Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Orðið fjölskylduharmleikur er notað ósjaldan í fréttum. Orðið er hefur verið notað þegar fjölskylda ferst af slysförum, þegar fjölskylda missir faðir í sjóslysi og þegar fjölskylda missir heimili sitt í bruna.
Orðið er líka oft notað um annarskonar hryggðarmál einsog þegar faðir misnotar dætur sínar, faðir myrðir móður barnanna sinna, faðir myrðir fjölskyldu sína.
Ég furða mig á að orðið er notað þegar faðir brýtur gegn fjölskyldu sinni annað hvort kynferðislega eða gengur alla leið og tekur lífið af börnum sínum eða eiginkonu.
Finnst mér fjölmiðlar veita gerandanum afslátt á gjörningnum með því að nota orðið fjölskylduharmleik, lesandinn er þar með beðinn um að vorkenna öllum, líka gerandanum.
Ég spyr því hver er hin eiginlega merking orðsins fjölskylduharmleikur?
Hver er ábyrgð fjölmiðla þegar fjallað er um mál einsog kynferðisofbeldi innan fjölskyldna eða morð innan fjölskyldna? Er einhver siðanefnd sem vinnur að því að siða til fjölmiðla vegna orðavals síns?
Allt frá árdögum tímarita, dagblaða og annarra prentmiðla eins og við þekkjum þá hefur farið fram ríkuleg umræða hjá fagfólki og almenningi um ábyrgð fjölmiðla. Umræðan snýr að siðferðilegu hlutverki fjölmiðla og koma siðferðileg hugtök eins og réttindi og skyldur þeirra mikið við sögu. Stundum er umræðan mjög almenn og getur þá til dæmis fjallað um lýðræðislegt hlutverk fjölmiðla í samtímanum en stundum er hún sértækari og snýr þá ekki síst að skyldum fjölmiðla þegar tekist er á við tiltekin og oft viðkvæm umræðuefni. Bæði eigendur og ritstjórar fjölmiðla hafa því ávallt verið meðvitaðir um siðferðilega vídd þeirra þótt meginviðhorf hafi vissulega oft tekið miklum breytingum. Það sem hefur þótt eðlilegt á ófriðartímum virkar til dæmis einkennilegt á friðartímum þegar horft er í baksýnisspegilinn. Má þar nefna einhliða umfjöllun þar sem viljandi er lögð áhersla á ákveðin atriði og fréttnæmum viðburðum er jafnvel ekki gerð skil.
Til að styrkja þessa siðferðilegu vídd, eins og hún var hér nefnd, hefur það færst í vöxt að fjölmiðlar, fagfélög blaðamanna og aðrir sem koma að rekstri fjölmiðla skrái siðareglur sínar. Eins og í öðrum skráðum siðareglum er þar reynt að koma í orð óskráðum siðareglum sem hafa náð fótfestu innan ákveðinnar greinar og sterkur meirihluti er fyrir að hafi sannað gildi sitt. Tilgangurinn er tvíþættur. Annars vegar er það viðtekin skoðun að skráðar siðareglur sem hægt er að kynna fyrir almenningi og vitað er að fagfólk þekkir til skapi traust á fjölmiðlum. Þessari jákvæðu nálgun fylgir önnur örlítið neikvæðari sem gerir ráð fyrir því að með því að skrá siðareglurnar og kynna rækilega fyrir þeim einstaklingum sem gangast undir þær sé ólíklegra að fólk – jafnvel í algjöru hugsunarleysi – brjóti þá meginreglu mannlegra samskipta að særa ekki eða skaða með orðum sínum.
Fjölmiðlar sem kenna sig við gagnrýni vilja mögulega kenna sig við ákveðna hugmyndafræði og telja sig ekki vera verri sem slíka þótt sú hugmyndafræði leiki áberandi hlutverk í fréttaflutningi þeirra.
Vissulega er til það fólk í fjölmiðlun sem vill ekki gangast undir skráðar siðareglur sem það telur yfirleitt túlka einsleitt og takmarkað siðferði sem nái ekki yfir flókinn siðferðilegan veruleika samtímans. Megineinkenni slíkrar fjölmiðlunar er að bjóða upp á nokkurs konar lýðræðislegan valkost fyrir almenning sem ráði því einfaldlega „með veskinu“, eins og sagt er, hvers konar umfjöllun sé frambærileg og eigi að vera viðurkennd. Ef fólk kaupir fjölmiðilinn þá sé það merki um að hann gangi ekki alvarlega gegn almennum siðferðilegum viðmiðum samfélagsins. Grunnhugmyndin er að allar tilraunir til að skilgreina tiltekin viðmið fyrirfram séu í raun óviðeigandi eða dæmdar til að mistakast. Örlítið flóknari mynd þessa viðhorfs er sú sem dregur fram tiltekin atriði úr þeim siðferðilegu viðmiðum sem skráð hafa verið og gagnrýnir sérstaklega. Þar má til dæmis nefna hugmyndir um að fjölmiðlafólk skuli vera óhlutdrægt í skoðunum sínum. Það kann að vera ástæða til að spyrja sig hvort slík krafa sé réttlætanleg og þá á hvaða grunni. Fjölmiðlar sem kenna sig við gagnrýni vilja mögulega kenna sig við ákveðna hugmyndafræði og telja sig ekki vera verri sem slíka þótt sú hugmyndafræði leiki áberandi hlutverk í fréttaflutningi þeirra.
En eins og áður sagði, það er ríkur meirihluti fyrir því innan stéttarfélaga eins og Blaðamannafélags Íslands að skrá niður ákveðnar meginreglur sem eiga að leiðbeina félagsmönnum í störfum sínum og vera þeim til halds og trausts þegar kemur að siðferðilegum álitamálum í störfum þeirra. Flestir líta svo á að fjölmiðlun fylgi rík siðferðileg ábyrgð og að skyldur fylgi fjölmiðlafrelsi og tækifærum til að ná til almennings hvort sem það er með útvarpi eða útgáfu. Forsvarsmenn stéttarfélaga jafnt og ritstjórar eru þeirrar skoðunar að það sé til mikils að vinna að efla trúverðugleika á fjölmiðlum og að starfsfólk gangist við ábyrgð sinni.
En þrátt fyrir þennan samhljóm er augljóst að skráðar siðareglur forða ekki fjölmiðlafólki frá því að þurfa að beita dómgreind sinni þegar það stendur frammi fyrir siðferðilegum álitamálum. Dæmi um slík álitamál er upp að hvaða marki eðlilegt er að villa á sér heimildir í rannsóknarskyni, hvort halla megi á nákvæmni í fréttaflutningi til að fréttir berist fyrr til almennings, hvers konar myndbirtingar séu eðlilegar í samfélagi þar sem þol fólks til að sjá nekt, blóð og annað er ákaflega mismunandi, hvort þjóðaröryggi trompi ávallt önnur sjónarmið og hvenær einkalíf fólks er fréttnæmt fremur en einungis forvitnilegt. Annað slíkt álitamál er hvenær gildishlaðið orðalag er viðeigandi og hvenær ekki.
Augljóst er að skráðar siðareglur forða ekki fjölmiðlafólki frá því að þurfa að beita dómgreind sinni þegar það stendur frammi fyrir siðferðilegum álitamálum.
Spurningin dregur fram þekkt en um leið viðkvæmt málefni í fjölmiðlun. Það er engum blöðum um það að fletta að alvarlegir atburðir í fjölskyldulífi annars fólks vekja upp forvitni í nærsamfélaginu. Oft eiga slíkir atburðir erindi við almenning í ljósi þess þeir áttu sér stað fyrir margra augum, og málsatvik þurfa að vera útskýrð svo flökkusögur fari ekki af stað, eða opna þarf umræðu um að atvik af þessu tagi eigi sér stað.
Þegar fluttar eru fréttir af viðkvæmum málefnum skiptir nákvæmni og virðing í framsetningu öllu máli. Í spurningunni er nefnt dæmi um gildishlaðið orðalag („fjölskylduharmleikur“) sem getur verið óviðeigandi og skilist þannig að gert sé minna en efni standa til úr ábyrgð geranda (á kynferðislegri misnotkun til dæmis). Reyndar tiltekur spurningin ekki raunveruleg dæmi og í henni kemur heldur ekki fram hversu algengt slíkt orðalag er í íslenskum fjölmiðlum. Líklegasta skýringin á slíkum fréttaskrifum er einfaldlega þekkingarleysi þess sem fréttina skrifar, eða þá kæruleysi í meðferð tungumálsins. Slíkt þarf ekki að koma á óvart. Flest dæmi um það þegar við göngum gegn siðferðilegum viðmiðum, til dæmis þeim sem skráð eru í siðareglum, koma til við einhvers konar hugsunarleysi. Ekkert okkar getur látið eins og við séum yfir það hafin að ganga gegn siðferðilegum viðmiðum. Og flest erum við tilbúin að bregðast við þegar okkur er bent á mistök okkar.
Kosturinn við skráðar siðareglur í faglegu samhengi er að þær auðvelda ábendingar um hvar okkur hefur orðið á í messunni. Því fer fjarri að slíkt þurfi alltaf að ganga til siðanefnda sem fjallar um tilteknar reglur. Það á aðeins að gera þegar ágreiningur er uppi um túlkun reglnanna eða hver raunveruleg málsatvik voru. Í langflestum tilvikum þykir fagfólki gott að fá ábendingar um hvar það þarf að bæta sig í starfi. Stundum hafa tilteknir ósiðir – til að mynda ónákvæmt orðalag – tekið sér bólfestu í nokkurs konar vinnustaðarmenningu. Þegar slíkt gerist veitir ekki af sjónarhorni einhvers utanaðkomandi til benda á hvað betur mætti fara. Siðferði hvers samfélags er samvinnuverkefni allra sem í því lifa og starfa.
Myndir:
Henry Alexander Henrysson. „Er til siðanefnd sem siðar fjölmiðla til vegna þess hvernig þeir orða fréttir sínar?“ Vísindavefurinn, 9. apríl 2019, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=77092.
Henry Alexander Henrysson. (2019, 9. apríl). Er til siðanefnd sem siðar fjölmiðla til vegna þess hvernig þeir orða fréttir sínar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=77092
Henry Alexander Henrysson. „Er til siðanefnd sem siðar fjölmiðla til vegna þess hvernig þeir orða fréttir sínar?“ Vísindavefurinn. 9. apr. 2019. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=77092>.