Hvað er venjulegur fótbolti stór hvað er hann breiður og hvað er hann þungur?Fótbolti er geysivinsæl boltaíþrótt sem iðkuð er um allan heim. Alþjóðanefnd knattspyrnusamtaka (IFAB) heldur utan um og gefur út reglur leiksins (e. Laws of the Game). Ásamt upplýsingum um grunnreglur fótboltans er þar einnig að finna leiðbeiningar um búnað sem notaður er í fótbolta; svo sem leikvöll, klæðnað leikmanna og boltann sjálfan. Mikilvægustu eiginleikar boltans eru að sjálfsögðu að hann sé kúlulaga og úr viðeigandi efni. Samkvæmt reglunum á þyngd hans að vera á bilinu 410-450 grömm og þvermálið á að vera á bilinu 68 til 70 cm. Loftþrýstingur knattarins á að vera 0,6-1,1 loftþyngd (atm) við sjávarmál. Þessar tölur eiga að gilda við upphaf hvers knattspyrnuleiks en þær geta hins vegar breyst á meðan leik stendur, til að mynda getur boltinn dregið í sig raka og þyngst nokkuð ef völlurinn er blautur. Ef boltinn verður ónothæfur á meðan leik stendur, til dæmis ef það kemur gat á hann og loft lekur út, er leikurinn stöðvaður og boltanum skipt út.

Reglur um boltann sjálfan voru fyrst settar árið 1872. Þrátt fyrir að margt hafi breyst í fótboltanum frá þeim tíma, hafa reglur um boltann breyst lítið. Myndin er úr leik Woolwich Arsenal (nú Arsenal) og Everton frá 1905.
- FIFA. IFAB: Laws of the game 2018/19. (Sótt 17.5.2019).
- FIFA. From 1863 to the Present Day. (Sótt 17.5.2019).
- Football Stadiums. The History of the Football. (Sótt 17.5.2019).
- Wikimedia Commons. Manor Ground, Woolwich Arsenal vs. Everton. (Sótt 20.5.2019).