Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Snorri Þór Sigurðsson er prófessor í efnafræði við Raunvísindadeild Háskóla Íslands. Hann starfar við lífræna efnafræði, en sérsvið hans eru kjarnsýruefnafræði og efnafræði stöðugra stakeinda. Rannsóknir Snorra eru í eðli sínu þverfaglegar og byggja að miklu leyti á samvinnu við bæði íslenska og erlenda rannsóknahópa, sem starfa á sviði eðlisfræði, líffræði, lífefnafræði og læknisfræði. Megináhersla í rannsóknum Snorra er þróun og notkun litrófsgreiningaraðferða við rannsóknir á lífsameindum, sérstaklega á kjarnsýrum og prótínum.
Snorri Þór Sigurðsson hefur stundað fjölbreyttar rannsóknir sem byggja að miklu leyti á smíði og notkun stöðugra stakeinda við segulómunarmælingar á lífsameindum. Hér er hann með rannsóknahópi sínum á Raunvísindastofnun Háskólans.
Skilningur á líffræðilegum ferlum byggir á upplýsingum um byggingu og hreyfingu þeirra sameinda sem koma þar við sögu. Slíkur skilningur er ekki einungis varða á ferðalaginu í leit að þekkingu, heldur getur einnig gert kleift að finna leiðir til að hafa áhrif á slík ferli, til að mynda við lækningu sjúkdóma. Þær litrófsgreiningaraðferðir sem Snorri Þór hefur unnið mest með byggja á notkun segulsviðs, en margir þekkja af eigin reynslu notkun segulómunar í læknisfræði sem notuð er við myndgreiningu á líkamsvefjum. Rannsóknir hans notast við segulómun, bæði kjarnsegulómun og rafeindasegulómun, til þess að rannsaka lífsameindir. Einn meginhluti rannsóknanna beinist að því að þróa og betrumbæta þessar aðferðir.
Sá flokkur efna sem gegnt hefur lykilhlutverki í þessum rannsóknum eru stakeindir (e. free radicals, einnig kallað sindurefni). Í stuttu máli eru stakeindir efnasambönd sem innihalda óparaða rafeind og koma reyndar við sögu í mörgum ferlum líkamans, til dæmis sem taugaboðefni og við niðurbrotsferli sem tengjast öldrun, því flestar stakeindir eru óstöðugar og geta valdið skaða á mikilvægum sameindum líkamans. Snorri Þór hefur aftur á móti smíðað og notað stöðugar stakeindir við rannsóknirnar sem byggja á segulómun. Til að mynda hefur hann smíðað kjarnsýrur, bæði DNA og RNA, sem innihalda stífar (hreyfiskertar) stakeindir fyrir mælingar á hreyfingu og byggingu þeirra.
Upplýsingar um byggingu og hreyfingu á kjarnsýrum er unnt að fá með rafeindasegulómun. Myndin sýnir dæmi um slíkar mælingar á sveigjanlegri DNA-sameind sem inniheldur stífar (hreyfiskertar) stakeindir (vinstra megin) og þá breytilegu lögun sem hún hefur (hægra megin).
Hin síðari ár hefur Snorri Þór hafið rannsóknir á nýlegu og ört vaxandi rannsóknasviði þar sem næmni segulómunar er aukin með notkun stöðugra stakeinda. Nánar tiltekið hefur hann smíðað stöðugar tvístakeindir í því augnamiði að magna kjarnaskautun (e. dynamic nuclear polarization), en það leiðir til mikillar styttingar á mælitíma segulómunarmælinga. Nýlega sótti hann um einkaleyfi ásamt samstarfsmönnum í Frakklandi fyrir slíkum sameindum.
Snorri Þór Sigurðsson lauk BS-prófi í efnafræði frá Háskóla Íslands árið 1987 og doktorsprófi í lífrænni efnafræði frá Háskólanum í Washington árið 1993. Hann starfaði sem nýdoktor við Max-Planck-Institut für Experimentelle Medizin til ársins 1996 og síðan við Háskólann í Washington sem rannsóknaprófessor. Snorri Þór hefur verið prófessor við Háskóla Íslands frá árinu 2002. Snorri Þór er höfundur yfir 110 ritrýndra fræðigreina í alþjóðlegum vísindatímaritum, auk 20 yfirlitsgreina og bókarkafla.
Myndir:
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvað hefur vísindamaðurinn Snorri Þór Sigurðsson rannsakað?“ Vísindavefurinn, 4. október 2018, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=76405.
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. (2018, 4. október). Hvað hefur vísindamaðurinn Snorri Þór Sigurðsson rannsakað? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=76405
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvað hefur vísindamaðurinn Snorri Þór Sigurðsson rannsakað?“ Vísindavefurinn. 4. okt. 2018. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=76405>.