Í dag eru fótboltar gerðir þannig að ysta lagið er límt utan á efnið sem notað er sem millilag, oftast pólýester eða bómullarblanda. Ódýrari boltar hafa kannski tvöfalt millilag en gæðaboltar fjögur eða fleiri millilög. Að þessu búnu eru einingarnar sem boltinn er gerður úr sniðnar til og gataðar fyrir sauma. Útlit og fjöldi eininga er breytilegt en algengast er að fótbolti sé settur saman úr 32 einingum, 20 sexhyrningum og 12 fimmhyrningum. Á þessu stigi, áður en boltinn er settur saman, er prentað á einingarnar ef einhver merki eiga að vera á boltanum, til dæmis merki fyrirtækja eða annað. Blaðran í boltanum er búin til úr gúmmíi eða gerviefni sem er hitað og sett í mót sem formar lag þess. Þá er komið að því að setja boltann saman. Bestu og dýrustu boltarnir eru saumaðir saman í höndum og við það er notaður fimm laga pólýesterþráður. Saumað er frá röngunni og notaðar mismunandi nálar til þess að ganga frá endum þannig að engir „hnútar“ sjáist. Flestir handsaumaðir boltar koma frá Pakistan og getur góður „saumari“ sett saman fjóra bolta á dag. Áður en gengið er frá síðasta saum er boltanum snúið við, blaðran sett í og lokað fyrir þannig að saumurinn sjáist ekki. Á síðunni Soccer Balls má sjá myndir af því þegar handsaumaður bolti er búinn til. Boltar sem ekki falla í flokk hágæðabolta eru saumaðir saman í vél en ódýrustu boltarnir eru límdir saman. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hver fann upp fótboltann? eftir Unnar Árnason
- Hver er vinsælasta íþrótt í heimi? eftir Ulriku Andersson
- Fyrir hvað stendur FIFA? Hvenær og hvar var það stofnað? eftir Þór Jónsson og Einar Sigurðsson
- The History of the Soccer Ball á Soccer Ball World. Skoðað 10. 6. 2010.
- Soccer Ball á How Products Are Made. Skoðað 10. 6. 2010.
- How Are Soccer Balls Made? á eHow. Skoðað 10. 6. 2010.
- Association football (ball) á Wikipedia. Skoðað 10. 6. 2010.
- Mynd af Goodyear boltanum: Charles Goodyear's Soccer Ball á Soccer Ball World. Sótt 10. 6. 2010.
- Myndir af 20. aldar boltum: Association football (ball) á Wikipedia. Sóttar 10. 6. 2010.
- Hvernig er fótbolti saumaður?
- Hvernig eru leðurfótboltar saumaðir saman og hvernig er saumurinn endaður?