Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Botsvana í sunnanverðri Afríku er um 6 sinnum stærra að flatarmáli en Ísland og mjög strjálbýlt. Kalaharí-eyðimörkin þekur stærstan hluta landsins en þar er þurrt og heitt og dýralíf fjölbreytilegt. Stór hluti hennar hefur nú verið friðlýstur en margir bestu þjóðgarðar Afríku eru innan landamæra Botsvana.
Í Botsvana finnast um 550 fuglategundir, rúmlega 160 spendýrategundir, tæplega 160 tegundir skriðdýra og um 80 tegundir fiska.
Af spendýrategundum í Botsvana má nefna afríkufílinn. Stofn hans er sterkur í Botsvana ólíkt öðrum Afríkuríkjum þar sem fílum hefur fækkað á undanförnum áratugum. Í Chobe-þjóðgarðinum í norðurhluta landsins eru yfir 50 þúsund fílar og hefur enginn þjóðgarður í álfunni jafn marga fíla innan sinna marka.
Fílahjörð við vatnsból í Chobe-þjóðgarðinum í Botsvana.
Talið er að nokkur hundruð ljón (Panthera leo) séu í Botsvana en þeim hefur fækkað mikið á undanförnum áratugum. Fækkunina má meðal annars rekja til þess að svæði innan veiðlendna þeirra hafa verið tekin undir búfjárræk og hefðbundnum veiðidýrum því fækkað. Ljónin hafa þess vegna þurft að drepa búfé sér til viðurværis með tilheyrandi árekstrum við bændur. Ljón hafa hörfað af stórum svæðum í Kalaharí-eyðimörkinni og þar sem þau er að finna láta þau lítið fyrir sér fara sökum ótta við menn, ólíkt því sem var fyrir nokkrum áratugum.
Af öðrum spendýrategundum má nefna hlébarða (Panthera pardus) sem eru tiltölulega algengir í norðanverðu landinu en halda sig yfirleitt í felum. Útbreiðsla blettatígurs er mikil þó þéttleiki tegundarinnar í landinu sé lítill. Blettahýenur eru algengar og auðfundnar með hjálp góðra leiðsögumanna. Aðrar rándýrategundir sem finnast í Botsvana eru meðal annars eyðimerkurgaupa (Caracal caracal), gresjuköttur (Felis serval), söðulsjakali (Canis mesomelas) og afríkukausi (Civettictis civetta).
Fjölmargar tegundir grasbíta halda til á staktrjáasléttum landsins og í nágrenni vatna og fljóta. Má þar nefna gresjubuffala (Syncerus caffer), sebrahesta (Equus burchelli chapmani) og gíraffa (Giraffa camelopardalis) sem eru algengir bæði innan og utan þjóðgarða. Margar tegundir af gasellum og antilópum finnast á graslendum sléttum Botsvana svo sem impalahjörturinn sem er líklega algengasta spendýrið sem safarí-ferðamenn í Botsvana sjá. Aðrar mjög algengar tegundir eru til dæmis stökkhirtir (Antidorcas marsupalis), sefbukkar (Redunca arundinum) og vatnabukkar (Kobus ellipsiprymnus). Í Okavango-votlendinu má sjá margar smærri antilópur og gasellur eins og fenjabukka (Tragelaphus spekei) og kjarrantilópur (Sylvicapra grimmia).
Ljón og buffalahjörð í baksýn í Chobe-þjóðgarðinum.
Fuglalíf á votlendissvæðum Botsvana, sérstaklega Okavango-svæðinu, er einstakt í sinni röð í heiminum en yfir hundrað fuglategundir halda þar til að staðaldri. Strútar eru tiltölulega algengir á verndarsvæðum, þúsundir flamingóa eru í Okavango-votlendinu auk fjölmargra annarra votlendisfugla á borð við trönur og hegra. Aðrar af helstu fuglategundum landsins eru gæsir svo sem korngæs (Nettapus auritus) og nílargæs (Alopochen aegyptiacus), fjöldi tegunda ránfugla til dæmis glymörn (Haliaetus vocifer), lodda (Terathopius ecaudatus) og gammar á borð við höfðagamm. Krákur og dúfur, nashyrningsfuglar og drongóar eiga sína fulltrúa í fuglafánu landsins auk fjölda annarra fugla enda finnast að staðaldri um 550 tegundir fugla í landinu.
Af skriðdýrategundum má nefna nílarkrókódíla (Crocodylus niloticus) sem eru algengir í helstu ám landsins svo sem í Okavangoá, Banlifljóti og Chobeánni. Einnig er fjöldi tegunda smárra eðla og margar tegundir snáka svo sem pýtonar, græna mamban og kóbraslöngur.
Umhverfismál eru í nokkuð góðum farvegi í Botsvana enda skiptir það miklu þar sem mikilvægur hluti ríkistekna eru gjaldeyristekjur af ferðamönnum sem heimsækja landið vegna hins fjölbreytta dýralífs. Nú eru rúmlega 17% af landinu innan marka þjóðgarða en það samsvarar stærð Íslands. Svipað landflæmi er undir nánu eftirliti villidýrastofnunar Botsvana sem hefur eftirlit með nýtingu lands og dýra.
Það er fyrst og fremst stöðugu stjórnmálaástandi að þakka í hversu góðu horfi helstu dýrastofnar landsins eru, en í mörgum nágrannaríkjum Botsvana hafa innanlandsátök haft mjög slæm áhrif á dýralíf. Sem dæmi má nefna lönd eins og Angóla, Kongó og Rúanda.
Myndir:
Jón Már Halldórsson. „Hvernig er dýralífið í Botsvana?“ Vísindavefurinn, 3. maí 2005, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4973.
Jón Már Halldórsson. (2005, 3. maí). Hvernig er dýralífið í Botsvana? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4973
Jón Már Halldórsson. „Hvernig er dýralífið í Botsvana?“ Vísindavefurinn. 3. maí. 2005. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4973>.