Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Fyrstu ritsmíðar Árna sem kallast gætu vísindalegar munu vera tvær ritgerðir til fyrrihluta prófs í íslenskum fræðum vorið 1956. Önnur var í merkingarfræði og hét Aldur, uppruni og saga nokkurra íslenskra hátíðanafna. Hin var í sagnfræði og hét Skreiðarútflutningur Íslendinga fram til 1432. Næst kom 1961 kandídatsritgerð í menningarsögu og hét Jól á Íslandi. Hún kom út sem bók hjá Sögufélaginu árið 1963.
Vormisserið 1962 hélt Árni fyrirlestraröð (á þýsku) um íslenskar fornbókmenntir við norrænudeild háskólans í Greifswald og nefndist hún Klassische isländische Literatur. Frá þeim tíma hefur hann velt fyrir sér þeirri ósvöruðu spurningu, af hverju Íslendingar höfðu þá sérstöðu meðal evrópskra þjóða að skrifa fornsögur sínar á móðurmálinu. Seinasta niðurstaða hans birtist árið 2017 í bókinni Í hálfkæringi og alvöru.
Árni Björnsson hefur lengi velt fyrir sér þeirri ósvöruðu spurningu, af hverju Íslendingar höfðu þá sérstöðu meðal evrópskra þjóða að skrifa fornsögur sínar á móðurmálinu.
Árin 1965-1968 var Árni styrkþegi við Árnastofnun og vísindaútgáfa hans á Laurentius sögu biskups kom út árið 1969. Frá sama ári starfaði hann við þjóðháttadeild Þjóðminjasafnsins og var á næstu áratugum í nánum tengslum við fjölda aldraðs fólks um allt land. Hann flutti árum saman vikulega þætti um íslenska þjóðhætti í Ríkisútvarpinu og skrifaði margar greinar í Árbók Fornleifafélagsins, einkum um einstaka hátíðisdaga, svo sem Sumardaginn fyrsta, Vökustaur, Kyndilmessu, Góu, Töðugjöld og Þjóðminningardaga. Einnig um Þorrablót í afmælisrit Kristjáns Eldjárn 1976.
Árið 1977 gaf Árni út litla bók án tilvísana sem hét Saga daganna og varð brátt mikið lesin og ívitnuð. Árið 1981 gaf hann út aðra álíka sem hét Merkisdagar á mannsævinni. Hún var þó nær vísindariti en hin að því leyti að þar var getið helstu heimildarita. Árið 1983 kom út bókin Í jólaskapi myndskreytt af Hring Jóhannessyni og árið 1984 bókin Gamlar þjóðlífsmyndir þar sem Halldór J. Jónsson valdi myndir en Árni skrifaði skýringartexta. Árið 1986 kom út fræðiritið Þorrablót á Íslandi og 1987 bókin Hræranlegar hátíðir um þá daga sem tengjast svonefndum páskahring frá föstuinngangi til þrenningarhátíðar. Árið 1990 kom út uppflettiritið Íslenskt vættatal en árið 1993 kom vísindaútgáfa Sögu daganna og var tveim árum seinna varin sem doktorsrit. Árið 1996 kom vísindaútgáfa af Merkisdögum á mannsævinni.
Árið 1996 birtist í Skírni ritgerðin Hvað merkir þjóðtrú? sem er einskonar uppgjör við þrálátar fullyrðingar um landlæga hjátrú Íslendinga. Skömmu seinna tók Árni að sér að kanna tengsl Richards Wagners við íslenskar fornbókmenntir og árið 2000 kom út bókin Wagner og Völsungar, seinna einnig á þýsku og ensku. Árið 2003 samdi Árni ritgerðina Íslensk menning milli stríða í 1. bindi ritverksins Úr torfbæjum inn í tækniöld. Árið 2006 kom út Saga jólanna sem segja má að sé uppfærð og mikið myndskreytt útgáfa á fyrstu bók höfundar ásamt kafla um jólahald í 44 löndum í öllum heimsálfum. Árið 2014 kom út bókin Sigursveinn – baráttuglaður brautryðjandi um tónskáldið og skólastjórann Sigursvein D. Kristinsson. Árið 2017 kom út bókin Sóley sólufegri með skýringum við Sóleyjarkvæði Jóhannesar úr Kötlum og sama ár kom út ritgerðasafnið Í hálfkæringi og alvöru.
Árni var lengi virkur í Ferðafélagi Íslands og samdi þrjár árbækur þess: Breiðafjarðareyjar (ásamt Eysteini G. Gíslasyni) 1989, Í fjallhögum milli Mýra og Dala (ásamt Guðrúnu Ásu Grímsdóttur) 1997 og Í Dali vestur 2011. Hann hefur fengist við mörg fleiri málefni, var um tíma tíður gestur í hljóðvarpi og sjónvarpi og hefur flutt fyrirlestra í þrem heimsálfum. Flest ritverk hans má finna á Gegni og Tímarit.is. Nokkur svör hans eru einnig á Vísindavef Háskóla Íslands.
Mynd:
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvaða rannsóknir hefur Árni Björnsson stundað?“ Vísindavefurinn, 25. desember 2018, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=76916.
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. (2018, 25. desember). Hvaða rannsóknir hefur Árni Björnsson stundað? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=76916
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvaða rannsóknir hefur Árni Björnsson stundað?“ Vísindavefurinn. 25. des. 2018. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=76916>.