Eru hornsíli æt? Ef svo, eru einhverjar þekktar eldunaraðferðir eða uppskriftir? Sent inn fyrir eina 8 ára.Hornsíli (Gasterosteus aculeatus) eru sjálfsagt vel æt en eru þó fullsmá til þess að við getum flakað þau og nýtt vöðva þeirra líkt og gert er með ýsu, þorsk eða aðra stærri fiska. Eins eru hornsíli miklu minni en sardínur, sem eru í raun margar fisktegundir, og oft grillaðar eða steiktar heilar. Á hornsílum er því miklu minna hold en á sardínum. Hornsíli eru smáir fiskar, venjulega frá 4 til 8 cm á lengd en einstaka fiskar geta orðið rúmlega 10 cm langir. Þau eru því líklega lítt spennandi valkostur fyrir matreiðslumenn að spreyta sig á nema kannski í hakkbollur. Fíngerð beinin gætu þó mögulega angrað þá sem prófa þann rétt. Við gerð þessa svars tókst ekki að finna neinar upplýsingar um að hornsíli hafi verið nýtt til matar og engar uppskriftir af hornsílaréttum. Það er ekki skrýtið, sérstaklega hér á landi þar sem úr nægu öðru fiskmeti er að velja. Þess ber að geta að þrátt fyrir að við mannfólkið borðum ekki hornsíli þá eru þau mjög mikilvæg fæða fyrir aðra fiska og fugla. Myndir:
- Threespine Sticklebacks Gasterosteus aculeatus. OpenCage Photo Library (Sótt 21.8.2019).
- Three-spined Stickleback (Gasterosteus aculeatus). (C) Mike Pennington :: Geograph Britain and Ireland. (Sótt 21.8.2019).