Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Sæl öll. Var kerfi hér áður til að ákvarða kirkjustaði. Kannski sólstöðu kerfi? Það væri gaman að fá upplýsingar. Þakka, Valdimar.
Ekkert bendir til að eitthvert sérstak kerfi hafi legið til grundvallar þegar kirkjustaðir komu til sögunnar í öndverðri kristni hér. Með kirkjustöðum er hér einfaldlega átt við jörð eða býli þar sem kirkja reis. Ekki skiptir þá máli hvernig eignarhaldi á jörðinni var háttað né hver staða byggingarinnar var (sjá síðar).
Mikilvægt er að hafa í huga að fyrsta kirkjubyggingarskeiðið hér á landi gekk yfir áður en kirkjustofnun var komin á laggirnar. Til að mynda hefur biskupsembættið og kirkjustjórn í höndum biskups tæpast verið komið til. Einkaframtak bænda réð því úrslitum um hvar kirkjur risu. Kirkjustaðir voru því aldrei „ákvarðaðir“ í þröngum skilningi öfugt við það sem spyrjandi gengur út frá.
Í öndverðri kristni á Íslandi réð einkaframtak bænda úrslitum um hvar kirkjur risu. Kirkjustaðir voru því aldrei „ákvarðaðir“ í þröngum skilningi. Á myndinn sést Hóladómkirkja eins og hún birtist í Ferðabók Skotans Ebenezers Hendersons sem kom fyrst út 1818.
Hugsanlega var fyrsti hvati að því að bændur tóku að reisa kirkjur á jörðum sínum sú þörf að mögulegt væri að grafa fólk af fyrstu kristnu kynslóðunum hér við kirkjur eins og lög — meðal annars kristinna laga þáttur Grágásar — gerðu ráð fyrir. Hér hefur þá verið um örsmáar heimiliskirkjur að ræða sem risið hafa utan túns og því spottakorn frá bæjarhúsunum. Kirkjur þessar kunna að hafa risið á kumlateigum úr heiðni sem þá hafa verið notaðir áfram eftir kristnitöku.
Smám saman hafa kirkjur svo fengið víðtækara hlutverk í trúarlífi fólks. Þá hentaði betur að flytja kirkjubyggingarnar heim að bæjum. Sumir bændur hafa þó líklega ekki tekið þetta skref heldur leyft kirkjum sínum að leggjast af. Eftir sem áður gátu kirkjur verið fleiri en þörf var á og verið dreift tilviljunarkennt um byggðirnar. Sums staðar voru kirkjur væntanlega á hverjum bæ.
Í takt við að helgihald í landinu um leið og prestum fjölgaði hefur smám saman verið tekið að gera meiri kröfur til kirkna, það er að þær rúmuðu þann „söfnuð“ sem þangað sótti og væru þannig búnar að hægt væri að halda þar uppi fullgildu helgihaldi. Höfðingjar og/eða efnaðri bændur áttu auðveldara með að koma sér upp slíkum kirkjum en hinir efnaminni. Kirkjur þeirra hafa því eflst á kostnað annarra kirkna sem urðu í einhverjum mæli að bænhúsum, það er kapellum þar sem mögulegt var að iðka heimilisguðrækni en ekki syngja messu. Eftir að tíund komst á rétt fyrir aldamótin 1100 hefur svo komið til kapphlaups milli kirkjueigenda að gera kirkjur sínar sem best úr garði, ráða að þeim presta og mynda um þær sem stærst þjónustusvæði sem voru undanfari fastra sókna. En allir sem bjuggu innan sóknar einhverrar ákveðinnar kirkju greiddu tíund (fyrsti vísir að sóknargjaldi) til hennar. Þegar til beinna deilna kom hafa biskupar geta tekið af skarið um sóknarmörkin og komið þannig á meiri festu.
Búðakirkja í Staðarstaðarprestakalli á Snæfellsnesi. Kirkjan á myndinni var upphaflega reist 1847 og endurreist 1984–1986.
Á þessu skeiði sóknarmyndunar hefur annað grisjunartímabil líklega gengið yfir. Vanbúnustu kirkjurnar hafa lagst af eða orðið að bænhúsum. Sumar urðu heimiliskirkjur sem aðeins höfðu eina jörð í — heimajörðina þar sem kirkjan stóð — og fengu aðeins tíund þaðan (heimatíund). Enn aðrar kirkjur hafa öðlast stærri sóknir. Öflugustu kirkjurnar urðu alkirkjur þar sem messað var hvern helgan dag. Aðrar urðu hálfkirkjur eða fjórðungskirkjur þar sem messað var annan eða fjórða hvern helgidag. Við margar alkirkjur hafa prestar haft fasta búsetu. Þar hafa víða komist á prestsetur síðar meir. Slíkar kirkjur kölluðust heimakirkjur en aðrar kölluðust útkirkjur eða annexíur.
Sums staðar í kristninni mátti aðeins grafa lík við tilteknar kirkjur sem kölluðust þá graftarkirkjur. Líklega var slíkur munur ekki gerður milli kirkna hér á landi þegar á annað borð var um sóknarkirkjur að ræða, það er kirkjur sem tóku við tíund. Dreifbýlið og erfiðar samgöngur í landinu getur hafa skipt þar máli.
Svaranda er vissulega kunnugt um að settar hafa verið fram þær hugmyndir að kirkjum hér á landi hafi verið valinn staður út frá einhverju samræmdu kerfi sem ef til vill hafi miðast við sólargang. Hér er ekki litið svo á að þær hugmyndir hafi við vísindaleg rök að styðjast. Miklu líklegra er að staðsetning kirkna hafi ráðist af þróun í líkingu við það sem hér var lýst.
Frekari upplýsingar um ýmislegt þessu tengt má fá á eftirfarandi stöðum. Þar er einnig að finna tilvísanir til annarra rita:
Hjalti Hugason, Frumkristni og upphaf kirkju, Kristni á Íslandi I, ritstj. Hjalti Hugason, Reykjavík: Alþingi, 2000, bls. 170 og áfram.
Hjalti Hugason, „Kristnir trúarhættir“, Íslensk þjóðmenning V, ritstj. Frosti F. Jóhannsson, Reykjavík: Þjóðsaga, 1988, bls. 82 og áfram.
Hjalti Hugason. „Var sólstöðukerfi notað til ákvarða kirkjustaði á Íslandi fyrr á tíð?“ Vísindavefurinn, 5. mars 2019, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=77163.
Hjalti Hugason. (2019, 5. mars). Var sólstöðukerfi notað til ákvarða kirkjustaði á Íslandi fyrr á tíð? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=77163
Hjalti Hugason. „Var sólstöðukerfi notað til ákvarða kirkjustaði á Íslandi fyrr á tíð?“ Vísindavefurinn. 5. mar. 2019. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=77163>.