 ígildum 2017. Losun gróðurhúsalofttegunda af völdum gróðurelda er því 5 - 10% af árlegri heildarlosun gróðurhúsalofttegunda. Í þessari tölu er tekið tillit til og leiðrétt fyrir því að gróður vex sums staðar aftur eftir elda.
Tilvísanir:
^ Battye, W., & Battye, R. (2002). Development of Emissions Inventory Methods for Wildland Fire. U.S. Environmental Protection Agency (Vol. 27713).
^ Jón Guðmundsson. (2007). Mýraeldar 2006: Fyrstu niðurstöður rannsókna á sinueldunum og áhrifum þeirra á lífríki (pdf, 6,8 MB). Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrufræðistofa Kópavogs, Landbúnaðarháskóli Íslands.
Þröstur Þorsteinsson. „Hvernig vita vísindamenn hversu mikið losnar af gróðurhúsalofttegundum í skógareldum?“ Vísindavefurinn, 24. janúar 2020, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=78519.
Þröstur Þorsteinsson. (2020, 24. janúar). Hvernig vita vísindamenn hversu mikið losnar af gróðurhúsalofttegundum í skógareldum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=78519
Þröstur Þorsteinsson. „Hvernig vita vísindamenn hversu mikið losnar af gróðurhúsalofttegundum í skógareldum?“ Vísindavefurinn. 24. jan. 2020. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=78519>.