Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Geta skráðar siðareglur skapað traust?

Henry Alexander Henrysson

Spurningar um traust koma reglulega upp þegar málefni samfélagsins eru rædd. Nýlega hafa til dæmis birst kannanir sem varpa ljósi á þverrandi traust til mikilvægra stofnana í samfélaginu, ásakanir um afglapahátt í viðskiptalífinu hafa dregið hugtakið fram og stjórnmálamenn hafa verið ásakaðir um að bregðast trausti kjósenda. Eins og alltaf þegar slík umræða kemur fram er stutt í að þeir sem hafa orðið fyrir gagnrýni leiti í skyndilausnir. En það getur verið varasamt að leggja alla áherslu á að bregðast við umræðunni fremur en að taka þátt í henni. Og stundum er allt sem þarf til að taka þátt í þessari umræðu til staðar ef vel er að gáð.

Traust tilheyrir hópi siðferðilegra hugtaka sem eru ákaflega vandmeðfarin. Markmið siðfræði er meðal annars að dýpka umræðu þar sem slík hugtök koma fyrir. Siðfræðin skilgreinir mismunandi réttindi og skyldur og sambandið þar á milli, varpar ljósi á tengsl frelsis og ábyrgðar og greinir hvað traust milli fólks felur í sér. Eitt af því sem virðist blasa við þegar traust er skoðað nánar er hversu aðstæðubundið það er. Hugmyndir um að fólk annað hvort njóti trausts eða ekki byggja stundum á þeim misskilningi að þarna sé um að ræða víðtækan eiginleika sem eigi rætur í fasi eða myndugleika einstaklinga, fyrirtækja eða stofnana. En málið er að við treystum sumu fólki til einhvers en annars ekki. Ég treysti Jóni fyrir börnunum mínum en Gunnu til að gera við bílinn. En alls ekki öfugt. Traustið verður til þegar fólk sýnir í orðum sínum og verki að það skilji til hvers er ætlast af því.

Siðareglur eru í raun besta vörn fólks til að verða ekki fyrir ómálefnalegri gagnrýni á störf sín. Traust milli aðila verður til þegar lítill vafi leikur á hlutverki, skyldum og réttindum.

Hvers vegna á traust það til að glatast í mannlegum samskiptum – og þá kannski sérstaklega í starfstengdu samhengi? Algengustu dæmin eru þess eðlis að fólk sem gegnir ákveðnu hlutverki getur ekki gert sjálfum sér eða öðrum grein fyrir þeim forsendum sem liggja hlutverkinu til grundvallar. Það virðist ekki skilja hvað starfið felur í sér. Fólkið getur, með öðrum orðum, ekki svarað einföldum – og eðlilegum – spurningum hvers vegna þau gera eitthvað, eða láta það ógert. Við treystum þeim til verka sem geta útskýrt hvernig stendur til að inna ákveðið verk af hendi eða hvers vegna eitthvað væri betur látið ógert.

Sameiginlegt með flestum þeim málum sem hæst fara og þar sem traust hefur borið á góma er að þar hafa verið til staðar skráðar siðareglur um hvernig það fólk sem hefur gengist undir reglurnar á að bera sig að við úrlausn mála. Umræðan einkennist oft af spurningum um hvort reglurnar hafi verið brotnar, hver viðurlögin séu og hvort hagsmunir hafi glatast. Sú umræða byggir á röngum áherslum. Siðareglum er fyrst og fremst ætlað að draga fram einkenni þess hlutverks sem starfsmaður er í og glæða skilning á þeim skyldum og þeirri ábyrgð sem fylgja hlutverkinu. Þær eru leiðarljós sem gera öllum hlutaðeigandi ljóst hvernig á að vinna tiltekið starf. Siðareglur eru í raun besta vörn fólks til að verða ekki fyrir ómálefnalegri gagnrýni á störf sín. Þær eru viðmið um hvers vegna störf eru unnin á ákveðinn hátt en um leið viðmið um hvers vegna sumt er ekki hluti starfsins. Traust milli aðila verður til þegar lítill vafi leikur á hlutverki, skyldum og réttindum. Traustið er í raun sú umbun sem skráðar siðareglur geta veitt og er sú umbun að mörgu leyti mikilvægari heldur en hávær krafa um viðurlög og refsingu.

Vissulega eru margir sem horfa gagnrýnum augum á skráðar siðareglur. Sú gagnrýni getur verið af mörgu tagi. Til dæmis eru skráðar siðareglur ekki eitthvað sem samið er frá grunni. Reglurnar eiga að vera almennt viðurkenndar af þeim sem eiga að gangast undir þær og því vakna oft spurningar hvort þær séu nokkuð nauðsynlegar. Einnig er líklega satt að engar slíkar reglur eru skárri heldur en illa skráðar siðareglur. Ennfremur má benda á dæmi þar sem innleiðing siðareglna hefur brugðist algjörlega þannig að skráning þeirra hefur fyrst og fremst virkað íþyngjandi fyrir þau sem hafa gengist undir reglurnar. En þegar vel hefur tekist til hafa þær sannað sig. Heilbrigðisstarfsfólk hefur verið í fararbroddi þeirra sem hafa tekið þessi mál alvarlega enda traustið óvíða jafn dýrmætt og brothætt. Uppeldisstéttir hafa fylgt þar fast á eftir.

Skráðar siðareglur þurfa ekki að vera ítarlegar eða raunar skráðar í bókstaflegri merkingu. Myndin er af tónleikagestum á Eistnaflugi.

Skráðar siðareglur þurfa þó ekki að vera ítarlegar eða raunar skráðar í bókstaflegri merkingu. Eitt ákveðið dæmi sýnir ágætlega hvernig inntak siðareglna skiptir meira máli heldur en form þeirra. Forsvarsmenn tónlistarhátíðarinnar Eistnaflug settu þannig eina einfalda reglu fyrir þá hátíð sem eftir því sem best verður séð hefur dugað vel. Enn sem komið er njóta fáar tónlistarhátíðir viðlíka trausts á Íslandi. Það hefur ekki byggst á því að gestir hafi lofað að greiða sér snyrtilegar, bóna leðrið betur eða taka sérstaklega fram að þeir ætli að fara að lögum og reglum. Traustið hefur orðið til vegna þess að þar geta gestir svarað því skýrt og greinilega hvers vegna sum hegðun er látin óátalin á meðan önnur telst ámælisverð: Hér, í þessum aðstæðum og í hlutverki mínu sem tónleikagestur, hef ég lofað að haga mér ekki eins og fáviti.

Myndir:

Höfundur

Henry Alexander Henrysson

doktor í heimspeki

Útgáfudagur

5.4.2016

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Henry Alexander Henrysson. „Geta skráðar siðareglur skapað traust?“ Vísindavefurinn, 5. apríl 2016, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=71983.

Henry Alexander Henrysson. (2016, 5. apríl). Geta skráðar siðareglur skapað traust? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=71983

Henry Alexander Henrysson. „Geta skráðar siðareglur skapað traust?“ Vísindavefurinn. 5. apr. 2016. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=71983>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Geta skráðar siðareglur skapað traust?
Spurningar um traust koma reglulega upp þegar málefni samfélagsins eru rædd. Nýlega hafa til dæmis birst kannanir sem varpa ljósi á þverrandi traust til mikilvægra stofnana í samfélaginu, ásakanir um afglapahátt í viðskiptalífinu hafa dregið hugtakið fram og stjórnmálamenn hafa verið ásakaðir um að bregðast trausti kjósenda. Eins og alltaf þegar slík umræða kemur fram er stutt í að þeir sem hafa orðið fyrir gagnrýni leiti í skyndilausnir. En það getur verið varasamt að leggja alla áherslu á að bregðast við umræðunni fremur en að taka þátt í henni. Og stundum er allt sem þarf til að taka þátt í þessari umræðu til staðar ef vel er að gáð.

Traust tilheyrir hópi siðferðilegra hugtaka sem eru ákaflega vandmeðfarin. Markmið siðfræði er meðal annars að dýpka umræðu þar sem slík hugtök koma fyrir. Siðfræðin skilgreinir mismunandi réttindi og skyldur og sambandið þar á milli, varpar ljósi á tengsl frelsis og ábyrgðar og greinir hvað traust milli fólks felur í sér. Eitt af því sem virðist blasa við þegar traust er skoðað nánar er hversu aðstæðubundið það er. Hugmyndir um að fólk annað hvort njóti trausts eða ekki byggja stundum á þeim misskilningi að þarna sé um að ræða víðtækan eiginleika sem eigi rætur í fasi eða myndugleika einstaklinga, fyrirtækja eða stofnana. En málið er að við treystum sumu fólki til einhvers en annars ekki. Ég treysti Jóni fyrir börnunum mínum en Gunnu til að gera við bílinn. En alls ekki öfugt. Traustið verður til þegar fólk sýnir í orðum sínum og verki að það skilji til hvers er ætlast af því.

Siðareglur eru í raun besta vörn fólks til að verða ekki fyrir ómálefnalegri gagnrýni á störf sín. Traust milli aðila verður til þegar lítill vafi leikur á hlutverki, skyldum og réttindum.

Hvers vegna á traust það til að glatast í mannlegum samskiptum – og þá kannski sérstaklega í starfstengdu samhengi? Algengustu dæmin eru þess eðlis að fólk sem gegnir ákveðnu hlutverki getur ekki gert sjálfum sér eða öðrum grein fyrir þeim forsendum sem liggja hlutverkinu til grundvallar. Það virðist ekki skilja hvað starfið felur í sér. Fólkið getur, með öðrum orðum, ekki svarað einföldum – og eðlilegum – spurningum hvers vegna þau gera eitthvað, eða láta það ógert. Við treystum þeim til verka sem geta útskýrt hvernig stendur til að inna ákveðið verk af hendi eða hvers vegna eitthvað væri betur látið ógert.

Sameiginlegt með flestum þeim málum sem hæst fara og þar sem traust hefur borið á góma er að þar hafa verið til staðar skráðar siðareglur um hvernig það fólk sem hefur gengist undir reglurnar á að bera sig að við úrlausn mála. Umræðan einkennist oft af spurningum um hvort reglurnar hafi verið brotnar, hver viðurlögin séu og hvort hagsmunir hafi glatast. Sú umræða byggir á röngum áherslum. Siðareglum er fyrst og fremst ætlað að draga fram einkenni þess hlutverks sem starfsmaður er í og glæða skilning á þeim skyldum og þeirri ábyrgð sem fylgja hlutverkinu. Þær eru leiðarljós sem gera öllum hlutaðeigandi ljóst hvernig á að vinna tiltekið starf. Siðareglur eru í raun besta vörn fólks til að verða ekki fyrir ómálefnalegri gagnrýni á störf sín. Þær eru viðmið um hvers vegna störf eru unnin á ákveðinn hátt en um leið viðmið um hvers vegna sumt er ekki hluti starfsins. Traust milli aðila verður til þegar lítill vafi leikur á hlutverki, skyldum og réttindum. Traustið er í raun sú umbun sem skráðar siðareglur geta veitt og er sú umbun að mörgu leyti mikilvægari heldur en hávær krafa um viðurlög og refsingu.

Vissulega eru margir sem horfa gagnrýnum augum á skráðar siðareglur. Sú gagnrýni getur verið af mörgu tagi. Til dæmis eru skráðar siðareglur ekki eitthvað sem samið er frá grunni. Reglurnar eiga að vera almennt viðurkenndar af þeim sem eiga að gangast undir þær og því vakna oft spurningar hvort þær séu nokkuð nauðsynlegar. Einnig er líklega satt að engar slíkar reglur eru skárri heldur en illa skráðar siðareglur. Ennfremur má benda á dæmi þar sem innleiðing siðareglna hefur brugðist algjörlega þannig að skráning þeirra hefur fyrst og fremst virkað íþyngjandi fyrir þau sem hafa gengist undir reglurnar. En þegar vel hefur tekist til hafa þær sannað sig. Heilbrigðisstarfsfólk hefur verið í fararbroddi þeirra sem hafa tekið þessi mál alvarlega enda traustið óvíða jafn dýrmætt og brothætt. Uppeldisstéttir hafa fylgt þar fast á eftir.

Skráðar siðareglur þurfa ekki að vera ítarlegar eða raunar skráðar í bókstaflegri merkingu. Myndin er af tónleikagestum á Eistnaflugi.

Skráðar siðareglur þurfa þó ekki að vera ítarlegar eða raunar skráðar í bókstaflegri merkingu. Eitt ákveðið dæmi sýnir ágætlega hvernig inntak siðareglna skiptir meira máli heldur en form þeirra. Forsvarsmenn tónlistarhátíðarinnar Eistnaflug settu þannig eina einfalda reglu fyrir þá hátíð sem eftir því sem best verður séð hefur dugað vel. Enn sem komið er njóta fáar tónlistarhátíðir viðlíka trausts á Íslandi. Það hefur ekki byggst á því að gestir hafi lofað að greiða sér snyrtilegar, bóna leðrið betur eða taka sérstaklega fram að þeir ætli að fara að lögum og reglum. Traustið hefur orðið til vegna þess að þar geta gestir svarað því skýrt og greinilega hvers vegna sum hegðun er látin óátalin á meðan önnur telst ámælisverð: Hér, í þessum aðstæðum og í hlutverki mínu sem tónleikagestur, hef ég lofað að haga mér ekki eins og fáviti.

Myndir:...