Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
ForsíðaVísindavefur1918Hvaða áhrif hafði fullveldið á menningarástand og leikhúslíf á Íslandi?
Saga byggingar Þjóðleikhússins er að segja má samofin fullveldi Íslands sem og stofnun lýðveldisins.
Á síðari hluta nítjándu aldar koma fram hugmyndir um byggingu leikhúss sem eiga margt skyld við þjóðleikhúshugmyndir, en það er ekki fyrr en í byrjun tuttugustu aldar sem krafan rís um byggingu þjóðleikhúss. Í júlí 1907 birtist grein í tímaritinu Skírni eftir leikskáldið og hagfræðinginn Indriða Einarsson undir titlinum „Þjóðleikhús“, þar sem lagður var fram rökstuðningur fyrir byggingu þjóðleikhúss auk útreikninga á kostnaði við bygginguna, sem þyrfti að rúma minnst 500 áhorfendur til að gæta mætt þörfum vaxandi þjóðar fram til ársins 2000. Indriði benti á að helsta leikhús bæjarins, Iðnó, sem þá var tíu ára gamalt, væri orðið of lítið og óhentugt og myndi ekki ná að anna vaxandi íbúafjölda. En helstu rök hans fyrir byggingunni voru þó önnur. Indriði taldi að með auknu einstaklings- og þjóðfrelsi sem unnist hafði frá því um miðbiki nítjándu aldar hefðu skapast forsendur fyrir því að leiklist gæti þrifist, en „sá sem er bundinn andlega af ytri valdi er ekki efni í hetju í alvarlegu leikriti.“ (147) Indriði leit svo á að leiklist næði ekki flugi nema bæði einstaklingurinn og þjóðin væru orðin frjáls og að sterk þjóðernistilfinning væri undirstaða þess að ná auknum menningarlegum þroska:
„Að þjóðernistilfinningin er til mun engum blandast hugur um. Það vita allir. Að hún er sterk, getur hver maður vitað, sem sér eða heyrir hvað við ber hér á landi, og að hún er ekki komin upp í gær eða í fyrra dag vita allir, sem þekkja viðburðina hér á fyrri öld. Allar listir og mentir, sem íslenzkir menn iðka, ber hún á herðum sér, og fyrir hennar aðstoð náum vér innan skamms efstu riminni í menningarstiganum, eða fáum þjóðleikhús, og fyr en það er fengið eru Íslendingar ekki orðnir mentaþjóð.“ (148)
Í júlí 1907 birtist grein í tímaritinu Skírni eftir leikskáldið og hagfræðinginn Indriða Einarsson undir titlinum „Þjóðleikhús“, þar sem lagður var fram rökstuðningur fyrir byggingu þjóðleikhúss. Indriði Einarsson.
Þó svo að Indriði hafi litið svo á að Íslendingar gætu ekki talist menntaþjóð fyrr en þeir eignuðust þjóðleikhús hlaut hvatning hans árið 1907 ekki mikinn hljómgrunn. Íslendingar voru fámennir og þótti ekki líklegt að þeir gætu haldið slíku leikhúsi uppi, hvað þá fjármagnað slíka framkvæmd. Indriði sjálfur nefndi í grein sinni að hér vantaði helst leikritaskáld, en á þeim tíu árum sem liðin voru frá stofnun Leikfélags Reykjavíkur árið 1897 hafði félagið aðeins sýnt eitt íslenskt leikrit. Í þessum efnum varð viðsnúningur á næstu árum, en frá 1907 til 1920 sýndi leikfélagið 14 íslensk leikrit. Á meðal þeirra voru verk höfunda á borð við Jóhann Sigurjónsson og Guðmund Kamban, en báðir fengu þeir verk sín sýnd á leiksviðum erlendis. Árið 1915 gerði Indriði Einarsson aðra tilraun til að vekja máls á þjóðleikhússbyggingu í grein í tímaritinu Óðni og benti aftur á hvernig þjóðleikhús væri táknmynd um menningarstig hverrar þjóðar. Íslensk þjóð hefði tekið stór skref til aukins þroska, en „mænirinn á bygginguna er ókominn, en hann er leikhúsið. Það er efsta loft menningarinnar í hverju landi.“ (74) Auk þessa sótti Indriði nú röksemdir til velgengni Jóhanns Sigurjónssonar og Guðmundar Kamban á erlendri grund:
„Í nafni listarinnar, vegna íslensks þjóðernis, og vegna heiðurs þjóðarinnar, krefst ég þess, að hjer verði reist sæmilegt leikhús, og það gert svo úr garði, að leikrit þessara manna verði leikin fyr hjer á landi en nokkurstaðar annarstaðar. Annars er sem við viljum ekki kannast við þá, og það gleymist að þeir sjeu íslenskir menn. Útlendingar hugsa, að ritin hafi verið lögð út á íslensku, en ekki skrifuð á málinu, ef þau eru leikin hjer seint og síðar meir, og landið fer á mis við heiðurinn, að eiga þau.“ (76)
Í þetta sinn fékk krafan um þjóðleikhús meiri hljómgrunn og litaðist mjög af umræðu um íslenskt fullveldi. Í grein í Ísafold í október 1915 var tekið undir kröfur Indriða og bent á að þjóðleikhús væri ein af undirstöðum sjálfstæðrar menningar, en án slíkrar menningar gætu Íslendingar ekki talist til fullvalda þjóða. Morgunblaðið tók í sama streng og í vikublaðinu Þjóðstefna var bygging þjóðleikhúss sögð lykilþáttur í mótun menningarlegs fullveldis: „Saga sjálfstæðrar íslenzkrar nútímamenningar í höfuðstaðnum byrjar þegar þjóðleikhús verður stofnað í Reykjavík.“
Í kjölfar fullveldis hlaut þjóðleikhúskrafan auknar undirtektir og að lokum fór svo að Alþingi samþykkti að ráðast í byggingu þjóðleikhúss árið 1923. Mynd af Þjóðleikhúsinu á forsíðu Tímans frá 1950.
Í kjölfar fullveldis hlaut þjóðleikhúskrafan auknar undirtektir og að lokum fór svo að Alþingi samþykkti að ráðast í byggingu þjóðleikhúss árið 1923. Bygginguna skyldi fjármagna með skemmtanaskatti og var stefnt á að vígja húsið í tilefni af 1000 ára afmæli Alþingis árið 1930. Svo fór þó ekki. Þegar afmælisárið rann upp voru framkvæmdir hafnar við húsið, en það var ekki tilbúið til notkunar, og þegar kreppan skall á það sama ár var ákveðið að láta skemmtanaskattinn renna í ríkissjóð í stað byggingarsjóðs Þjóðleikhússins. Sjóðurinn tæmdist því og húsið stóð hálfbyggt við Hverfisgötuna í á annan áratug. Við hernám Breta í síðari heimsstyrjöldinni var húsið tekið herskildi og þótti mörgum það mikil niðurlæging að sjá þessa táknmynd sjálfstæðrar menningar notaða sem birgðastöð erlends herliðs.
Samhliða undirbúningi þýðveldisstofnunar fór hins vegar krafan vaxandi um að lokið skyldi við byggingu hússins á sömu forsendum og áður: að þjóðleikhús væri eitt mikilvægasta tákn þess að þjóð gæti talist menningarlega fullvalda. Sama ár og lýðveldi var stofnað samþykkti breski herinn að yfirgefa húsið og framkvæmdir hófust að nýju. Þjóðleikhúsið opnaði loks á sumardaginn fyrsta árið 1950.
Heimildir:
Ólafur Rastrick: Háborgin: Menning, fagurfræði og pólítík í upphafi tuttugustu aldar. Reykjavík: Háskólaútgáfan 2013.
Sveinn Einarsson: Íslensk leiklist III: 1920-1960. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag 2016.
Magnús Þór Þorbergsson: A Stage for the Nation: Class, Identity and the Shaping of a Theatrical Field in Iceland 1850-1930. Doktorsritgerð við Íslensku- og menningardeild 2017.
Magnús Þór Þorbergsson. „Hvaða áhrif hafði fullveldið á menningarástand og leikhúslíf á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 3. janúar 2019, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=76822.
Magnús Þór Þorbergsson. (2019, 3. janúar). Hvaða áhrif hafði fullveldið á menningarástand og leikhúslíf á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=76822
Magnús Þór Þorbergsson. „Hvaða áhrif hafði fullveldið á menningarástand og leikhúslíf á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 3. jan. 2019. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=76822>.