Hvort er umhverfisvænna að kaupa og neyta drykkjarfanga úr plasti, áli eða gleri á íslandi? (Ekkert af þessu er væntanlega endurunnið hér en plastið sent út til brennslu, álið endurunnið og glerið brotið?)Umhverfisvænustu drykkjarumbúðirnar eru þær sem notaðar eru aftur og aftur. Umhverfisvænast er þó vitaskuld að sleppa alfarið einnota drykkjarumbúðum og nota margnota í staðinn. En það er ekki alltaf möguleiki vilji maður drekka eitthvað annað en kranavatnið. Lífsferilsgreiningar sem gerðar hafa verið á kolefnisspori einnota drykkjarumbúða sem notaðar eru á Íslandi sýna að áldósir hafa lægsta kolefnissporið, þegar tekið er tillit til núverandi endurvinnsluhlutfalls. PET-plastflöskur[1] hafa næst minnsta kolefnissporið en glerflöskur stærsta. Sé plastflaskan þó að helmingi úr nýju plasti og helmingi endurunnu, minnkar kolefnisspor umbúðanna talsvert og getur þá verið minna en kolefnisspor áldósar.

Allar drykkjarumbúðir skilja eftir sig spor en misstór.

Sumir telja að gos í gleri sé betra en annað. En út frá umhverfissjónarmiðum ætti frekar að velja annars konar drykkjarumbúðir.
33 cl | |
---|---|
PET-plastflaska | 78 g CO2-ígildi |
Áldós | 58 g CO2-ígildi |
Glerflaska | 101 g CO2-ígildi |
50 cl | |
PET-plastflaska | 78 g CO2-ígildi |
rPET-plastflaska (50%) | 51 g CO2-ígildi |
Áldós | 74 g CO2-ígildi |
Glerflaska | 135 g CO2-ígildi |
- ^ Plast er búið til úr ýmsum fjölliðum sem því miður hafa ekki íslensk heiti. Algengt er að nota enskar skammstafnir á þessum fjölliðum og PET stendur fyrir polyethylene terephthalate.
- Efla. (14.2.2020). Kolefnisspor umbúða hjá Ölgerðinni. (Sótt 19.05.2021).
- Bo P. Weidema, Marie de Saxcé og Ivan Muñoz (2016). Environmental impacts of alcoholic beverages as distributed by the Nordic Alcohol Monopolies 2014. (Sótt 19.5.2021).
- Umhverfis- og auðlindaráðuneytið. (29. apríl 2021). Frumvarp sem stuðlar að endurvinnslu glers samþykkt á Alþingi. (Sótt 20.5.2021).
- Lög um breytingu á lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, nr. 52/1989 (endurvinnsla og skilagjald). (Sótt 20.5.2021).
- Allancompany.com. (Sótt 19.5.2021).
- Vintage Coca Cola Bottles 9/5 | Saw these cool vintage coke … | Flickr. (Sótt 19.05.2021). Myndina tók cielodlp og hún er birt undir leyfinu Creative Commons — Attribution 2.0 Generic — CC BY 2.0