Eru til heimildir um að sjófarendur á öldum áður (víkingar) hafi notað silfurberg sem leiðsögutæki á sjó?Á síðustu áratugum hefur þeirri hugmynd skotið upp kollinum að svonefndur „sólarsteinn,“ sem getið er um í fornum heimildum (Ólafs sögu helga og Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar) væri íslenskt silfurberg og að víkingar hafi jafnvel notað silfurbergskristalla sem siglingatæki á ferðum sínum yfir opin hafsvæði. Danski fornleifafræðingurinn Thorkild Ramskou (1915-1985) vakti máls á þessu á 7. áratug 20. aldar, eftir að starfsmenn flugfélagsins SAS bentu honum á að í flugvélum væru sólaráttavitar með silfurbergskristöllum notaðir nálægt segulpólum jarðar, þar sem hefðbundnir seguláttavitar verða ónákvæmir. Sjálfur taldi Ramskou reyndar ólíklegt að sólarsteinninn sem hinar fornu sagnir vísa til væri íslenskt silfurberg. Taldi hann líklegra að þar væri um að ræða steindina kordíerít sem meðal annars má finna við Oslóarfjörð. Kordíerít breytir um lit eftir því hvernig horft er á það í skautuðu ljósi.
- Silfurberg.jpg. Birt undir CC BY-SA 3.0. Höfundur myndar: ArniEin. (Sótt 11.03.2020).