Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Kristín Ingólfsdóttir er fyrrverandi rektor Háskóla Íslands og prófessor við Lyfjafræðideild. Hún stundaði nám í lyfjafræði við Háskóla Íslands og við King's College, University of London, þaðan sem hún lauk doktorsprófi. Rannsóknir hennar hafa einkum snúist um efnafræði og lífvirkni efna sem finnast í íslenskri náttúru. Annars vegar hafa þær beinst að efnum úr fléttum, mosum, skógarplöntum og sjávarlífverum sem gætu haft þýðingu sem lyfjasprotar. Hins vegar hefur Kristín rannsakað eiturefni sem finnast í náttúrunni. Rannsóknir hennar hafa verið unnar í samstarfi við fjölmarga vísindamenn hérlendis og erlendis og við nemendur í lyfja-, líf- og læknisfræði.
Fléttur eru lífverur sem myndast við sambýli sveppa og þörunga og vaxa hægt, oft við erfið skilyrði. Sér til varnar mynda fléttur margvísleg efni. Til að kanna hvort slík efni geti haft eftirsótta lífvirkni út frá lyfjafræðilegum forsendum eru efni einangruð úr fléttum og virkni þeirra prófuð í tilraunaglösum (in vitro), í tilraunadýrum (in vivo) og á einangruð líffæri tilraunadýra.
Rannsóknir Kristínar hafa einkum snúist um efnafræði og lífvirkni efna sem finnast í íslenskri náttúru.
Rannsóknir Kristínar á fléttuefnum snérust annars vegar um ónæmisvirkni fjölsykra in vitro og in vivo, og hins vegar um lífvirkni smærri sameinda. Rannsóknirnar fólust í einangrun, lífvirkniprófunum og sameindagreiningu virkra efna. Efni úr flokki depsíða, depsídóna, díbensófúrana, alkamíða og alifatískra laktóna sýndu mörg hver veiruhemjandi og sýklahemjandi áhrif, meðal annars á berklabakteríu, Helicobacter, og bakteríur sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum. Tiltekin efni sýndu mjög áhugaverð hemjandi áhrif á vöxt ræktaðra illkynja frumna. Einnig kom í ljós marktæk hemjandi virkni fléttuefna gegn ensímunum lípóxygenasa og cyklóoxygenasa in vitro og gegn leukótríenmyndun í sléttum vöðvum tilraunadýra.
Kristín og samstarfsmenn hennar þróuðu aðferðir til að greina magn eiturefna í íslenskum plöntum; glýkóalkalóíða í kartöflum, pyrrolizidín alkalóíða í krossfífli og hóffífli og akonítín í venusvagni (bláhjálmi), en síðasttalda plantan er talin ein eitraðasta planta sem vex í Evrópu.
Auk erlendra vísindagreina hefur Kristín skrifað talsvert á íslensku um nytjaplöntur og nýtingu náttúruefna í lyfjagerð. Þá hefur hún skrifað um algeng fæðubótarefni og náttúrumeðul sem ekki hafa verið rannsökuð vísindalega og hvers beri að gæta við notkun.
Rannsóknir Kristínar og þau efnasambönd sem einangruð voru úr íslenskum lífverum hafa lagt grundvöll að ýmsum rannsóknarverkefnum innan Háskólans Íslands og utan.
Eftir að Kristín lauk störfum sem rektor Háskóla Íslands var hún gestaprófessor við MIT-háskólann í Boston. Hún hafði aðsetur í MIT Media Lab sem er nýsköpunarmiðja háskólans en einnig við Center for Digital Learning og edX. Hún hefur síðan unnið að því að efla stuðning við rannsóknatengda nýsköpun hér á landi. Kristín hefur sem rektor og í starfi sínu við MIT beint athygli að þróun nýrra kennsluhátta og nýtingu upplýsingatækni við þróun náms á ýmsum stigum. Hún hefur skrifað og flutt erindi víða um heim um nauðsyn samræmingar menntunar við breytingar á þörfum atvinnulífs sem stafa af tæknibyltingunni, og jafnframt við nýjar þarfir til að tryggja vellíðan ungs fólks.
Mynd:
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvað hefur vísindamaðurinn Kristín Ingólfsdóttir rannsakað?“ Vísindavefurinn, 24. desember 2018, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=76677.
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. (2018, 24. desember). Hvað hefur vísindamaðurinn Kristín Ingólfsdóttir rannsakað? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=76677
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvað hefur vísindamaðurinn Kristín Ingólfsdóttir rannsakað?“ Vísindavefurinn. 24. des. 2018. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=76677>.