Hvert er íslenska heitið yfir Springbok - Antidorcas marsupialis? Er það stökkhjörtur, stökkbukki eða stökkantilópa? Eða eitthvað allt annað?Það er vel þekkt að fleiri en eitt heiti er notað yfir sömu dýrategundina. Samkvæmt Dýra- og plöntuorðabók sem út kom 1989 í ritstjórn Óskars Ingimarssonar kallast tegundin Antidorcas marsupialis stökkhafur eða stökkhjörtur á íslensku. Á seinni árum er einnig farið að kalla tegundina stökkbukka. Á ensku er notað heitið springbok. Stökkhjörturinn er antilóputegund sem lifir víða í suður- og suðurvesturhluta Afríku og er afar áberandi tegund í Namibíu, Botsvana og Suður-Afríku. Segja má að tegundin sé ein af helstu einkennistegundum í fánu þessa svæðis og reyndar er stökkhjörturinn þjóðardýr Suður-Afríku. Heildarstofnstærð tegundarinnar á þessum slóðum er ríflega tvær milljónir dýra. Dýrin eru vinsæl veiðibráð og afurðir þeirra svo sem skinn eru víða til sölu fyrir ferðamenn sem þangað leggja leið sína. Mynd:
- Antidorcas marsupialis, male (Etosha, 2012).jpg - Wikimedia Commons. Höfundur myndar: Yathin S Krishnappa. Birt undir Attribution-ShareAlike 3.0 Unported leyfi. (Sótt 22.5.2019).