Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Viðar Guðmundsson er prófessor í eðlisfræði við Háskóla Íslands. Hann lauk B.Sc.-gráðu frá Háskóla Íslands 1978, M.Sc.-gráðu frá Háskólanum í Alberta í Kanada 1980, og Ph.D.-gráðu frá sama skóla 1985. Viðar vann við rannsóknir á Max Planck-stofnuninni í Stuttgart í 3 ár áður en hann tók við rannsóknastöðu við Raunvísindastofnun Háskólans 1988.
Rannsóknir Viðars hafa snúist um líkanagerð af ýmsum eiginleikum rafeindakerfa í skertum víddum í manngerðum hálfleiðurum. Þannig hefur hann ásamt fjölda samverkamanna rannsakað hegðun rafeinda í skammtapunktum, vírum og á tvívíðum skilflötum einangarara og hálfleiðara. Öll þessi kerfi eru grunneiningar í örrásum rafeindatækni nútímans og framtíðarinnar. Líkönin hafa lýst leiðni, ljósísogi, geislun og seglun kerfanna. Áhersla hefur oftast verið á nákvæmri lýsingu á samspili víxlverkana eindanna í kerfunum og lögun þeirra.
Rannsóknir Viðars hafa snúist um líkanagerð af ýmsum eiginleikum rafeindakerfa í skertum víddum í manngerðum hálfleiðurum.
Við líkanasmíðina hefur þurft á greinireikningum á pappír og tölulegum reikningum í tölvum að halda. Viðar kom upp fyrstu tölvuþyrpingu Háskólans 1999. Hún hét nano.raunvis.hi.is og var gerð úr 16 vélum með einskjarna örgjörvum, sem notaðar voru til samhliða reikniverkefna, þar sem allir örgjörvar þyrpingarinnar gátu unnið að sama reikniverkefninu á sama tíma. Í framhaldinu vann Viðar ásamt Hannesi Jónssyni prófessori í efnafræði að frekari uppbyggingu þyrpinga með styrkjum frá Innviðasjóði. Sú uppbygging hefur eflst með þátttöku fleiri undir merkinu ihpc.is vegna vaxandi þarfar á öflugri líkanagerðar á flestum sviðum vísinda.
Undanfarið hefur Viðar unnið að reikningum á tímaháðri leiðni rafeinda um örsmá hálfleiðarakerfi inni í ljóseindaholum. í þessum rannsóknum er fengist við spurningar eins og: Hvernig er hægt að stýra leiðninni með ljóseindunum? Hvað þarf langan tíma til þess? Getur leiðnin sagt til um hve margar ljóseindir séu í holinu? Þessar rannsóknir tengjast mögulegum vélbúnaði í skammtatölvur gerðum úr hálfleiðurum.
Samstarfsmenn Viðars hafa verið og eru í Þýskalandi, Íslandi, Rúmeníu, Taívan, Spáni, Frakklandi, Íraska Kúrdistan, Kanada, Bandaríkjunum, Japan og Armeníu. Rannsóknaniðurstöðurnar hafa verið birtar í fjölda greina í alþjóðlegum ritrýndum vísindatímaritum í eðlis-, efna-, stærð- og verkfræði auk vísindaforritunar.
Viðar hefur kennt yfir 20 mismunandi námskeið við Háskóla Íslands og ávallt leitast við að vekja áhuga nemenda á samtvinnun greini- og tölulegra aðferða til að öðlast djúpan og myndrænan skilning á viðfangsefninu.
Mynd:
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvað hefur vísindamaðurinn Viðar Guðmundsson rannsakað?“ Vísindavefurinn, 13. nóvember 2018, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=76615.
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. (2018, 13. nóvember). Hvað hefur vísindamaðurinn Viðar Guðmundsson rannsakað? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=76615
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvað hefur vísindamaðurinn Viðar Guðmundsson rannsakað?“ Vísindavefurinn. 13. nóv. 2018. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=76615>.